11.02.1949
Neðri deild: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

13. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru hér á þskj. 319 brtt. frá allshn., sem ég vil gera grein fyrir í fáum orðum. Þar er lagt til, að tveir menn, Norðmaður og Dani, verði teknir inn á frv. Það stendur þannig á um þessa menn báða, að þeir uppfylla öll skilyrði samkvæmt l. um ríkisborgararétt og hefðu verið teknir með í brtt. n., sem hún gerði í öndverðu, ef umsóknir þeirra hefðu þá legið fyrir, en einhverra hluta vegna bárust þær ekki fyrr en síðar. Það er þess vegna í samræmi við fyrri afgreiðslu n., að hún leggur til, að þessum tveimur mönnum verði bætt inn á frv. Að öðru leyti hefur ekki n. tekið sem slík afstöðu til einstakra brtt., sem fram hafa komið undir meðferð málsins. Ég vildi leyfa mér að mæla nokkrum orðum með brtt., sem ég flyt sjálfur ásamt fleiri þm. á þskj. 322. En nm. áskildu sér rétt til að flytja og fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Þessi brtt. fjallar um þrjá tónlistarmenn, þá Karl BilIich píanóleikara í Reykjavík, Heinz Edelstein dr., tónlistarkennara í Reykjavík, og Urbantsehitsch dr., tónlistarkennara í Reykjavík. Allir eru þessir menn kunnir hér í Reykjavík vegna margvíslegra afskipta sinna, og það til góðs, af hljómlistarlífi bæjarins. Það voru allmargir þm., sem orðuðu það við mig milli umræðna, að ástæða væri til að taka þessa aðila inn í frv., sem allir höfðu sótt um ríkisborgararétt. Þeir höfðu einnig góð meðmæli frá tónlistarmönnum hér í bæ. Skólastjóri tónlistarskólans, Páll Ísólfsson, leggur sérstaklega áherzlu á, að dr. Edelstein fái ríkisborgararétt, vegna hins ágæta starfs, sem hann hefur innt af höndum í þágu tónlistarskólans. Hann hefur einnig mælt með Karl Billich, en dr. Urbantschitsch er flestum hér kunnur af afskiptum sínum af tónlistarlífi bæjarins sem stjórnandi kóra, og hefur hann m.a. farið utan með íslenzka söngflokka til að kynna öðrum þjóðum íslenzka tónlist. Þessir menn uppfylla allir að öðru leyti skilyrðin til að hljóta ríkisborgararétt, Dr. Edelstein og dr. Urbantsohitsch komu til landsins 1937–38, en Karl Billich kom hér fyrst árið 1933. Hann sótti um ríkisborgararétt 1939 og sýndi með því vilja sinn til þess að verða íslenzkur ríkisborgari. Hann hafði þá ekki uppfyllt búsetuskilyrðin, en síðan var hann fluttur af landi burt um stundarsakir, eins og nokkrir aðrir menn, af orsökum, sem hann réð ekki við. Hann er giftur íslenzkri konu og hvarf hingað aftur strax og hann hafði aðstöðu til þess. Að þessu athuguðu, bæði hvað snertir skilyrðin til að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt og vegna verðleika þeirra í tónlistarlífi bæjarins, vil ég ásamt meðflm. mínum leggja eindregið til, að hv. þm. fylgi þessari till. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að hv. þm. A-Húnv. hefur áður flutt hér brtt. um annan son dr. Edelstein, svo að ef menn fylgja okkar till. á þskj. 322, tel ég sjálfsagt, að menn fylgi jafnframt till. á þskj. 311.