10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

38. mál, fjárlög 1950

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Áður en ég sný mér að aðalefninu, tel ég rétt að vekja athygli á eftirtektarverðum ummælum hv. þm. Siglf., Áka Jakobssonar: Hann sagði, að Sovétríkin vildu ekki verzla við Íslendinga vegna þess, að þeim félli ekki við hæstv utanrrh., Bjarna Benediktsson. Að sönnu sagði form. Sósíalistafélags Reykjavíkur annað, er hann ásamt fleirum reyndi að selja Sovétríkjunum framleiðslu íslendinga. Hann skýrði stjórn Íslands frá því, að Sovétstjórnin teldi verðlagið allt of hátt. En sleppum því.

Sagt er, að einmitt Áki Jakobsson kunni ágæt skil á því, sem Sovétstjórnin vill. Yfirlýsing hans er því stórmerk: Hann lýsir því blygðunarlaust yfir, að eins og Íslendingar til skamms tíma urðu að láta síldarlýsið falt í því skyni að losna við hraðfrysta fiskinn, þá verði nú pólitísk sannfæring að fylgja fiskinum, ef Sovétríkin eigi að gerast kaupendur.

Íslendingar vita héðan af, hvar þeir standa í þessum efnum. Þeir geta nú valið milli þess að skipta við Rússa og farga sannfæringunni og hins; að halda skoðun sinni og þola hið mikla böl markaðsmissis, sem Áki Jakobsson lýsti svo átakanlega.

Ég tel afar þýðingarmikið, að þjóðin hefur fengið þessar upplýsingar einmitt frá einum aðalleiðtoga kommúnistadeildar Íslands.

Út af hinu svokallaða Björgvinsmáli, sem hv. form. Alþfl. var að minnast á, vil ég aðeins segja þetta:

Maður, sem búið er að skamma jafnoft og mikið sem mig fyrir það, sem hann hefur ekki gert, á ekki að kippa sér upp við að fá orð í eyra fyrir það, sem hann þó hefur gert. En það var ég, sem veitti útflutningsleyfi á fjórum fúadöllum Björgvins og ber á því alla ábyrgð. Ég get hins vegar ekki gert það fyrir vini mína í Alþýðufl. að látast finna til einhverrar sektartilfinningar af þessu tilefni, enda veit ég, að pólitískur áróður veldur afstöðu Alþfl., en ekki siðferði eða sannfæring.

Þessi fjögur gömlu skip lágu vestur í New Foundland, fámenn og yfirgefin, svona líkt og Alþýðuflokkurinn. Skipunum fylgdu „nokkur tonn“ af síldarnótum, eins og Alþýðublaðið orðaði það nýverið. Þetta er rétt orðað. Næturnar svonefndu voru einmitt nokkur tonn af gömlum graut, auk tveggja nothæfra nóta.

Þegar ég veitti þetta útflutningsleyfi, vissi ég vel, að allur málatilbúnaður var ógeðþekkur, þótt sennilega sé fæst satt af því, sem Alþfl. hefur um þetta sagt. En ég vissi jafnframt, að meira kostaði að sækja skipin, en þau voru virði hingað komin. Ég vissi enn fremur, að sjómennirnir, sem á skipunum höfðu verið, áttu inni mörg hundruð þúsund krónur af kaupi sínu, sem hvorki 8. landsk., hv. þm. Ísaf. né aðrir voru skyldir til né ætluðu að greiða. Ég vissi, að fiskveiðasjóður, samábyrgðin o. fl. áttu stórfé hjá eiganda skipanna. Ég vissi, að allt var þetta fé tapað, hver einasti eyrir. Og loks vissi ég, að okkur skorti gjaldeyri til brýnustu nauðsynja.

Þegar mér nú gafst kostur á því að bjarga fjármunum þessara aðila, alls 1.7 millj. kr. í dollurum. með því að heimila sölu fjögurra fúadalla, sem Íslendingum voru einskis virði, þar sem þeir lágu, sagði ég við sjálfan mig: „Þú færir ekki þjóðinni daglega hátt á aðra milljón króna.“ Ég ákvað að setja kíkinn á blinda augað, taka efni fram yfir form. Ég heimilaði því söluna, en setti það skilyrði, að íslenzkum bönkum yrði afhent allt andvirði hins selda, og færði þar með þjóðinni 1.7 millj. kr. þann daginn.

