04.05.1949
Sameinað þing: 70. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í D-deild Alþingistíðinda. (4950)

182. mál, afnám ríkisfyrirtækja o.fl.

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Flm. þessarar till. hafa gert grein fyrir henni í ræðum. Ég mun ekki ræða hér einstök atriði þess, sem þeir færðu fram, en vildi víkja lítils háttar að nokkrum atriðum í ræðu hv. 5. þm. Reykv. (SK). Hann fór nokkuð víða í framsöguræðu sinni og minntist m. a. á stofnanir, sem ekki eru teknar með í till., eins og Síldarverksmiðjur ríkisins, og sagði, að komið hefði frá þeim beiðni um ríkisábyrgð. Það er vitanlegt, að beiðni um ábyrgð vegna skulda hefur ekki komið frá öðrum en hinum nýbyggðu verksmiðjum á Siglufirði og Skagaströnd. Bygging þeirra var ekki í höndum stjórnar síldarverksmiðjanna, heldur í höndum sérstakrar byggingarnefndar, sem skildi þannig við fjármálin, að óreiðuskuldir hvíla á stofnuninni, af því að allt fór í handaskolum fyrir n. Að öðru leyti hefur stjórn síldarverksmiðjanna óskað eftir, að ríkið tæki að sér þann halla, sem varð á rekstrinum í sambandi við Hvalfjarðarsíldina, því að það var ekki stjórn verksmiðjanna, sem ákvað verð Hvalfjarðarsíldarinnar, og það var ekki miðað við kostnað, heldur við alþjóðarhag, og Hvalfjarðarsíldin varð líka til þess að bjarga gjaldeyrisástandinu frá hreinum voða. Það er því sanngjarnt, að ríkið taki að sér þær skuldir, sem mynduðust við þennan rekstur, því að ekki var miðað við, að hann bæri sig, heldur að því stefnt að fá sem mestan gjaldeyri. Þetta vildi ég láta koma fram, því að hv. 5. þm. Reykv. gerði þetta að umtalsefni, þó að í till. sé hvergi vikið að verksmiðjunum.

Hv. þm. V-Húnv. (SkG) hefur réttilega bent á, að þessi till., eins og önnur svipuð, er fram hefur komið, en er orðuð á annan hátt, er allfurðuleg. Hér er hrúgað saman óskyldum atriðum og ætlazt til, að um þau verði gerðar ráðstafanir „til samdráttar ríkisrekstri og lækkunar á gjöldum ríkisins, enda undirbúi stjórnin lagabreytingar þar að lútandi eftir því, sem með þarf“, eins og stendur í till. Nú er það svo, eins og hv. þm. V-Húnv. tók fram, að mörg af þessum atriðum er hægt að afnema með einfaldri lagasetningu, ef Alþ. vildi. Nú geri ég ráð fyrir því, ef flm. hefðu talið líklegt, að afnumin yrði viss löggjöf, sem hér er minnzt á, að þá hefðu þeir fremur kosið að bera þetta fram í frumvarpsformi, en sem þáltill., þar sem þeir vita, að engin breyt. verður gerð á l. með þál. Þeir hafa því að ýmsu leyti fremur flutt till. til þess að sýnast, en að fá nokkru áorkað og efalaust verið það ljóst. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að í till. eru atriði, sem ég gæti greitt atkv. með, en þar eru aftur önnur atriði, sem yrðu til þess, verði þau samþ. við fyrri umr., að ég greiddi atkv. á móti till. við síðari umr.

Ef litið er á 1. lið, er þar lagt til, að ríkisrekstur áætlunarbifreiða verði lagður niður og eignir ríkisins vegna þessarar starfrækslu seldar. Þetta atriði hefur komið hér mjög til umr. í sambandi við aðra till. í Sþ., og sé ég því ekki ástæðu til að gera þetta að umtalsefni. Ég vildi þó geta þess, að hæstv. samgmrh. hefur sýnt fram á, að sérleyfisrekstur ríkisins var tekinn upp vegna þess, að einstaklingar treystu sér ekki til að hafa þetta með höndum. Það gildir hér hið sama og um strandferðirnar, það er ekki á valdi annarra, en ríkisins að halda þessu uppi. Af þessum ástæðum, meðan ekki er sannað, að hægt sé að halda þessu uppi af öðrum, mun ég greiða atkv. á móti þessari till. Í þjóðlífi okkar, eins og því er háttað nú, eru þessar samgöngur svo mikið hagræði fyrir almenning, að ekki verður upp á það horft, að þær séu lagðar niður. Hitt má vera, að eitthvað mætti breyta til, t. d. leggja þessar ferðir niður á veturna og nota strandferðaskipin í staðinn, og þó tel ég vafasamt, að þeir, sem búa við þær, mundu sætta sig við það.

