06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í D-deild Alþingistíðinda. (5407)

160. mál, aðflutningar til Keflavíkurflugvallar o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það kemur í hlut fleiri en eins ráðh. að svara þessum fyrirspurnum á þskj. 442, en 1.–3. tölul. munu heyra undir fjmrh. að svara.

Um 1. liðinn er það að segja, að ég hef ekki enn fengið allar upplýsingar, sem þarf til að svara honum, en mun hins vegar fá þær áður en langt um líður.

Um 2. og 3. lið er eftirfarandi að segja: Samkv. 9. gr. Keflavíkursamningsins svonefnda frá 14. okt. 1946 skal eigi leggja neina tolla eða önnur gjöld á efni það, útbúnað, nauðsynjar eða vörur, sem inn er flutt til afnota fyrir stjórn Bandaríkjanna eða umboðsmenn hennar samkv. þessum samningi eða til afnota fyrir starfslið það, sem leiðir af framkvæmd samningsins. Annars veit nú hv. fyrirspyrjandi þetta vel, en það gerir ekkert til, þó að það sé endurtekið hér. Það er síður en svo rétt, að Bandaríkjunum sé stórlega ívilnað, þó að þau og þegnar þeirra séu undanþegin sköttum og tollum, því að taka ber tillit til þess, að öll mannvirki flugvallarins verða eign Íslendinga, þegar samningurinn fellur úr gildi, og er þar um stórar fjárupphæðir að ræða.