Þetta er nú það, sem ég hef til saka unnið. Ég var ekki alls kostar ánægður, ég játa það. En slíks er ekki alltaf kostur. Ég tel mig hafa gert rétt, og væri ósköp ánægður, ef ég ætti engin verri afglöp að baki mér ....

Eins og alþjóð veit myndaði Sjálfstfl. minnihlutastjórn í byrjun desembermánaðar s.l., eftir að útséð var um, að takast mætti að mynda meirihlutastjórn í landinu.

Á Íslandi getur minnihlutastjórn tæplega gert sér miklar vonir um langlífi né mikil völd. Það vissu sjálfstæðismenn, er þeir ákváðu að verða við tilmælum herra forseta Íslands um myndun minnihlutastjórnar. Þessi minnihlutastjórn gaf þó þrjú fyrirheit, er hún tók við völdum:

Í fyrsta lagi að reyna að hindra stöðvun fiskiflotans um síðastliðin áramót. Það tókst.

Í öðru lagi, að undirbúa og, ef stj. yrði nokkurs lífs auðið, að leggja fyrir Alþingi tillögur um varanlega lausn dýrtíðarmálsins. Það tókst.

Í þriðja lagi, að standa að myndun meirihlutastjórnar til þess meðal annars að tryggja framkvæmd þeirra tillagna. — Það tókst.

Þessi skammlífa stjórn fékk því lausn í náð með sæmilegu mannorði varðandi efndir fyrirheita sinna. Er það betra hlutskipti, en langlífi og brigðmæli.

Síðast þegar útvarpað var umræðum frá hinu háa Alþingi, var rædd og samþykkt vantrauststillaga á þessa minnihlutastjórn Sjálfstfl., er þá hafði setið að völdum tæpa 3 mánuði. Tæpum hálfum mánuði síðar tók núverandi ríkisstjórn við völdum. Hún er, eins og kunnugt er, samstjórn tveggja flokka, Sjálfstfl., sem stóð að fyrrverandi stjórn, og Framsfl., sem felldi þá stjórn. Höfuðverkefni stjórnarinnar var að tryggja lögfestingu frv. þess um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl., sem stjórn Sjálfstfl. hafði lagt fyrir Alþingi. En um þær tillögur höfðu núverandi stjórnarflokkar verið sammála í aðalefnum um alllangt skeið. Vik ég nánar að því síðar, en tel rétt nú, er ég í fyrsta skipti eftir að hið nýja samstarf hófst, á kost á því að tala í áheyrn. alþjóðar, að gera fyrst nokkra grein fyrir því, hvers vegna flokksráð Sjálfstfl. ákvað að hefja samstarf við Framsfl.

Þetta er auðið að gera í stuttu máli. Höfuðatriðið er, að Sjálfstfl. hafði borið fram tillögur til viðreisnar í aðalvandamáli þjóðarinnar. Taldi flokkurinn sig að þrautrannsökuðu máli með því benda á, eigi aðeins beztu, heldur og hina einu leið, er til mála gæti komið til að ráða fram úr öngþveitinu. Skal ég síðar færa sönnur á, að þessi skoðun Sjálfstfl. er á rökum reist.

Alþfl. kaus sér það hlutskipti að snúast öndverður gegn sannfæringu sinni og þessum til lögum.

Kommúnistar völdu að sjálfsögðu þann kostinn, sem einn samrýmist þeim, sem telja sér glundroðann til ávinnings. Þeir hafa barizt af krafti þeirrar sannfæringar, sem metur annað meir en hagsmuni sinnar eigin þjóðar, gegn tillögunum. Eftir var þá aðeins einn kostur, að tryggja þeim sigur fyrir sameiginlegan atbeina Sjálfstfl. og Framsfl., sem báðir fylgdu tillögunum.

