22.02.1949
Efri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

8. mál, Landsbókasafn

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram er tekið í nál., að ég var viðriðinn afgreiðslu málsins í n. og er fyllilega samþykkur því, að frv. verði samþ., enda sýnist svo, að það sé í öllum aðalatriðum staðfesting á þeim rekstrarháttum, sem á safninu hafa verið til þessa. Ég hef veitt því athygli, að fram hefur komið í Nd. till. um að bæta einum tölul. við 2. gr. frv., þar sem sé nánar fram tekið um hlutverk safnsins, að því er það snertir að efla bókfræðiiðkanir, með því að gefa landsmönnum kost á að kynna sér innlendar og erlendar bækur. Í 3. tölul. 2. gr. er að vísu tekið fram, að safninu beri að annast rannsóknir á íslenzkri bókfræði, en þar er sennilega átt við, að sú skylda hvíli á forstöðumönnum safnsins. Í 4. tölul. er tekið fram, að hlutverk safnsins sé að vinna að kynningu íslenzkra bókmennta og íslenzkrar menningar á erlendum vettvangi. Mér finnst ekki óeðlilegt, að svo kæmi 5. tölul., þar sem tekið væri fram, að ein af höfuðskyldum safnsins væri að efla bókfræðiiðkanir innlendra manna með því að gefa þeim kost á að kynna sér rit, sem safnið geymir. Ég vildi því leyfa mér að bera fram viðbótartill. við 2. gr., sem færi í þessa átt. Ég tel það réttara en að láta hana koma fram við 3. umr. málsins.