10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í D-deild Alþingistíðinda. (5025)

903. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef í rauninni svarað fyrir fram því, sem hv. þm. var að spyrja um. Fyrirspurnir hans eru að því leyti óþarfar, hvað það snertir. Það kann að vera, að hún hafi verið prentuð áður en fjárlagaræðan var haldin, en þar lýsti ég yfir því, að í frv. hefði verið tekin 6 millj. kr. fjárveiting eða fjárframlag í þessu skyni til að hlaupa undir bagga með þeim, sem í mestum erfiðleikum eru. Og þetta var gert í samráði við meðráðherra mína í ríkisstj. Ég tók það einnig fram, að það væri undir undirtektum hjá hv. þm. komið og hv. fjvnm., hve fljótt þessu gæti miðað áfram, og enn fremur sagði ég það, að mín meining væri sú að reyna að fá bráðabirgðalán, til þess að kreppunefndin eða þeir aðilar, sem með þetta ættu að fara, hefðu eitthvert fé milli handa, jafnvel þótt fjárlögin væru ekki samþ. Þetta tók ég fram, og þess vegna þykist ég hafa svarað þeim fyrirspurnum, sem hann hefur fyrir mig lagt. Nú er það svo, að þó að ég hugsi mér að taka bráðabirgðalán eða Alþ. í heild, þá kostar það nokkur umsvif að ná í svo mikið fé, svo að búast má við, að það taki nokkurn tíma. En ég ætla, að vilji ríkisstj. sé alveg glöggt markaður í þessu máli, bæði með þeim ákvæðum, sem sett voru í fjárlfrv., og með þeim orðum, sem ég mælti við þær umr., viljinn sá, að gera sitt ýtrasta til að leysa þessi vandræði svo fljótt sem kostur er á. Nú verður að athuga það, að hjálp eins og þessa verður að láta af hendi undir löglegu formi, og nú er það til athugunar hjá þessari n., sem ég fékk nú í sept. til að safna skýrslum viðkomandi útgerðinni, hvaða leiðir skuli fara í þessu efni. Það getur verið um mismunandi leiðir að velja, en öll fjárveiting í þessu skyni verður að fara fram eins og Alþ. getur fellt sig við. Það er ekki hægt að hugsa þetta þannig, að sjútvmrh. eða hans trúnaðarmenn láti fé til einhverra útgerðarmanna án þess að fara eftir reglum, sem eru viðurkenndar réttar eða bornar undir Alþ. — Ég held, að ég hafi ekki fleira um þetta að segja á þessu stigi málsins. Málið er í þeirri athugun, sem til var stofnað, og það verður reynt að koma því í framkvæmd eins fljótt og hægt er. Það er rétt að geta þess, að það stendur ekki eins á hjá öllum þeim bátaeigendum, sem hér eiga hlut að máli. Það hefur þegar komið í ljós, að sumir hverjir hafa rúið sig inn að skyrtunni til þess að standa í skilum við bátsverja sína. Aðrir hafa lagt árar í bát og bíða eftir því, að ríkisvaldið hjálpi. Þetta er allt mjög vandasamt viðureignar. Hitt er svo aftur viðurkennt, að þeir sjómenn, sem ráðnir hafa verið á bátana, eiga samningsbundinn rétt til þess að fá sitt kaup greitt. Það kom líka ljóst fram, þegar fjárl. voru rædd, að það, sem ríkisstj. gerir í þessu efni, er gert vegna þessara sjómanna og til þess að forðast það, að bátaútvegsmenn missi skip sín undir hamarinn af þessum ástæðum.

Ég vil svo aðeins bæta því við, að vandræði sjávarútvegsmanna eru því miður svo mikil, að jafnvel þótt þessi þáttur verði leystur, þá er rétt að hafa það í hyggju, að þetta er bara einn þátturinn af þeim vandræðum, sem þeir eru í, og að það er allt annað en auðvelt verk að greiða fram úr því, svo að öllum líki vel.