04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

38. mál, fjárlög 1950

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég flyt brtt. við fjárlfrv. — ég held henni hafi ekki verið útbýtt enn — um að hækka framlagið til hafnargerðar á Ísafirði úr 100 þús. kr. í 280 þús. kr. Ísafjarðarhöfn er ein af beztu höfnum landsins utan Reykjavíkur, þaðan hefur lengi verið rekinn sjávarútvegur og höfnin er ágætlega gerð af náttúrunnar hálfu. Þegar litið er á till. fjvn., sést, að Ísafjörður er neðarlega á blaði. Hefur n. lagt til, að aðeins 100 þús. kr. verði veittar til hafnarmannvirkja þar. Mér er tjáð, að ástæðan til þess, að upphæðin er svona lág, sé sú, að innstæða Ísafjarðar sé ekki nema 40 þús. kr. Að vísu mun þessi upphæð eiga að vera mun hærri, ekki vegna þess að fjvn. eða vitamálastjóri hafi faríð rangt með, heldur vegna þess, að fullnægjandi reikningar munu ekki hafa verið fyrir hendi nægilega snemma.

Á Ísafirði er nú verið að vinna að allmiklum hafnarbátum. Rammað hefur verið niður járnþil, en það nefur ekki verið gengið frá því til fulls, þar sem eftir er að fylla á bak við það. Það er því hætta á því, að þilið leggist niður, ef ís ber að því. Ef ekki verður unnið fyrir meira fé en 100 þús. kr., eins og fjvn. leggur til, er ekki hægt að ljúka þessu verki. Það kann svo að vera, að Ísafjörður eigi ekki nema 40 þús. ógreiddar hjá ríkissjóði, en eins og ég hef skýrt frá er þetta mannvirki í hættu, ef ekki verður endanlega frá því gengið. Ég hef þess vegna leyft mér að leggja fram brtt. mína í þeirri von, að hún verði tekin til greina af þeim ástæðum, sem ég hef greint frá. Það verður erfitt fyrir kaupstaðinn, ef þetta mannvirki eyðileggst, og auðvitað hefur það í för með sér tap fyrir ríkissjóð líka. Nú stendur svo á fyrir Ísfirðingum, að auk fimm hallærissumra fyrir síldveiðarnar hefur verið hallærisástand hvað þorskveiðarnar snertir í þrjú ár. Síðasta vertiðin var sú versta, sem ég man eftir s.l. 20 ár. Fjárhagur kaupstaðarins er því bágborinn, og ég held, að hann geti ekki af eigin rammleik verndað þetta mannvirki. Ég vænti því þess, að þetta verði tekið til velviljaðrar athugunar.