02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í D-deild Alþingistíðinda. (5172)

919. mál, sóttvarnarstöðvar í sambandi við innflutning sauðfjár

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Fyrirsögn fyrirspurnarinnar hljóðar um innflutning sauðfjár, en í undirliðunum er talað um innflutning húsdýra, og geri ég ráð fyrir, að þetta sé varðandi fyrri fyrirspurnina. En nýlega voru samþ. lög frá Alþ. um innflutning búfjár og ríkisstj. heimilað að flytja inn húsdýr af ýmsum tegundum til tilrauna í landinu, hvort heldur er til blöndunar við innlent búfé eða til hreinræktunar. Á síðasta sumri, eftir að þessi löggjöf var á komin, voru gerðar nokkrar athuganir af atvmrn. til undirbúnings þessu máli. Tekið er fram í l. um þetta, að áður en slíkur innflutningur sé hafinn, skuli koma upp sóttvarnarstöð fyrir þessi dýr. Það er gert ráð fyrir, að tekin verði eyja eða eyjar á leigu eða keyptar af ráðun. í þessum tilgangi. Fyrst var athugað í sambandi við búfjárræktarráð og dýralækni, hvaða staðir væru heppilegastir fyrir þessa starfsemi, ef til kæmi. Féllu augu manna þá á Viðey, og fyrir bæði stærð og gæði hennar og nálægð við höfuðstaðinn þótti hún mjög tilvalin til slíkra hluta. Voru hafnar viðræður við eiganda eyjunnar, sem er fús til að leigja hana. Það hefur enn fremur komið í ljós, að óskað er sérstaklega eftir, að innflutt verði nautfé til holdakynbóta til þess að gera tilraunir með hér, og sömuleiðis er óskað sérstaklega eftir mjólkurkyni og mundi verða að hafa það einangrað í mörg ár á þessari eyju eða eyjum, sem til þess væru valdar. Þessir samningar standa nú yfir, enda er gert ráð fyrir, að þær niðurstöður, sem fáist af þeim, komi fyrir þetta Alþ., vegna þess að ekki er heimilt að gera neitt í þessu efni fyrr, en fjárveiting liggur fyrir til þess frá Alþ. Þetta er sem sagt allt á undirbúnings- og rannsóknarstigi, og ekkert ákveðið hefur gerzt í því og engar fasteignir keyptar í þessu skyni og þess vegna engu til kostað.