16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í D-deild Alþingistíðinda. (5259)

926. mál, lönd hjá Kleppi handa Menntaskólanum í Reykjavík

Brynjólfur Bjarnason:

Hv. þm. S-Þ. hefur sannarlega ekki veitt af að spyrja, því að hann virðist hafa verið æði ófróður um þetta mál. Hann talar um lóðakaup hjá Kleppi í fyrirspurn sinni, en þar hafa aldrei komið til greina nein lóðakaup í þessu sambandi. En keypt voru lóðaréttindi í Laugarnesi í minni ráðherratíð og mannvirki, sem þar höfðu risið upp í langri búskapartíð Þorgríms Jónssonar þar, þar eð nefnd sú, sem átti að velja nýju menntaskólahúsi stað, hafði komið sér saman um að mæla með því, að skólinn yrði reistur þar, eins og hæstv. menntmrh. sagði. En ráðherrann gaf einnig upplýsingar um það, að bæjarstjórnin hefði síðar farið fram á, að land þetta yrði gefið eftir fyrir umfangsmikil fyrirtæki útvegsmanna, og þótti ekki ástæða til að standa í vegi fyrir því. Nefndin og ríkisstj. vildu því falla frá þessum stað, ef bæjarstjórnin útvegaði aðra hentuga lóð. Ég veit ekki betur en að sami áhugi sé enn fyrir hendi af hálfu útvegsmanna á þessum stað, svo að ekki mun vera minnsti vandi að koma landinu út aftur, ef sá kostur er tekinn. Verðið var að vísu hátt, en verð á öllum fasteignum var og er hátt, og miðað við verðlag á þeim yfirleitt var verð Laugarness mjög hagstætt og hefði þess ekki verið kostur að fá það ódýrara. Það er því enginn vandi að koma landinu út fyrir sama verð.