09.12.1948
Efri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

27. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég var ekki á þessum fundi, sem haldinn var í morgun, en það hefur verið rætt um þessa till. áður í n., og ég var því fylgjandi, að hún yrði tekin upp. Ég hefði hins vegar getað fallizt á það, að þessi till. yrði tekin í frv. fyrir 1949 og að það hefði ekki verið brýn nauðsyn að gera það fyrir 1948. Hér er um að ræða eitt af stórfljótum landsins, sem áreiðanlega er nauðsyn á, að komist í fremstu röð þeirra fljóta, sem brúuð verða, og ef benzínskattinum verður ekki varið til þess samkv. l., þá standa engar vonir til þess, að þetta fljót verði brúað. Af þessari ástæðu hef ég fylgt þessari till. og vil mæla með því, að hún verði samþ.