Sá flokkur, sem lagt hafði fram slíkar tillögur í aðalvandamáli þjóðarinnar, sannfærður um, að kæmi sú stefna, sem þar var mörkuð, ekki að liði, væri málum Íslendinga ekki við bjargandi, hlaut að æskja samstarfs við þann borgaralega flokk, sem sömu augum leit á málið, alveg án hliðsjónar af öllu, er borið hefur og bera mun milli þessara flokka. Sjálfstfl. beitti sér því fyrir tilraunum um stjórnarmyndun og samstarf milli Sjálfstfl. og Framsfl. Stóðu þær samningaumleitanir allt frá því snemma í febrúar og þar til 8. marz, að talið var vonlaust um jákvæðan árangur. Lá þá ekkert fyrir annað en utanþingsstjórn, er hefði forustu um samþykkt frv. Sjálfstfl. Það er út af fyrir sig, að utanþingsstjórn er í augum þjóðarinnar og raunar umheimsins vottur um vesaldóm og volæði þingræðis og lýðræðis í landinu. En hitt er auk þess staðreynd, sem öllum er kunn, sem eitthvað hafa kynnt sér þetta mikla mál, að frv. eitt út af fyrir sig kom ekki að neinu haldi. Skilyrðin fyrir gagnsemi þess voru fyrst og fremst, að afgr. yrðu greiðsluhallalaus fjárlög og að fjárfestingu hins opinbera sem einstaklinga yrði stillt í hóf. Ella var gengisfellingin ekki til góðs, heldur til ills. En hvorugt þetta, né heldur ýmislegt annað, sem gera þurfti og þarf, var auðið að tryggja nema með sæmilegu samstarfi að minnsta kosti Sjálfstfl. og Framsfl. Undir forustu máttvana utanþingsstjórnar var slíkt samstarf vonlaust. Sjálfstfl. og Framsfl. hefðu þ'a ekki sameinað kraftana til þess að ráða fram úr stórum málum og miklum vanda.

Ó-nei. Þegar í ljós kom, að þingið var aðgerðarlaust og stj. máttvana, hefðu þessir flokkar sem aðrir keppzt um að koma sér undan skömminni, þ.e.a.s. að dómfella hver annan. Illa gróin kosningasár hefðu ýfzt og langur tími orðið að líða, áður en þessum flokkum yrði auðið að starfa saman að þeim velferðarmálum, sem þeir voru sammála um. Á meðan hjaðningavígin hefðu verið í algleymingi, hefði þjóðin steypzt fram af gjárbarminum. Þetta vita þeir, sem muna viðleitni ágætra manna í utanþingsstj. á árunum 1942–44 til að stýra löggjöf og framkvæmd í landinu og muna einnig gagnkvæmar ásakanir Framsfl., Alþfl. og kommúnista, þegar margra mánaða samningaumleitanir þeirra um stjórnarmyndun og samstarf brustu. Það er því alveg tvímælalaust rétt, að ef forseti Íslands hefði neyðzt til að skipa utanþingsstjórn, þ.e.a.s. stj., sem ekki hafði fyrir fram tryggt sér fylgi meiri hluta Alþingis í öllum aðalefnum, mundi Alþingi hafa veitzt þunglega að virðingu sinni og velferð þjóðarinnar í veraldlegum efnum.

Það var þessi skilningur Sjálfstfl. og Framsfl.. sem því réð, að þegar úrslitatilraunin til stjórnarmyndunar hófst með samtali formanna flokkanna, föstudagskvöldið 10. marz, leiddi hún til þess, að tveim dögum síðar var raunverulega lokið öllum samningum um stjórnarmyndun og samstarf milli þessara flokka.

Ég geng þess að sjálfsögðu ekki dulinn, að mörgum kjósendum Sjálfstfl. er það lítið gleðiefni, að þetta samstarf skyldi hafið, jafnkærleikssnauð sem sambúð Sjálfstfl. og Framsfl. lengst af hefur verið. En hvort tveggja er, að hið mikla mál okkar átti sér hvergi skjól, utan Sjálfstfl.. nema hjá Framsfl., og hitt, að ef menn einblína alltaf á fornar misgerðir annarra og temja sér jafnframt dómgreindarleysi og gleymsku á eigin afglöp og ávirðingar, verður aldrei miklu góðu til leiðar komið. Fortíðin er lítils virði. Framtíðin mikils. Persónulegar ádeilur og illkvittni skaðar minnst þann, sem að er stefnt. Þeim, sem kennir sársauka af slíku, þegar velferð þjóðarinnar er annars vegar, er hentast að hætta sér ekki í fremstu víglínu. Ég hygg, að þetta sé skoðun okkar flestra, sem með forustuna förum á sviði stjórnmála. Það tel ég okkur til lofs, en þjóðinni til gæfu, vegna þess að ella mundi oft örðugra að sameinast í baráttunni um heill fósturjarðarinnar.