Þá er næsti liður um það, að landssmiðjan verði seld, ef viðunandi tilboð fæst. Landssmiðjan var stofnuð til þess að vinna að nauðsynlegum framkvæmdum fyrir ákveðnar ríkisstofnanir. Þó að árangurinn hafi ekki alltaf verið góður, verður því ekki neitað, að hún hefur verið til hagsbóta fyrir þær ríkisstofnanir, sem hún hefur átt að vinna fyrir. Nú má rekstur hennar heita í mjög góðu lagi, og hún hefur gefið verulegan arð síðasta ár. Ég tel það því misráðið að hætta rekstri hennar, því að með því færi forgörðum talsvert verðmæti og reynsla, er ríkissjóður hefur orðið að borga og orðin er mikils virði.

Þriðji liðurinn er um það, að Trésmiðja ríkisins í Silfurtúni verði seld, ef viðunandi tilboð fæst. Ég vildi í þessu sambandi segja, að til ríkisrekstrar verður að gera sömu kröfur og til einstaklingsrekstrar, að hann sé sæmilega undirbúinn og í því formi, að hann svari kostnaði. Það er engin ástæða til þess fyrir Alþfl. að taka upp vörn fyrir ríkisrekstur, sem þannig er til stofnað, að hann kemur ekki ríkinu að gagni eða sparar því fé. Ég lít svo á, að það þyrfti að setja með l. almennar reglur um ríkisrekstur, hvernig til hans skuli stofnað og hvernig hann skuli afnuminn. Ég tel, að ýmislegt hafi komið fram, bæði í tíð núv. stj. og fyrrv. stj. og raunar áður, er geri það æskilegt, að ekki sé ráðizt í ríkisrekstur nema með góðum undirbúningi. Ég hygg, að svo hafi ekki verið um trésmiðjuna í Silfurtúni. Hús eru þar léleg, lóðargjald hærra, en í Hafnarfirði og vélarnar þannig, að þær eru ekki nothæfar nema keyptar séu vélar, er kosta á annað hundrað þús. kr., til þess að hægt sé að halda rekstrinum áfram. Auk þess er mér sagt, að Landssmiðjan hafi það marga trésmiði og þeir hafi ekki meira að gera en það, að þeir geti auðveldlega smíðað allt það, sem ríkið hefur þörf fyrir. Landssmiðjan hafði nóg húsnæði og nægilegan vélakost og vinnuafl til þess að vinna þessi störf. Ég hefði þess vegna talið mér fært að greiða þessari till. atkv. einni út af fyrir sig. Það er sem sagt ákaflega fjarri mér sem Alþfl.manni að styðja ríkisrekstur, sem stofnsettur er að óþörfu og ekki getur borið sig.

Þá er í 4. lið lagt til, að afnumin verði vöruskömmtun nema á bifreiðagúmmíi. Með þessum 4. lið hafa flm. komið inn á fyrirkomulagsatriði, sem eru ríkisrekstri óskyld. Það vita allir, hvers vegna skömmtun var komið á hér á landi, þegar allar búðir voru að verða tómar og gjaldeyrir á þrotum, á sama tíma og aðrar þjóðir voru að afnema skömmtun hjá sér. En hún er óviðkomandi öllum ríkisrekstri, og er flm. það efalaust ljóst, þótt þeir hafi nú blandað þessu inn í frv. Vöruskömmtun var á sínum tíma tekin upp af illri nauðsyn til þess að reyna að tryggja, að vörunni væri skipt jafnt á milli manna, og ég hygg, að allir séu sammála um, að hana beri að afnema undireins og fært þykir. Nú hefur það verið svo með gjaldeyri okkar, að við höfum barizt í bökkum og ekki safnað neinum gjaldeyrisinnstæðum, þótt við höfum gert mikið átak til þess að koma á vöruskiptajöfnuði milli innfluttrar og útfluttrar vöru. Jafnskjótt og eitthvað rætist úr með þetta, er einsætt að afnema skömmtun. Hins vegar mundi það vera óráð eins og nú standa sakir að afnema vöruskömmtun. E. t. v. mætti rýmka hana eitthvað, en þó eru vandkvæði á því á meðan fólk hefur svona mikið fé handa á milli, en hins vegar ekki hægt að fullnægja vöruþörfinni vegna gjaldeyrisskorts. Um þetta þarf enga áskorun til ríkisstj., því að jafnskjótt og gjaldeyrir verður nægur fyrir hendi til kaupa á neyzluvörum, verður skömmtun á þeim afnumin. Um það eru allir sammála.

