09.03.1949
Sameinað þing: 47. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í D-deild Alþingistíðinda. (5291)

146. mál, klak í ám og vötnum

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Fyrir nokkrum misserum bar ég fram till., um leið og ég hreyfði virkjuninni á Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu, að laxavegur yrði gerður fram hjá virkjuninni. Þetta er fjárhagsmál, því að 20 km ofan við hana er hinn bezti laxahylur á landinu. Þessu máli var vísað til hv. allshn. Ætlaði hún að vera með því, en þegar til átti að taka, urðu mannaskipti við sérfræðirannsóknirnar. Kom í staðinn maður, er var án allrar reynslu í þessum efnum, auk þess sem hann skorti kunnugleik. Hann gerði sig sekan um að segja, að það þyrfti rannsókna með, hvort Laxá væri hæf fyrir klak. Honum var sýnd sú kurteisi, að orðið var við þessum óskum. Nú hefur eigi heyrzt um þetta síðan, og vil ég því fá að vita þetta tvennt: Í fyrsta lagi: Hefur hæstv. stj. látið manninn gera athuganir, og hvað hefur þá fengizt út úr þeim? Veit maðurinn nú, að laxinn geti lifað þarna? Í öðru lagi: Hvað líður samanburði á störfum þessara tveggja manna? Hver hefur orðið kostnaðurinn við þessi mál? Og hversu er háttað um stofnun fiskiræktarfélaga? Hverjar eru rannsóknir sérfræðingsins? Hann hefur verið að skoða í glös. Væri gott að vita, hvað hann hefur séð í þeim.

Nú liggur grunur á, að þessi nýi vísir líkist að einhverju athöfnunum á Úlfarsá, og eðlilegt má þykja, að þing og þjóð fái að vita um árangur rannsóknanna og kostnaðinn við þær.