Þegar á kjarna málsins er litið, fögnum við í forustu Sjálfstfl. samstarfinu og vitum þó mæta vel, að vinsælla og líklegra til pólitísks ávinnings hefði verið að sitja hjá, gagnrýna og láta aðra um að leysa örðugleikana. Ég hygg enn fremur, að yfirleitt hafi mönnum létt, þegar loks tókst að koma á þessu samstarfi, einnig ýmsum þeim, sem telja sig í stjórnarandstöðu. Og spá mín er sú, að þessi hópur fari stækkandi, eftir því, sem menn gera sér gleggri grein fyrir því, um hvað var að velja, bæði varðandi leiðir út úr ógöngunum og framkvæmd málsins. Ég held, að áður en stjórnin var mynduð, hafi okkur verið líkt farið og flestum Íslendingum var meðan styrjöldin mikla geisaði. Við gerðum okkur þá litla eða enga grein fyrir þeirri hættu, sem yfir okkur vofði. En seinna, þegar við fórum að lesa stríðsendurminningar þeirra, sem þá réðu örlögum veraldarinnar, sáum við, að yfir lífi okkar, limum og eignum hafði oft grúft hin ægilegasta hætta. Ég held, að þegar öll kurl koma til grafar og öll kort verða lögð á borðið, verði það sannað, að hefði ekki á örlagastundinni tekizt að kippa rás viðburðanna af braut ógæfunnar, þá mundi margur fyrr en varir hafa öðlazt á því óþyrmilegan skilning, að eigur hans og atvinna voru í annarri og meiri hættu en hann gerði sér grein fyrir meðan stjórnmálamennirnir voru að glíma sína glímu í sölum Alþingis.

Læt ég svo útrætt um þessa hlið málsins. Núverandi stjórn hefur setið að völdum aðeins tæpa tvo mánuði. Svo stuttur tími nægir að sjálfsögðu ekki til að auðið verði að dæma um, hvort stj. muni lánast að leysa af hendi hið mikla hlutverk, er hún hefur færzt í fang. Stj. verður því fyrst og fremst að dæmast eftir stefnuyfirlýsingu sinni, nema því aðeins að hægt sé að sýna fram á, að hún hafi brugðizt þeim hluta fyrirheitanna, sem með sanngirni verði krafizt, að hún nú þegar hafi hrint í framkvæmd.

Höfuðverkefni ríkisstj. er að vinna að því, að aðalatvinnuvegir landsmanna verði reknir styrkjalaust og hallalaust í meðalárferði og að verzlun landsmanna verði gefin frjáls, til þess með þessu móti að koma á jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Þessu markmiði hyggst stj. að ná með því:

Í fyrsta lagi, að lögfesta frv. minnihlutastjórnar Sjálfstfl. um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl., eins og það var lagt fyrir Alþingi, með þeim breytingum, sem Framsfl. gerði að skilyrði fyrir stuðningi sínum við málið.

Í öðru lagi, að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög og reyna að hlutast til um, að útlánastarfsemi bankanna verði hagað í samræmi við þá stefnu, þannig að fjárfesting í landinu verði í samræmi við efnahagsástandið. Og enn fremur að gera aðrar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar teljast til þess að gengisfallið komi að liði.

Varðandi fyrra atriðið verður engum blekkingum við komið að því er formið snertir. Allur landslýður veit, að fyrsta verk ríkisstj. var að láta samþ. umrætt frv., er varð að lögum tæpri viku eftir að stj. tók við völdum.

