26.04.1949
Efri deild: 89. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

137. mál, erfðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti Ég skal ekki blanda mér hér í umr. Ég tel, að með endurskoðun á erfðalögunum hafi verið fundið hið rétta hóf og takmörkun, en það, er alltaf til athugunar, hve mikil takmörkunin eigi að vera. Ég tel ekki rétt að breyta meiru og tel, að hitt hafi verið hið rétta meðalhóf og erfðamál gerð meðfærilegri. Sumar brtt. hv. þm. Barð. tel ég, að eigi lítinn rétt á sér, og vill hann takmarka erfðarétt meira, en er í frv. Það er rétt hjá honum, að breytingar í þjóðfélaginu leiði til, að takmarka megi erfðarétt meira, en nú er gert, en það er nokkuð gert að slíkum breyt. í frv., og ekki má ganga lengra í því efni, en tilfinningar manna á hverjum tíma mæla með. Ég tel, að svo mikil frændsemistilfinning sé milli manna, að þeir aðstoði hver annan og erfðarétturinn sé takmarkaður við þessa fjölskyldutilfinningu. Í fornum l. var framfærsluskylda allt í 4. og 5. lið. Það hefur nú verið afnumið fyrir löngu, en sú tilfinning, að menn séu skyldir og skyldmenni verði að aðstoða hvert annað, varir enn. Ég hef talið, að hv. þm. Dal. hafi náð þessu eins og skoðunin er í þessum efnum hér á landi og ekki sé vert að ganga lengra í bili. Ég tel, að ef til vill verði gengið lengra í þessum efnum í framtíðinni heldur en till. hv. þm. Barð. ná, en ég vil leggja til, að frv. verði samþ. og till. hv. þm. Barð. þar með felldar. Ég vil ekki blanda mér í deilur hv. þm. Dal. og hv. þm. Barð. Það er eðlilegast með slíkar till. sem till. hv. þm. Barð. að athuga þær í n., sem mér skilst, að gert hafi verið, þó lítillega, en n. hafi ekki getað fallizt á þær. Frv. eins og það er nú takmarkar erfðaréttinn, en ef gengið er lengra, brýtur það í bága við tilfinningu almennings.