10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í D-deild Alþingistíðinda. (5014)

902. mál, sjúkrahælin í Kumbaravogi og Kaldaðarnesi

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég ætla að gefa í einu lagi svör við 1., 2., 3. og 5. lið, en þeim 4. mun ég svara sérstaklega. Í skýrslunni segir svo:

Samkvæmt efnahagsreikningi 31. des. 1943 átti Kumbaravogshælið áhöld og muni fyrir kr. 21.525.99. Hælið var rekið í leiguhúsnæði, svo að um stofnkostnað var ekki að ræða.

Á hælið í Kumbaravogi komu 42 vistmenn alls (7.342 dvalardagar). Starfræksla hælisins byrjaði 1. október 1942, en vistmenn komu fyrst á hælið í marz 1943. Rekstrarkostnaður hælisins frá 1. okt. 1942 — 31. des. 1943 var kr. 76.060.81, en tekjur aðrar en daggjöld kr. 1.604.80. Raunverulegan dagkostnað er ekki hægt að finna, þar eð rekstrarkostnaður vegna undirbúnings áður en vistmenn byrjuðu að koma er innifalinn í ofangreindum rekstrarkostnaði. — Rekstrarkostnaður 1944 var kr. 105.614.13. Dvalardagar 3.141. Dagkostnaður samkvæmt því kr. 33.62. Rekstrarkostnaður 1945 er sameiginlegur fyrir Kumbaravog og Kaldaðarnes, en hælið var flutt í Kaldaðarnes í júní það ár. Rekstrarkostnaður var kr. 134.726.16. Dvalardagar 3.592. Dagkostnaður var samkvæmt því kr. 37.51. Rekstrarkostnaðurinn er talinn án frádráttar á daggjöldum.

Í stjórn Kumbaravogshælis voru: Kristinn Stefánsson, Friðrik Á. Brekkan og Sigfús Sigurhjartarson. Forstöðumenn: Jón Sigtryggsson þangað til í júní 1944 og Vernharður Jónsson frá þeim tíma.

Drykkjumannahælið var starfrækt í Kumbaravogi til bráðabirgða, enda var staðurinn ekki talinn heppilegur vegna nágrennisins við allstórt sjávarþorp. Umdæmisstúkan keypti jörðina til þess að reka þar barnaheimili á vegum reglunnar.

Samkvæmt Kaldaðarnesupplýsingum ríkisbókhaldsins voru greiddar úr ríkissjóði til endurbygginga og nýbygginga á árunum 1945–1946 kr. 792.659.00.

Eins og að ofan greinir er rekstrarkostnaður ársins 1945 sameiginlegur fyrir Kumbaravog og Kaldaðarnes, en rekstrarhalli hælisins árin 1942–47 hefur verið þessi:

1942–1943:

Kumbaravogur

kr:49.634.91

1944:

Kumbaravogur

kr: 63.155.98

1945: Kumbaravogur og

Kaldaðarnes

kr: 61.000.00

1946:

Kaldaðarnes

kr: 113.000.00

1947:

Kaldaðarnes

kr: 112.000.00

Á Kaldaðarneshælið komu alls 40 vistmenn. Dvalardagar þeirra voru 156 að meðaltali. Stjórn hælisins hefur verið hin sama og í Kumbaravogi. Auk þess hefur stjórnarnefnd ríkisspítalanna annazt reksturinn síðan í maí 1946. Forstöðumenn hafa verið þessir: Pétur Snæland þangað til í júlí 1945, Ólafur Friðriksson frá þeim tíma og til 30. apríl 1946, Árni Blandon frá þeim tíma. Læknar hælisins hafa verið: Alfreð Gíslason þangað til í marz 1946, Helgi Tómasson frá þeim tíma, og eiginlega hefur hann verið aðalforstöðumaður.

Þá er það sú spurning, hvers vegna hælið í Kaldaðarnesi hafi verið lagt niður. Þetta kom fram í umræðum hér á Alþ. um annað mál, en þar sem hv. þm. S-Þ. hefur líklega ekki verið þar viðstaddur og e. t. v fleiri, þá skal ég nú gera nokkra grein fyrir þessu enn. Til þess lágu einkum þrjár ástæður, — í fyrsta lagi kom það í ljós, að dómi hæfra manna, sem um þetta höfðu fjallað, að sem lækningahæli væri það ekki vel sett á þessum stað vegna fjarlægðar frá bústöðum læknanna; í öðru lagi var útgangurinn á jörðinni þannig eftir veru setuliðsins, að ef ríkið hefði átt að halda þar hælið áfram, hefði það orðið að leggja í stórfelldan aukakostnað vegna þessara landspjalla; í þriðja lagi sótti svo atvmrn. eftir því að fá jörðina til þess að losa Skálholt úr ábúð. — Þetta voru höfuðástæðurnar til þess, að sú ákvörðun var tekin að leggja hælið niður, og ég vænti þess, að sú grein, sem ég hef gert fyrir þessu, verði talin nægilegt svar.