Þá fjallar 5. liður um það, að Viðtækjaverzlun ríkisins verði afnumin, og 9. liður um það, að grænmetisverzlun ríkisins verði lögð niður. Mér er nú ekki ljóst, hvað fyrir hv. flm. vakir. Ekki verður með neinum sanni haldið fram, að þessi fyrirtæki séu baggi á ríkinu. Viðtækjaverzlunin hefur gefið ríkinu eða því ríkisfyrirtæki, sem rekur hana, útvarpinu, verulegar tekjur á undanförnum árum, og ég hygg, að rekstur hennar sé ekki í neinu því ólagi, sem réttlæti það, að hún sé afnumin. Sama máli gegnir um Áburðar- verzlun og Grænmetisverzlun ríkisins. Þetta fyrirtæki er mjög vel rekið af einum og sama manni og hefur gefið góðan árangur. Það er kunnugt, að í frv. um áburðarverksmiðju ríkisins, sem hefur legið fyrir þessu þingi, er geri ráð fyrir, að úr varasjóði áburðarsölunnar verði lögð fram 1 millj. til Áburðarverksmiðjunnar. Ekki hefði þetta verið sett inn algerlega út í loftið, ef ekkert fé væri í sjóðnum. Um Grænmetisverzlun ríkisins komst hv. 5. þm. Reykv. svo að orði, að hún seldi kartöflur fyrir allt of hátt verð. Það mun nú að vísu standa í sambandi við verðlagsákvæði samkv. öðrum lögum og vera ákveðið með hliðsjón af innlendu framleiðsluverði.

Hv. 5. þm. Reykv. komst að orði á þá leið, að með því að afnema verzlunarrekstur ríkisins, gæti fólk, sem við hann ynni, farið í annan atvinnurekstur, því að ekki þyrfti að fjölga fólki við atvinnurekstur einstaklinga, þó að verzlunarrekstur ríkisins væri lagður niður. Með þessu mun hv. þm. hafa átt við annað tveggja, að við störf í verzlunum ríkisins ynni allt of margt fólk eða hitt, að við einkafyrirtæki ynni svo margt fólk, að það gæti bætt á sig þeim störfum, sem unnin eru af þeim, sem vinna við ríkisfyrirtækin. Það síðara mun vera hið rétta. En ef svo er, sannar það ekki annað en það, að verzlunarrekstur einstaklinga er yfirleitt rekinn af meiri óhagsýni en verzlunarrekstur ríkisins. Ég hygg t. d., að það sé ekki fleira starfsfólk en svo við grænmetis- og áburðarverzlun ríkisins, að það geti alls ekki bætt við sig störfum. Hv. 5. þm. Reykv. hefur því orðið það á að sanna með röksemdafærslu sinni það, sem hann mundi vilja afsanna, að í þessu tilfelli sé ríkisrekstur hagkvæmari en einstaklingsrekstur. Þar sem svo er háttað um þessar ríkisverzlanir, að þær hafa gefið ríkissjóði tekjur, vil ég fyrir mitt leyti lýsa yfir, að ég mun greiða atkvæði á móti þessum liðum.

Þá er lagt til í 8. lið, að fiskiðjuver ríkisins í Rvík verði selt. Nú gegnir þar nokkuð sama máli og um trésmiðjuna í Silfurtúni, að það var stofnað án þess að til væri fyrir því lagaheimild, og er þar um rekstur að ræða, sem var mjög illa undirbúinn. Ég vil ítreka það, að mér er fjarri skapi að halda uppi ríkisrekstri, sem er illa undirbúinn og spillir fyrir öðrum ríkisrekstri, sem betur ber sig. Fiskiðjuverið í Rvík er í rauninni mistök. Rvík vantar oftast fisk mikinn hluta ársins, og þegar af þeim ástæðum var óhyggilegt að reisa fiskiðjuverið í Rvík, í stað þess að reisa það þar, sem fiskur fæst meiri hluta ársins og því unnt að starfrækja það lengri tíma.

