03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í D-deild Alþingistíðinda. (4993)

37. mál, raforkumál

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil einnig þakka hæstv. ráðh. fyrir þessar upplýsingar. En ég vil í sambandi við þetta mál leyfa mér að benda á, að þegar raforkulagafrv. var athugað í n. í hv. Ed., þá var þetta atriði sérstaklegs rætt við þáverandi ráðh., sem fór með þessi mál, núverandi hæstv. viðskmrh., sem lagði mjög mikið á móti því þá, að þetta fé, samkv. 37. gr.; um 150 þús. kr. lánsfé á ári, væri veitt til slíkra rafstöðva, sem hér er nú rætt um, diesel-rafstöðva. Hann taldi, að það væru mjög miklir ágallar á því að styðja að því, að inn í landið kæmi mjög mikið af slíkum rafstöðvum, m. a. vegna þess, að lítið eftirlit yrði með því, hvernig þær yrðu keyptar og hvernig þær mundu reynast, Nú vildi ég gjarnan fá að heyra, hvort hæstv. viðskmrh. er því samþykkur, sem hæstv. atvmrh. tók fram í sambandi við innflutning þessara rafstöðva og hvort hann hefur breytt skoðun í þessu, og einnig væri gott að fá að vita, hvort þetta um diesel-rafstöðvarnar er mælt með samkomulagi við raforkuráð.

Í sambandi við þetta mál vil ég leyfa mér að benda á, að þetta er ekki nein ný uppfinning, að nota megi þessar vélar til raforkuframleiðslu, því að síðustu þrjú árin hafa verið gerðar margvíslegar tilraunir til þess að fá innflutningsleyfi, þó að þau innflutningsleyfi hafi ekki fengizt — fyrir slíkum diesel-vélum frá Ameríku, til raforkuframleiðslu, og ódýrari vélum en hér hefur verið talað um. Ég vil, að það verði tekið til athugunar, hvort ekki muni vera hægt að spara 30–40% af verði þessara véla, með því að kaupa þær frá Ameríku, í stað þess að fá þær frá Englandi. Og ég tel, að það þurfi að athugast miklu nánar, en gert hefur verið af Landssmiðjunni, hvort þetta séu þau heppilegustu tæki til þess að leysa með raforkuþörf sveitanna. Það er síður en svo, að þessi verksmiðja í Englandi; sem þessar vélar hafa verið fengnar frá til þessara tilrauna hér, sé eina verksmiðjan í heiminum, sem framleiðir þessi tæki. Og þessar diesel-vélar, sem hér hafa verið nefndar, eru ekkert frábrugðnar öðrum diesel-vélum, heldur aðeins sett í samband við þær tæki, sem setja þessar vélar í gang, þegar kveikt er fyrsta ljósið, og stöðva þær, þegar síðasta ljósið er slökkt. Þessu væri hægt að koma við í sambandi við allar dieselvélar, sem notaðar eru í landinu.