Hitt, hvort nauður hafi rekið til að fella krónuna, þ.e.a.s. hvort ríkisstj. hafi í þessum efnum tekið rétta stefnu, er svo margrætt mál, að þess ætti að mega vænta, að alþjóð manna hafi öðlazt á því glöggan skilning. Samt sem áður vil ég með nokkrum orðum rifja upp, hversu sakir stóðu og um hvað var að velja.

Í 3 ár hafði setið að völdum í landinu samsteypustjórn þriggja borgaralegra flokka. Höfuðverkefni hennar var að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar. Árangurinn varð sá, að þessi 3 ár voru árlegir skattar hækkaðir um nær 100 millj. kr. Samt sem áður var halli á ríkisbúskapnum, er nam 175 millj. kr. Kaupgjaldið, sem átti að stöðva í því skyni að hindra verðbólguna, hækkaði víðast um 20–30% og allt upp í 42%, en ákvæðisvinnan hækkaði um 32–63%. Afurðaverðið gerði ýmist að stýra förinni eða að sigla í kjölfarið. Afleiðingin varð að sjálfsögðu sú, að verðbólgan fór ört vaxandi, þrátt fyrir síhækkandi niðurgreiðslur úr ríkissjóði, og mun ekki of mælt, að vísitalan hefur raunverulega hækkað um 35 stig á ári að meðaltali, allt frá ófriðarbyrjun og fram á þennan dag.

Og nú stóð útgerðin og krafðist stórhækkaðs ábyrgðarverðs, jafnframt því sem verðlag afurðanna fór lækkandi á erlendum markaði. Fjárlagafrv. það, sem fyrir Alþingi lá, var að vísu með um 4 millj. kr. greiðsluafgangi, en í því var heldur ekki einn eyrir ætlaður til uppbóta á útflutningsvörur. En til þess að standa straum af þessum uppbótagreiðslum í samræmi við kröfur útvegsmanna hefði þurft að leggja að minnsta kosti 95 millj. kr. nýja skatta á þjóðina. Er þá ekki gert ráð fyrir verðfalli afurðanna, en það hefði að sjálfsögðu bitnað á ríkissjóði, ef uppbótaleiðinni hefði verið haldið áfram. Við það bætist svo, að togaraútgerðin var að stöðvast vegna taprekstrar. Er þá ótalinn árlegur greiðsluhalli á fjárlögunum, en hann nam, eins og fyrr greinir, nær 60 milljónum á ári síðustu 3 árin. Ef fara átti uppbótaleiðina, hefði því þurft að bæta að minnsta kosti 150–200 millj. kr. nýrra skatta á þjóðina ofan á þær 100 milljónir, er stjórn Stefáns Jóhanns hafði lagt á skattþegnana. Hefur enginn maður enn treyst sér til að benda á leið til slíkrar tekjuöflunar.

Uppbótaleiðin var þegar af þessum ástæðum dauðadæmd.

Til frekari áréttingar þykir mér svo rétt að rifja upp örfá ummæli úr dauðadómi þeirra dr. Benjamíns Eiríkssonar og prófessors Ólafs Björnssonar yfir uppbótaleiðinni. Munu fæstir vefengja dóm þessara kunnu vísindamanna, og enn síður fyrir það, að enn hefur enginn hagfræðingur treyst sér til að mæla þeim í gegn. Þeir segja meðal annars:

„Hún (þ.e. uppbótaleiðin) skapar ekki nein skilyrði til þess, að hægt verði að stöðva dýrtíðina. .... Styrkjaleiðin gefur ekkert loforð um betra í framtíðinni. Hana skortir allt hið jákvæða, sem fylgir gengislækkunarleiðinni, eða niðurfærsluleiðinni. Af þessum 3 leiðum er sú leið, sem nú er farin, minnst æskileg og er í rauninni ekki lengur framkvæmanleg.“

Þetta er þá dómur hinna kunnu vísindamanna, dómur, sem ég hygg, að allir hagfræðingar landsins taki undir, að minnsta kosti á hjarta sínu. Af því má marka, að uppbótaleiðin hafi löngu gengið sér til húðar, og var á rauninni orðin svo fjarri öllum sanni, að enginn gat orðað hana í alvöru.