Þá er lokið tillgr. um afnám ríkisrekstrar, en seinustu 5 liðirnir eru um allt annað efni, sem sé um breyt. á ýmiss konar löggjöf, sem sett hefur verið á seinni árum. Tvö atriði sérstaklega lúta að fræðslumálum. Í fyrsta lagi að afnema lögin um búnaðarskóla í Skálholti og að hækkaður verði kostnaður við fræðslumál með því að breyta l. um fræðsluskyldu og stytta skólaskyldu um 2 ár. Um fyrra atriðið vil ég segja það, að vel má vera, að taka ætti það til nokkurrar athugunar, hvort ætti að leggja í þessa skólabyggingu í Skálholti. Ég mun þó ekki hafa um þetta sömu ummæli og flm., þar sem áhugi hefur verið mikill fyrir þessu máli í héraði og það gæti orðið lyftistöng fyrir landbúnaðinn á Suðurlandsundirlendinu. En ég get tekið undir það með hv. flm., að á meðan ekki eru betur setnir þeir bændaskólar, sem nú starfa; þá sé vafi, hvort eigi að ráðast í þetta. En þó að löggjöfin um þetta sé ekki afnumin, hefur Alþ. í hendi sér að veita ekki fé, ef því sýnist svo, til framkvæmda. — Um fræðslumálin má segja, að vafalaust sé þörf á að endurskoða þar ýmislegt, en vafasöm ráðstöfun væri að stytta skólaskylduna á meðan ekki er nein reynsla fengin af þessu fyrirkomulagi. Hins vegar má vel vera, að í fræðslulöggjöfinni sé ýmislegt, sem breyta mætti til sparnaðar án saka, en á því þarf að fara fram athugun. En að stytta skólaskylduna um tvö ár, teldi ég ákaflega misráðið að svo komnu.

Þá eru nokkur atriði í till., sem beinlínis eru árás á þá félagsmálalöggjöf, sem Alþ. hefur sett á seinni árum og vakið hefur athygli á framtaki Íslendinga í mörgum öðrum löndum. Ég sé af þessu, að hv. 5. þm. Reykv. hefur þrátt fyrir það, þótt hans flokkur hafi gerzt aðili að ýmsum samþykktum þessarar löggjafar, haldið herkjunni frá því við áttumst við í gamla daga á Ísafirði, eða fyrir rúmum 20 árum. Hann virðist ekki hafa lært neitt í þá átt, að framþróunin í heiminum hefur gert nauðsynlega félagslöggjöf eins og þessa. Hann er sama sinnis og hann var, þegar hann barðist á móti ýmsum réttarbótum Alþýðuflokksmanna. Hann hefur m. ö. o. ekki fylgzt með þeim straumhvörfum, sem orðið hafa í mannréttindamálum, og hyggst að taka upp gömlu stefnuna, sem mörkuð var af ómildri fátækralöggjöf í stað alþýðutrygginga og af því ástandi, að menn gátu unnið í 40–50 ár á eyrinni án þess að eiga nokkurn tíma kost á því að ferðast út úr bænum. Ég þekkti á þeim árum menn, sem fluttu á eyrina utan af landi, unnu alla daga á mölinni og höfðu aldrei tök á því fyrir fátæktar sakir að vitja aftur sveitar sinnar. Úr þessu var orlofsl. ætlað að bæta, sem hv. þm. vill nú afnema, en hafa gefið mörgum manninum langþráð tækifæri til að kynnast sínu eigin landi. Af þessu vil ég segja, að þó að ekki væri nema þessi eini liður í till. á þessa lund, þá mundi ég greiða atkvæði á móti henni í heild. Þetta atriði eitt, þótt ekki væri annað, ber vott um svo mikinn íhaldshugsunarhátt og skilningsleysi á hug þjóðarinnar, að það á engan rétt á sér og mun líka eiga fáa formælendur, sem betur fer.

Þá er lagt til í 13. liðnum, að lög um vinnumiðlun verði afnumin. Hv. 5. þm. Reykv. komst svo að orði, að þau væru algerlega óþörf vegna þess, að atvinnuleysi hefði ekki verið í landinu um margra ára skeið. Nú eru lögin ekki sett vegna atvinnuleysis eingöngu, heldur til þess að safnað sé skýrslum um atvinnuástandið í landinu og til þess að greiða fyrir atvinnurekendum að fá vinnukraft og verkamönnum, sem vinnulitlir eru, að fá sér aðra atvinnu. Aðrar þjóðir telja sér svo mikils virði að vita, hvernig vinnunni er háttað á hverjum tíma, að t. d. Bretar og Bandaríkjamenn safna mánaðarlegum skýrslum um það, hve margir vinni í hverri grein og hve margir séu atvinnulausir. Ég hygg, að við þyrftum einmitt að eignast sams konar skýrslur til þess að geta flutt vinnuaflið á milli atvinnugreina og jafnvel landshluta, ef með þyrfti. Lögin um vinnumiðlun eru þarna byrjunin, og mundi litlu þurfa að bæta við kostnað skrifstofanna til þess að þær gætu gert slíkar skýrslur og hagstofan svo unnið úr þeim mánaðarlega. Tillgr. þessi fer því í sömu afturhaldsáttina og flestar hinna, og við mundum með því að gera slíkar samþykktir vera að ganga aftur á bak í gröfina.

