22.02.1949
Neðri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru örfá atriði, sem ég þarf að minnast á, en út í almennar umr. um málið mun ég fara mjög lítið nú. Ég vil aðeins segja það út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. í gær, að hv. þm. byrjaði á að segja, að ég hefði farið með bein ósannindi um sig í því, sem ég talaði þá. Og var það m.a. út af umr. um togara. Hv. þm. vildi fullyrða það til að byrja með, að það hefði aldrei verið talað af sinni hálfu um meira en 30 togara. Hins vegar þegar komið var nokkurn spöl fram í hans ræðu, svo sem hálftíma fram í ræðuna, viðurkenndi hann, að víst hefði verið talað um 60 togara, sem hefðu átt að komast í fullt gagn árið 1952. Og ef við töluðum saman í bróðerni undir fjögur augu, mundi hann viðurkenna, að hann hefði haldið ræðu um, að æskilegt væri, að Íslendingar fengju hærri tölu togara en það — að vísu ekki þingræðu. Og þó að ég nefndi 75–90 togara, sem hv. 2. þm. Reykv. hefði talið í ræðu, að við Íslendingar ættum að eiga eftir 1950, þá er það ekki svo fjarri veruleikanum, að hann hafi sagt það, að svo sterk orð eins og hv. 2. þm. Reykv. hafði eigi rétt á sér. Skal ég svo láta útrætt um það atriði.

Hv. 5. þm. Reykv. mælti hér enn fyrir sinni brtt., sem ég nefndi í gær. Ég ætla ekki að fara að rökræða það mál neitt við hv. þm. frekar en ég er búinn að gera, að meiri hl. n. telur, að hér sé um nægilegt öryggi að ræða. Meiri hl. landbn. reiknar með því, að Alþ. láti aldrei aðra stjórn vera við völd en þá, að það megi treysta henni í þessu efni, einmitt í sambandi við svo stór mál eins og þetta, til þess að gera ekkert í þessum efnum nema það, sem hún hefði þingið að baki sér í, því að það mætti telja sjálfsmorðstilraun af hverri ríkisstj. að fara út í að ákveða um slík stórmál, sem hv. þm. nefndi, ef hún hefði ekki þingið að baki sér. Og þessi sami hv. þm. veit, að það hafa verið afgreidd frá Alþ. lög nýlega, sem ég hygg, að hann hafi verið með í að samþ., þar sem ekki er gengið örugglegar frá þessu atriði en gert er hér ráð fyrir í þessu frv. En ég vil ekki fara út í deilur um þetta atriði. Ég tel þetta ekki stórt málsatriði og felli mig við úrskurð þingsins í þessu efni.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða neitt ræðu hv. frsm. minni hl. landbn., sem hann hefur nýlokið við að flytja. Sá hv. þm. vill enn halda því fram, — og það vil ég reyna að leiðrétta, þó að ég þættist hafa gert það í gær, að meiri hl. n. hafi með brtt. sinni við 2. gr. fellt niður mjög mikilsverð ákvæði í þeirri gr., þar sem átt hafi að tryggja verksmiðjunni raforku. En hv. þm. las svo sjálfur upp einmitt í 5. gr., að þar er gert ráð fyrir einmitt því sama. Og það er ekki til neins fyrir hv. frsm. minni hl. landbn. að ætla að fara að leggja einhvern sérstakan skilning í ákvæði 5. gr., sem gr. ekki gefur tilefni til. Ég vil hér með lýsa yfir fyrir hönd meiri hl. n., að meiri hl. n. lítur svo á, að þetta ákvæði í 5. gr. sé nákvæmlega jafnbindandi og ákvæðið var í 2. gr., eða er í 2. gr., eins og frv. er enn þá. Og að þetta ákvæði í 5. gr. eigi einungis við það, að það eigi að gera samning um að nota handa verksmiðjunni aukarafmagn frá Soginu, er ekki rétt. Þetta, að gera slíkan samning, getur gripið inn í þær framkvæmdir að tryggja rafmagn til verksmiðjunnar og verið þannig þáttur í því, hvernig svo sem rafmagnið er tryggt að öðru leyti. — Hér er því, með því, sem hv. frsm. minni hl. landbn. talaði um þetta atriði hér, verið að deila um keisarans skegg og annað ekki. Þetta atriði var með ráðnum huga fellt niður úr 2. gr. Og ég vænti, að með þessari yfirlýsingu fyrir hönd meiri hl. landbn. þá verði því trúað, að við í meiri hl. landbn. leggjum þann skilning í þetta, að ákvæði 5. gr., eins og það er í frv., það jafngildi því, sem áður stóð í 2. gr. frv.