Eftir stóð aðeins valið milli verðhjöðnunar eða niðurfærsluleiðarinnar og gengisfellingarinnar, ef ekki átti að stefna bölvun atvinnuleysisins að dyrum alls almennings í landinu. Hafa margir mætir menn, að lítt rannsökuðu máli og áður en full greinargerð lá opinberlega fyrir, talið verðhjöðnunarleiðina aðgengilegri, en gengisfellinguna. Þykir mér því rétt að rifja upp í örfáum orðum samanburð fyrrnefndra vísindamanna á þessum 2 leiðum. Þeir segja:

„Verðhjöðnun mundi valda miklu meiri röskun á efnahagskerfi þjóðarinnar og verða langtum örðugri í framkvæmd, en gengislækkun. Enn fremur er hættara, að almennt atvinnuleysi fylgi henni, en nokkurri annarri leið. Beinar aðgerðir í þessu skyni eru fólgnar í því að lögbjóða lækkun kaupgjalds og verðlags í ákveðnum hlutföllum. Sérstaklega skal á það bent, að lækkun kaupgjaldsins yrði þá að vera til muna meiri en lækkun verðlagsins. .... Yrði verðhjöðnunarleiðin farin, hlytu skuldabyrðar að þyngjast til muna. Mundi slíkt bitna hart á öllum, er ráðizt hafa í framkvæmdir á árunum síðan styrjöldinni lauk. .... Sérstaka athygli má vekja á því, að þau bæjarfélög, er ráðizt hafa í ýmiss konar framkvæmdir, mundu þá fá aukna erfiðleika að etja við. .... Á almennri og stórfelldri verðhjöðnun er ekkert að græða, sem ekki er fáanlegt á einfaldari hátt eftir öðrum leiðum.

Niðurstöður okkar um samanburð á verðhjöðnun og gengislækkun eru þessar: Verðhjöðnun, sem næði sama árangri og gengislækkun, mundi í bili leggja miklu þyngri byrðar á herðar launafólks en gengislækkunin, og mundi taka miklu lengri tíma að ná tilætluðum áhrifum. .... Á hinn bóginn verður ekki komið auga á neina þýðingarmikla kosti, sem hún hefur fram yfir gengislækkunarleiðina“.

Þetta er dómur hinna fróðustu manna. Hann er réttur. Þess vegna féllu allir, sem kynntu sér rök þessa máls, frá verðhjöðnunarleiðinni.

Eftir stóð þá aðeins gengisfellingin annars vegar, en hrun atvinnuveganna og almennt atvinnuleysi hins vegar. Milli þessa tveggja átti ekki að vera erfitt að velja, og gat raunar engum valdhafa reynzt erfitt að velja. Valdhafarnir völdu gengisfellingarleiðina. Hinir, sem ekki bera þunga ábyrgðar valdanna, hafa valið sér þann kostinn að reyna að sverta þá leið, vegna þeirra ágalla, sem hún auðvitað hefur, og í skjóli þess, að takast megi að afstýra böli þess atvinnuleysis, sem ella hefði verið leitt yfir alþjóð manna, með þeirri gengislækkun, sem stjórnarandstaðan nú er að sverta í augum almennings, þannig að ágallar annarra,úrræða komi aldrei í ljós.

Af því, sem nú hefur verið sagt, sést, að varðandi þennan þátt stefnuyfirlýsingar ríkisstj. hefur hún eigi aðeins valið þá einu leið, er til greina gat komið, heldur og þegar lögfest þau ákvæði, er mestu skipta.

Varðandi síðari liðinn, afgreiðslu greiðsluhallalausra fjárlaga, hóflega fjárfestingu og annað svipað, get ég verið stuttorðari, vegna þess að aðrir hæstv. ráðherrar munu skýra þá hlið sérstaklega. Þó vil ég segja þetta:

Eins og ég áður gat um, hefur halli ríkissjóðsins undanfarin þrjú ár verið samtals um 175 millj. kr. Liggja til þess margar ástæður, sem hér skulu ekki raktar. Um sumt verðum við ekki með réttu sakaðir, annað eru sjálfskaparviti. Hefur það löngum verið mikið deiluefni, hverjir valda þar mestu. Þykjast að sjálfsögðu engir vera sekir, en sjá því betur flísina í auga bróður síns.

