03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

8. mál, Landsbókasafn

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort það er sanngjarnt af hv. þm. Ísaf. að ætlast til, að hv. frsm. menntmn. hafi á reiðum höndum þessa löggjöf, sem áður var um þessi efni. En meðan þeir hv. þm. ræddu um þetta, notaði ég tækifærið, til þess að ná í þessi lög, sem eru frá 1907, þar sem stendur um stjórn safnsins, að stjórnarráðið hafi á hendi yfirstjórn landsbókasafnsins. Þannig er það nú, að menntmrn. hefur stjórn safnsins í sínum höndum. En í löggjöfinni — er hv. þm. Ísaf. farinn út úr salnum? — í löggjöf þessari, sem nú er í gildi, eru engin ákvæði um notkun safnsins. En ef maður lítur svo á þetta frv., sem hér liggur fyrir, þá er þar að vísu ekki svo að orði kveðið, að stjórnarráðið eða menntmrh. hafi með höndum stjórn safnsins, heldur að það setji reglugerð um stjórn og starfshætti safnsins. Þannig er ákvæðum um yfirráð og æðstu stjórn safnsins fyrir komið í þessari löggjöf, sem nú er í ráði að setja, eins og í gömlu löggjöfinni. Í gömlu löggjöfinni eru engin ákvæði um notkun safnsins, og í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru heldur engin ákvæði um notkun safnsins, þannig að frv. þetta breytir engu um það atriði, sem hv. þm. Ísaf. talaði um hér.