25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

134. mál, eignarnám lóða í Reykjavík

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur nú staðfest það, sem ég fullyrti áðan, að með þessu frv. sé verið að stofna til bygginga fyrir menntaskólann á þessum umræddu lóðum, og er ég út af fyrir sig þakklátur fyrir það. Hitt vil ég leyfa mér að benda á, þar sem hæstv. ráðh. segir, að þessi till. hafi verið ákveðin af rn., að ef það væru hér til staðar bréf sérfræðinganna til n., þá væri hægt að sanna það, að þessar ákvarðanir rn. hafa verið gerðar án þess, að þeir hafi talið það heppilegt. Þessi hugmynd, að byggja þarna bráðabirgðabyggingar, sem síðar gætu orðið liður í væntanlegri byggingu menntaskólans, eða liður í annarri opinberri byggingu, ef ákveðið væri að flytja skólann, vil ég leyfa mér að segja, að sé í lausu lofti og vafasamt, hvort stefnt er að því, sem heppilegast er í framtíðinni í þessu máli. Það má vera, að nokkuð sé í því, sem hæstv. ráðh. sagði, að hér sé um tilraun að ræða og að það loki engu með því að fara þessa leið, en ég vil undirstrika það, að ég tel það mjög vafasamt, að fjármagni því, sem verður varið til slíkra bráðabirgðabygginga, sé varið á heppilegan hátt.