Er ekki von, að vel fari, þegar saman fara kröfurnar um sívaxandi útgjöld úr ríkissjóði og andstaðan gegn nýjum sköttum. Hafa mótmæli þeirra manna oft verið háværust gegn auknum sköttum, þ.e.a.s. nýjum tekjum í ríkissjóð, sem sterkustum rómi hafa krafizt ýmissa nýrra verklegra framkvæmda, sívaxandi ríkisbákns með nýjum og nýjum embættum og annars slíks, þ.e.a.s. nýrra gjalda úr ríkissjóði. Hárri röddu hafa þeir tjáð alþjóð manna andúðina gegn sköttunum og samtímis með skrækróma hnykkjum heimtað öll þau útgjöld úr ríkissjóði, sem þeir telja sjálfum sér til framdráttar. Slíkt hlaut að leiða til ófarnaðar, enda er nú sjón sögu ríkari. Það hefur þó áunnizt, að allir neyðast nú orðið til þess að játa, að hér verður að spyrna við fótum.

Núverandi ríkisstj. hefur til þess vilja. Fjárlögin sanna, að hún hefur einnig nokkra getu. Til þess að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, svo sem nú mun gert, og það án nýrra skatta, eins og til stendur, verður að draga úr útgjöldum ríkisins sem nemur greiðsluhalla undanfarinna ára, en hann hefur verið nær 60 millj. kr. á ári undanfarin 3 ár. Til þessa þarf nokkurt átak, ekki sízt fyrir það, að sakir lélegra aflabragða, markaðsmissis og lækkandi verðlags útflutningsvörunnar verður að áætla innflutninginn varlega og þar með nokkra aðaltekjustofna ríkisins. Hefur í þessu skyni orðið að draga úr öllum framkvæmdum, eins og sjá má af því, að þrátt fyrir krónulækkunina er sú krónutala, sem ríkið leggur fram til þessa, svipuð og í fyrra. Af þessum sökum mun ríkinu heldur ekki reynast auðið að gera svo vel við starfsmenn sína og aðra þá, er taka fé úr ríkissjóði, sem margir hefðu á kosið, og einnig neyðast til þess að láta ýmsa þá synjandi frá sér fara, sem flestir hefðu kosið að létta undir með.

Áður en þessum umræðum lýkur mun það verða sannað, að afgreiðsla fjárlaganna er eftir atvikum skynsamleg. Má þó að sjálfsögðu betur, ef duga skal, og hygg ég, að stjórnarflokkarnir muni sýna þann skilning í verki, ef samstarfið helzt um nokkurt skeið. Verður ríkisstj. eðli málsins samkvæmt að hafa þar alla forustu. Hefur hún bætt það mál nokkuð og þegar ákveðið bæði allverulegan sparnað á vissum sviðum, þar sem vald hennar nær til, og enn fremur að athuga og leggja fyrir næsta þing tillögur til breytinga á fjárfrekri löggjöf, ef auðið þætti að fresta framkvæmdum að nokkru eða öllu leyti, í því skyni að draga úr útgjöldum ríkissjóðs meðan fjárhagur ríkisins stendur höllum fæti. Veit ég, að ríkisstj. öll hefur hug á þessu, en einmitt slíkur samhugur er grundvallarskilyrði þess, að greitt verði fram úr vandanum. Einn fær fjmrh. engu áorkað í þessum efnum, er að haldi komi, og ekki fyrr en samstarfsmenn hans telja það jafnt sína skyldu sem hans að tryggja hag ríkissjóðs.

Að öllu athuguðu hygg ég, að ekki verði annað með sanni sagt, en að fjárlögin séu sæmilega varlega afgreidd. Tel ég blaðaskrif, einnig skrif sumra stjórnarblaðanna, um þessi efni, bera þess vatt, að þau skilja minna en þingið, sem þau þó eru að ámæla, í því, sem nú er verið að aðhafast innan stjórnarherbúðanna. Hitt verður svo að viðurkenna, að bregðist síldveiðin enn, svo að sjötta síldarleysisárið bætist nú ofan á þá örðugleika, sem við er að etja, getur svo farið, að gjaldeyrisskortur kippi fótunum undan öllum skynsamlegum áætlunum um innflutning og þar með undan tekjuöflun ríkisins. En ef fjárlög á að byggja á slíkum útreikningum, mundi sérhverri ríkisstjórn hafa reynzt ofvaxið að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög. Það hugarfar þingmanna, sem til slíks þarf, skapar ekkert annað en þrengingarnar sjálfar, þegar þær blasa við allra augum sem staðreynd, en ekki aðeins sem ótti bölsýnismanna.

