08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

96. mál, ríkisreikningurinn 1946

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hreyfði þessu máli við 1. umr. og þakka n. fyrir að hafa tekið tillit til þess, sem ég sagði þá, hvað það væri óviðkunnanlegt, að á öllum þingum lægju fyrir ríkisreikningar til samþykktar, að vísu eldgamlir, og þá væru alltaf aths. frá yfirskoðunarmönnum, þar sem þeir vísuðu til aðgerða Alþingis, en hv. þm. létu sem þeir sæju það ekki, og það hefur aldrei verið tekið til greina, þótt ég hafi verið með ábendingar þessu viðvíkjandi, fyrr en nú. Það hefur alltaf verið skotið sér bak við það, að fjárlög eru afgreidd í Sþ., en deildirnar samþykkja ríkisreikninginn, svo að það er ekki sami aðili, sem getur fundið að og fyrirskipað. Nú þykir mér vænt um, að hv. n. hefur litið á þetta og viðurkennt, að þetta er ekki heppilegt og það því síður, þar sem dómurinn — landsdómurinn — sem ætlaður var til þess að dæma ráðh., er raunverulega ekki til nema á pappírnum. Þær hæstv. þrjár eða fjórar undanfarnar ríkisstj., sem setið hafa að völdum, hafa ekki rækt þá skyldu sína að sjá um endurnýjun landsdómsins samkvæmt lögum, og hefur það ekki verið gert nema í einstöku sýslum. Það er því komið svo, að þótt verulegar athugasemdir séu við gerðir hæstv. ráðh., þá er nú ekki hægt að ákæra þá og sækja til saka. Nú eru hæstv. ráðh. hlaupnir og stólarnir tómir, en ég hefði haft gaman að því að spyrja hæstv. dómsmrh., hvort hann hafi ekki hugsað sér að endurnýja landsdóminn, því að ég hygg, að sú framkvæmd heyri undir hann, ef einhverjum dytti í hug að draga ráðh. til ábyrgðar út af gerðum hans eða afglöpum.

Ég vil svo í sambandi við það, sem hv. frsm. n. sagði viðvíkjandi 26. aths., benda honum á, að þar er ekki sagður nema hálfur sannleikurinn. Í aths. segir, að úr ríkissjóði hafi verið lánað til 14 fiskibáta, sem smíðaðir voru í Svíþjóð, frá rúmum 28 þús. kr. upp í 113 þús. kr. til hvers báts, gegn 2. og 3. veðrétti, samtals kr. 878.669,53. En þetta er ekki allt. Þar er líka bent á, að úr ríkissjóði hafi verið lánað auk þessa til 10 báta, sem smíðaðir voru innanlands, upphæðir, sem nema frá rúmum 70 þús. kr. upp í rúm 295 þús. kr. til hvers báts, gegn 2., 3. og 4. veðrétti í bátunum. Þessi lán nema samtals kr. 1.753.274,16. Þá hefur enn fremur verið lánað úr framkvæmdasjóði ríkisins út á þessa sömu báta, sem smíðaðir voru innanlands, samtals 980.000 kr. gegn 2. og 3. veðrétti. Þá hefur og verið lánað úr fiskveiðasjóði út á þessa sömu báta gegn 1. veðrétti samtals 2.755.000 kr. Það hefur því alls verið lánað út á þessa báta á sjöundu millj. kr. Svo spyrja nú yfirskoðunarmennirnir, hvernig það sé með þessi lán, hvort þau hafi verið greidd, eins og um var samið, og hvernig sé með önnur skil þessara báta við ríkissjóðinn. Þeir fá það svar hjá hæstv. ráðh., að mjög lítið hafi verið endurgreitt af þessum lánum, því að eins og menn viti, þá hafi afkoma bátanna verið mjög bágborin undanfarin ár. Þetta þykja endurskoðendunum ekki nægilega skýr svör og vísa til aðgerða Alþingis, og þar við situr. Þá hafa verið látnar þrjár millj., sem vafasamar heimildir eru fyrir og ekki er samið um, hvernig eigi að greiða. Um þetta spyrja þeir, en fá ekki viðunandi svör og vísa því til aðgerða Alþingis, en þar er þetta látið gott heita. Sömuleiðis spyrjast þeir fyrir um kaupin á Laugarnesi, þar sem svo er ákveðið í afsalsbréfinu, að seljandi skuli hafa endurgjaldslaust afnot af húsum jarðarinnar, meðan stendur yfir bygging menntaskólans þar, og einnig skal hann hafa, líka endurgjaldslaust, afnot af jörðinni sama tímabil, að svo miklu leyti sem það fer ekki í bága við framkvæmdir ríkissjóðs þar. Yfirskoðunarmennirnir benda á, að ríkið muni nú hafa lítil nat af þessari eign, því að mjög geti dregizt, að menntaskóli verði byggður þar, og spyrjast fyrir um, hvernig ríkisstj. hyggst fana með þessa eign, svo að hún verði ekki arðlaus með öllu um langa framtíð. Ríkisstj. svarar þessu þannig, að það eigi að breyta ummælunum í afsalsbréfinu og verið sé að athuga möguleika á því að selja eignina, og þar við situr. Ég tel það varla sæmandi af Alþingi, þótt að vísu sé ekkert hægt að gera hér í d., að taka ár eftir ár við aths. endurskoðenda um, að þeir fái ekki fullnægjandi svör og vísi þess vegna til aðgerða Alþingis, að láta sem það sjái það hvorki né heyri. Og þótt ríkisstj. gerði eitthvað, sem væri þannig vaxið, að ástæða væri til að draga hana fyrir dóm þess vegna, þá væri það ekki hægt, því að undanfarandi ríkisstj. eru búnar að koma því svo fyrir, að landsdómur er aðeins til sem pappírsgagn.