Hv. þm. V-Húnv. spurðist fyrir um það, hvers vegna meiri hl. n. hefði breytt ákvæðum 5. gr. frá því, sem var upphaflega, þar sem gert var ráð fyrir, að fyrsta stjórn verksmiðjunnar ákvæði, hvar hún skyldi reist. Ég skal geta þess, að þessi breyt. var fyrst og fremst gerð vegna þess, að okkur virtist það dálítið óviðkunnanlegt að setja þetta þarna inn, að fyrsta stjórn verksmiðjunnar skyldi ákveða, hvar verksmiðjan skyldi reist. Það var alls ekki vist, að öruggt væri, að svo yrði. En hins vegar litum við svo á, að þó að þetta væri ekki tekið fram í 5. gr., væri það nokkuð sjálfgert, að verksmiðjustjórnin og ríkisstj. ákvæðu, hvar verksmiðjan ætti að vera. Og ég skal taka það fram, að meiri hl. landbn. hefur áreiðanlega enga bakþanka í þessu efni, enda er þetta ekki í neinum tengslum við þá þáltill., sem borin hefur verið fram í Sþ. frá nokkrum hv. alþm., um, að það verði ákveðið af sérstakri þar til kosinni nefnd, hvar verksmiðjan skuli reist. Það er náttúrlega rétt, þegar það mál kemur fyrir, að ræða það sér. En ég veit, að meiri hl. landbn. lítur svo á, að það sé sjálfsagt, að það sé verksmiðjustjórnin og ráðuneytið, sem taki þessa ákvörðun. En meiri hl. n. taldi bara, að það væri ástæðulaust að taka þannig til orða í l. eins og hér er gert og þótti það óviðkunnanlegt. En það er gott, að þessi fyrirspurn kom fram, svo að meiri hl. landbn. geti lýst yfir, hvað fyrir honum vakir í þessu efni. Og ég álít, að það eigi að ráða staðsetningu verksmiðjunnar alveg án tillits til landshluta, en að það sjónarmið eigi að ráða um staðsetningu hennar, hvar hægt er að koma henni upp með minnstum stofnkostnaði og eftir möguleikunum á því að flytja framleiðsluna frá verksmiðjunni og hráefni til hennar. Og ég tel það langeðlilegasta og það eina sjálfsagða, að verksmiðjustjórnin, með samþykki ráðuneytisins og með aðstoð nægilega margra sérfróðra manna í þessu efni, taki ákvörðun um staðsetningu verksmiðjunnar.

Þá liggur hér fyrir ein brtt., sem meiri hl. landbn. flytur á þskj. 386. Það hefur svo illa til tekizt, eins og hæstv. forseti hefur lýst, að það lítur svo út, sem við séum að klína þessu óbermi á hv. minni hl. n., og bið ég hann afsökunar á því, af því að hann vill ekki hafa afskipti af þessu máli. En þetta er ekki gert af illvilja, heldur hefur prentsmiðjupúkinn gripið fram í, í þetta skipti. En hv. 5. þm. Reykv. hefur borið fram brtt., sem hann hefur lýst áður og við höfum dálítið ræðzt við um, þar sem hann taldi, að ekki væri nægilega tryggilega gengið frá því, jafnvel eftir þá breyt., sem meiri hl. n. lagði til, að gerð væri á frv., að verksmiðjan ætti að standa straum af afborgunum og vöxtum, þannig að rekstur verksmiðjunnar ætti að bera það uppi. — Þá vildi hv. þm. Ísaf. bæta ákvæði inn í 8. gr., sem tryggði þetta. Meiri hl. n. hefur rætt þetta mál við flm. þeirrar till. og orðið ásáttur um að taka efnið úr till. hv. þm. Ísaf., en ekki setja þetta inn í 8. gr. frv., sem einungis fjallar um tryggingarsjóði verksmiðjunnar, bæði varasjóð og fyrningarsjóð. En meiri hl. n. vildi bæta þessu ákvæði um vextina og afborganirnar inn í 2. gr. frv. sem vatill. við brtt. meiri hl. landbn. á þskj. 363, og vænti ég, eftir viðtali við flm. brtt. á þskj. 373, að hann muni sætta sig við þessa afgreiðslu.