02.11.1948
Efri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það skiptir mig engu, hvort aðrar þjóðir hafa farið þessa leið. Hér er verið að lokka fólk til þess að spila „hasard“, og það er jafnillt, þó að aðrir geri það líka. Við þurfum og eigum að gera það, sem okkur finnst rétt, en ekki apa allt eftir öðrum. Af því hefur verið gert nóg, sbr. t.d. stjórnarskrá okkar.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það er nauðsynlegt að draga úr seðlaveltunni, en það mátti gera það með fleiri leiðum, en þessari. Í fyrra vetur benti ég hæstv. ráðh. á leið, sem er miklu happasælli, en þessi leið og ég veit, að hann hefur hugsað um fyrr og síðar. Það var ekki mín hugmynd, þótt ég ætti tal við hann um hana. Ég skal ekki fara nánar út í það. Ég gæti hugsað, að það þyrfti að gera meira til að draga úr seðlaveltunni, en þetta happdrættislán. Það má tala um það seinna, hvað heppilegast er að gera í því efni. Hæstv. ráðh. vitnaði í það, að hér væru mörg önnur happdrætti. Ég hélt, að þau væru öll með leyfi ríkisstj. Ég held, að happdrætti væru óleyfileg nema með leyfi ríkisstj. Það þarf leyfi stj. Til að halda tombólu og bögglauppboð, ef það fer út fyrir mjög þröngan félagshring. Það er stj., sem gefur leyfin, og hún ber ábyrgð á öllum happdrættum. Þó að hún hafi áður gefið óheppileg leyfi til slíkra hluta, þá bætir það ekki úr að bæta þessu síðasta við.

Hæstv. fjmrh. fór að tala um, að ég sem ráðunautur hefði átt að sjá um öryggi 1936, þegar karakúlféð var flutt inn. Lögin um innflutning karakúlfjár voru samþ. löngu fyrr. Ég var ekki á þingi þá. En ég sá ásamt Metúsalem Stefánssyni um samningu frv. um innflutning sauðfjár, sem lög voru samþ. um 1931–32. Og ég get sagt hæstv. ráðh. það, að ég setti það ákvæði til öryggis í frv., að féð skyldi einangrað í 2 ár á eyju og enginn samgangur fjár skyldi vera við það frá landi, þar til víst væri, að það væri heilbrigt. Það skyldi líka rannsakað, hvaða gagn mætti hafa af því, áður en það yrði flutt til lands, en Alþ., sem þá sat, tók þetta út úr frv. Þessi ákvæði voru því ekki í lögunum. Ég gerði þess vegna það, sem mér bar að gera, til þess að reyna að skapa það öryggi, sem þar þurfti að vera, en aðrir tóku það burt, þar á meðal hæstv. ráðh. Það kemur þessu máli ekki við, og ég ræði því ekki meira um það, en sem sagt, hvað sem gert er af hálfu þess opinbera til að draga úr öryggi, þjóðfélagslegu og atvinnulegu öryggi, og til að ýta undir þá losaratilfinningu, sem mörgum er í brjóst borin, það tel ég illa gert. Og það tel ég gert með þessu happdrætti.