Þá er lagt til í 11. gr., að lög um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga verði afnumin. Hann hefur þó komið að miklum notum og ríkið hefur ekki haft mikil útgjöld hans vegna, en honum hefur verið varið til þess að lækka tillög sveitarfélaga, sem hafa mjög há útgjöld vegna ómagaframfærslu; og er hætt við, að þeim þætti súrt í brotið, ef hann væri afnuminn.

Vel má vera, að ýmislegt í l. um almannatryggingar mætti betur fara, enda eru þær að fara í endurskoðun eða hún er þegar hafin skv. brbl-ákvæðum, er sett voru í l. í upphafi. Mér er ekki vel ljóst, hvað vakir fyrir hv. flm. með þessari till., og vildi spyrja hv. 5. þm. Reykv.: Telur hann t. d., að ellilífeyririnn sé of hár, sjúkradagpeningarnir of háir, eða of langt sé gengið í því að veita örkumla mönnum styrk? Hvað vill hann láta gera í þessu sambandi? Síðan alþýðutryggingal. voru sett og komu til framkvæmda, hafa ýmsar þjóðir, sem ekki eru komnar eins langt og við, breytt tryggingalöggjöf sinni í svipað horf og er hjá okkur, enda er löggjöf okkar samin að brezkri fyrirmynd, er hefur þótt svo merkileg, að í sjálfri háborg auðvaldsins, Bandaríkjunum, hefur Truman forseti lagt fyrir þingið tryggingalöggjöf, sem mjög er reist á sama grundvelli. Alþýðutryggingalöggjöfin er vissulega eitt af því fáa, er við getum hrósað okkur af að hafa verið með á undan öðrum, sem síðar hafa tekið það upp eftir okkur. Ef við ættum nú, svona nýlega eftir setningu hennar, þegar við vöktum talsverða eftirtekt í öðrum löndum með því að vera á undan mörgum með þessa löggjöf, að fara að draga úr henni, þá mundum við vekja eftirtekt á gagnstæðan hátt, og mundi þá draga úr vegsemdinni. L. munu nú vera í endurskoðun, eins og ég gat um áður. Ég geri ráð fyrir annmörkum á þeim, enda eru þau svo ný, að endurskoðun er nauðsynleg. Stórir lagabálkar eru samdir á stuttum tíma, og við framkvæmd kann sitthvað að koma í ljós, en ég geri ráð fyrir, að útgjöld almannatrygginganna eigi frekar eftir að fara vaxandi og að það sé mjög í samræmi við aldarandann og þarfir almennings. Ég man þá tíð fyrir mörgum árum, þegar ég átti sæti í bæjarstjórn með hv. 5. þm. Reykv., að á hverju ári var sett n. til úthlutunar ellistyrks, og hann var um 40–80 kr. á mann. Ellitryggingar okkar eru enn ekki á þann veg, að þeir, sem njóta þeirra, geti lifað áhyggjulausu lifi. En þó hafa þær gengið í þá átt, að þeir, sem njóta þeirra, þurfa ekki að lifa á bónbjörgum eins og áður. Þeir, sem áttu ekkert til, lentu þá óhjákvæmilega á sveitina. Ég vona, að hv. 5. þm. Reykv. eigi ekki við það með till. sinni að koma á að nýju hinu gamla lagi og ég veit, að þótt till. sé komin fram, þá er um hana sem till. um afnám orlofsfjárins, að hún á fáa formælendur á Alþ. Sumir flokkar eru henni algerlega mótfallnir, og innan hinna flokkanna ræður að sumu leyti skilningur á málinu og að öðru leyti ótti við kjósendur, að slíkar till. eiga engum byr að fagna. Hv. 5. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv. hefðu því getað sparað sér þetta ómak, því að þeir vita, að mikill þorri þessara 15 liða er raunverulega dauðadæmdur nú þegar eða áður en til atkvgr. kemur.