10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í D-deild Alþingistíðinda. (5063)

907. mál, ríkisreikningar

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Endurskoðunin hefur batnað. Ég veit ekki, hve langt niðri hún hefur verið áður. En hún hefur batnað nú á þessu ári, þannig að t. d. öll tollendurskoðun varðandi Reykjavík, og hún er mikil, fer fram alveg jafnharðan í endurskoðunardeild stjórnarráðsins. Svo getur vel verið, að einhverjir hlutar endurskoðunarinnar séu óhæfilega langt á eftir tímanum, eins og þessi hv. þm. minntist á. En, sem sagt, það hafa farið þarna umbætur fram.

Það hefur orðið dálítið umtal út af því, hve mikið hafi aukizt kostnaður við fjmrn. Og það er að nokkru leyti eðlilegt vegna dálítið klaufalegs orðalags á einni skýringargrein við fjárlagafrv. Ég álít rétt að geta um þetta af þessu tilefni, umr. um þessa endurskoðun, og vil upplýsa þetta lítils háttar. Ég lagði annars áherzlu á það við samningu þessa fjárlagafrv., að hafðar væru eins ýtarlegar skýringar og kostur væri á við hverja grein þess. En það eru margar skýringarnar, eins og hv. þm. vita, og varðandi þessa gr. þá hefur ekki verið gerð alls kostar nægileg grein fyrir henni, þannig að þar er orðað þannig. eins og kostnaður sé meiri við fjmrn. heldur en jafnvel rétt er. Það stendur svo í athugasemdum við 10. gr. frv.: „Laun starfsmanna ráðuneytanna hækka frá fjárl. 1948 um rúmar kr. 270.000,00. Aðalbreytingarnar eru þær, að aukið hefur verið starfslið í fjármálaráðuneytinu og endurskoðunardeild þess. Meðal starfsmanna í forsætis- og menntamálaráðuneytinu eru nú taldir nokkrir, sem áður voru taldir meðal annarra starfsmanna í i-liðnum.“ — Þetta orðalag er að vissu leyti dálítið villandi. Og ég hef þess vegna skrifað hv. fjvn. nokkra skýringu á þessari aths.

Það hefur að vísu ekki neina þýðingu viðkomandi niðurstöðum, en skýrir betur í þessu sambandi. Hækkunin, sem þarna er um að ræða, 270 þús. kr., sundurliðast þannig, að svokallaður annar kostnaður ráðuneytanna er áætlaður 100 þús. kr. hærri, en í ár. Það er áætlunarupphæð, sem byggt er á, því að þessi svokallaði annar kostnaður ráðuneytanna var of lágt áætlaður í ár. Þetta er skýring á 100 þús. kr. af þeirri hækkun, sem þessi aths. fjallar um. Þá koma aðrar greinar, þar sem hækkun kemur fram frá því, sem verið hefur, og get ég gjarna látið koma í ljós, hverjar þær eru. Þessar hækkanir eru sumar svo lítilfjörlegar, að varla tekur að nefna þær. Í atvmrn. 1.500 kr., í félmrn. 8.700 kr., í fjmrn. 22.700 kr., í endurskoðunardeild 51.450 kr., í fors. og menntmrn. 79.725 kr., í samgmrn. 5.400 kr., í utanrrn. 72.287 kr., í viðskmrn. 900 kr. Frá þessu dregst svo lækkun á dómsmrn. 11.475 kr. og lækkun annarra starfsmanna 59.760 kr. Og verður þá niðurstaðan 171 þús. kr. Við þetta má svo bæta því, að nokkuð af starfsfólki er talið undir öðrum kostnaði.

Mér þótti rétt að gefa þessa skýringu og vona, að hv. þm. misvirði ekki, þótt ég fari þennan útúrdúr í sambandi við þau verk, sem unnin eru í endurskoðunardeildinni. Kaup þar hefur ekki hækkað um 51 þús. kr. raunverulega, því að sú hækkun er að nokkru leyti komin til þannig, að starfsmaður, sem vann hjá ríkisbókara í fyrra, er nú kominn í endurskoðunardeild og tekur sín laun þar, í staðinn fyrir að taka laun hjá ríkisbókara.

Um málið sjálft, eða endurskoðunina, skal ég svo segja það, að ég er í raun og veru alveg sammála hv. þm. V-Húnv. og álít, að það verði að stefna að því eins og hægt er að framfylgja þál. Alþ. En þál. frá Alþ. taka ekki alltaf tillit til allra tekniskra aðstæðna varðandi framkvæmdir mála. Og þegar um það er að ræða, að stofnanir fást tæplega eða ekki til að skila nauðsynlegum plöggum, sem fjmrn. á að safna saman, reikningum og slíku, þá hefur ráðun. ekki í hendi sér neitt meðal til þess að þvinga þær til þess. Við getum ekki í þessum efnum beitt dagsektum. Það er verið að hamra á því við þessa og hina deild og stofnun í ráðuneytinu að skila plöggum, sem þarf til þess að fullkomna ríkisreikningana, en það gengur raunalega seint að ná þeim. Og hvað árið 1947 snertir, þar sem nýbúið er að loka ríkisreikningnum fyrir það ár, þá var það af því, að beðið var eftir upplýsingum, sem margoft voru krafðar af flugmálastjórninni, til þess að fá þær inn á réttum stað í reikningsfærslunni.

Að öðru leyti skal mér verða ljúft að taka, að því leyti sem hægt er, til greina þær aths., sem hér hafa komið fram. Það á að stefna að því, að reikningar næsta árs á undan liggi fyrir hæstv. Alþ. á hverju ári, svo að hv. alþm. geti séð þá. Og vonandi færumst við smám saman nær því marki, þegar betra lag kemst á endurskoðunina. Og að á þeirri braut séum við, get ég fullyrt, því að endurskoðun á tollreikningum hefur stórkostlega batnað.