05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

13. mál, ríkisborgararéttur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hefur verið vitnað hér í löggjöf, sem samþ. var af þinginu rétt eftir að það kom saman eftir jólin í vetur. Ég tel þessa löggjöf svo sérstaks eðlis, að ekki sé hægt að vitna í hana eða taka hana sem fordæmi. Ég var ekki kominn til þings, þegar mál þetta var afgr., og tel mig því á engan hátt ábyrgan fyrir samþykkt þess. Nefndin gefur í skyn, að hún fari eftir ströngum reglum. Mér virðist, að reglurnar hér í Ed. stangist á við reglurnar í Nd., en það verður að samræma reglurnar í deildunum og báðar deildirnar hafa sömu löggjöfina að fara eftir. Hér hefur verið minnzt á það, að það sé varasamt að bæta miklu á frv., því að þá verði það fellt í Nd. Á því tel ég enga hættu, því að það er sýnt, að Nd. hefur miklu rýmri reglur en hér eru, og ef eins er ástatt með þetta fólk eins og það fólk, sem Nd. hefur samþykkt, þá virðist lítil ástæða til að óttast, að Nd. felli frv. Nú hefur Nd. samþykkt fólk frá Póllandi, Java, Austurríki, Þýzkalandi og enn fleiri stöðum, svo að ég nú ekki tali um Norðurlandabúa, sem við viljum manna helzt veita ríkisborgararétt.

En þá virðist mér ekki ástæða til þess að ætla, að alíslenzkum konum verði neitað um ríkisborgararétt. Þá hefur og verið minnzt á það, hvort þetta væri óhætt fyrir Ísland og hvort þetta sé viðurkvæmilegt. Hv. þm. Dal. viðurkenndi, að fordæmi væri fyrir þessu, og nefndi ekki, að nokkurt tjón hefði hlotizt af. Þessar konur, sem um er að ræða, hafa leitað heim til ættjarðarinnar og verða þar ríkisborgararéttarlausar. Séu þær utanlands, þá hafa þær rétt. Við eigum aðeins að ákveða, hvort þær eigi engan ríkisborgararétt að eiga heima í ættlandi sínu. Ég sé ekki fram á, að hægt sé að neita þessu og það því fremur, sem upplýsingar eru fyrir hendi um það, að sumir Íslendingar hafa ríkisborgararétt bæði hér og í öðru landi. — Um menn þá, sem hv. þm. Barð. leggur til, að fái ríkisborgararétt, liggja fyrir þær upplýsingar, að annar hefur lagt fram öll skilríki sem krafizt er, en hinn hefur unnið hér í 13 ár. Ég álit, að veita beri þeim ríkisborgararétt, sem fyrir liggja upplýsingar um, að fullnægi vissum skilyrðum, hafi t.d. verið hér í 10 ár og hvergi sé neitt við þá að athuga. Sé aftur á móti eitthvað athugunarvert í því sambandi, þá rannsaki nefndin það og gefi þinginu um það skýrslu. Hitt tel ég aftur á móti algerlega ósæmilegt, að ríkisborgararéttur sé veittur af handahófi. Þar verður að fylgja föstum reglum, og þær reglur verður að setja strax.