16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í D-deild Alþingistíðinda. (5242)

125. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er vitanlega ekki ástæða til að ræða þetta mál á 5 mínútum. En út af því, sem kom fram hjá hv. þm. Barð., þá virtist mér sem hann vildi draga þá ályktun af því, að halli varð á þessu fyrirtæki, að bezt væri að selja það til einstaklinga. Ég vil benda á það, að það er allt annað að sjóða niður baunir og selja á okurverði á innlendum markaði heldur en að framleiða fyrir erlendan markað. Okkur er það fyllilega ljóst, að hægt er að reka fyrirtæki með gróða, ef aðeins er framleitt fyrir innanlandsmarkað. En þegar umbúðir eru fengnar, er það með þeim skilyrðum, að varan sé flutt út. Hraðfrystihúsin eru studd með ríkisábyrgð, en niðursuðan sem er ný atvinnugrein, er við byrjunarörðugleika á að stríða, nýtur engra hlunninda hins opinbera og þarf að keppa á erlendum markaði og gat ekki fengið rekstrarlán eins og sum einstaklingsfyrirtæki. Ef framleiddar eru niðursuðuvörur til sölu á erlendum markaði, þá er ekki hægt að fá lán til slíks rekstrar, en séu fluttar inn baunir og látnar í vatn og okrað á því við landsmenn, þá er hægt að fá lán. Svona samanburð er ekki hægt að gera og draga síðan þá ályktun, að einstaklingsrekstur sé betri. Og reynslan hjá fiskiðjuverinu er sú, að þegar framleiða átti fyrir 5 millj., var ekki hægt að framleiða meira en fyrir 1 millj. vegna fjárskorts. — Tíminn er nú búinn, svo að ég verð að láta þetta nægja.