Ég lýk þessum athugasemdum með því að minna á, að án gengisfellingar var með öllu óhugsandi að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög. Liggur það svo ljóst fyrir, að eigi þarf að rökstyðja það frekar, en nú hefur gert verið. Án gengisfellingar hefðum við því haldið áfram að sökkva dýpra og dýpra í díki skulda og óreiðu.

Þegar fjárlögin hafa verið afgreidd greiðsluhallalaus, er næsta skrefið að samræma útlánastarfsemi bankanna þessari stefnu. Efa ég ekki, að góð samvinna takist milli banka landsins og ríkisvaldsins í þessum efnum. Þarf í því sambandi að sönnu að ná samstarfi við fleiri, en aðalbankana, en einnig það ætti að reynast auðið. Á þá að verða tryggt, að fjárfestingin í landinu verði í eðlilegu samræmi við sparifjármyndunina og fjárhagsafkomu þjóðarinnar í heild, en það er frumskilyrðið fyrir því, að takast megi að hindra myndun nýrrar dýrtíðar í landinu. Jafnframt koma svo til áhrif fjárhagsráðs, meðan það starfar. Hefur það ákveðið, að heildarfjárfesting ársins 1950 verði minni, en undanfarin ár, en þó fellt fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir, bæði Sogsins og Laxár á þessu ári, inn í heildarfjárfestingu ársins.

Að öllu þessu athuguðu virðist mega gera sér vonir um, að ríkisstj. geti staðið við það fyrirheit, sem hún hefur gefið varðandi þennan annan höfuðþátt stefnu sinnar.

Í öllum þessum efnum er um beina stefnubreytingu að ræða frá því stjórn Stefáns Jóhanns lét af völdum. Jafnvel hið óhóflega skrifstofuhald, sem Alþýðublaðið er að fárast yfir að ekki hafi verið skorið niður strax og Stefán Jóhann lét af völdum, er nú komið undir smásjána. Sýnast þar margar óþarfar greinar, sem sumar hafa vaxið og dafnað vel í skjóli fyrstu stjórnar Alþýðuflokksins á Íslandi. Munu þær nú afhöggnar, eftir því sem auðið reynist. Er að vænta, að Alþfl. fagni því, auglýsi vel og miklist af, er kröfur þær, er hann gerir á hendur núverandi stjórnar um að minnka ríkisbáknið, verða teknar til greina.

Læt ég útrætt um þessa hlið málsins, en ætla að víkja eilítið að þeirri gagnrýni, er að ríkisstj. hefur verið beint.

Nær allar árásir á ríkisstj. í þessum umræðum eru út af gengisfellingunni og þeim verðhækkunum, sem henni fylgja. Þessum árásum er fljótsvarað. Ég er þegar búinn að svara þeim. Fátæk og fámenn þjóð, sem lagt hafði á bak sér 100 millj. kr. nýjar álögur síðustu 3 árin, gat ekki bætt 200 millj. kr. sköttum ofan á þær drápsklyfjar. Það sést bezt á því, að enginn þeirra, sem nú reynir að krækja sér í pólitískan ávinning á annmörkum og örðugleikum gengisfellingarinnar, þorir svo mikið sem að nefna slíka fásinnu.

Verðhjöðnunarleiðina hafa allir fróðir menn kveðið niður, m.a. vegna þess, að hún bitnar miklu harðar á launþegum landsins. Þeir, sem nú ráðast á gengisfellinguna, eru þess vegna að mæla hruni atvinnulífsins og böli atvinnuleysisins bót. Valið stóð nefnilega milli þessa og gengisfellingarinnar, eins og ég áður hef sýnt fram á. Að kommúnistar geri slíkt, þarf engan að undra. Þeir bíða þeirrar stundar með óþreyju„ að öngþveitið vaxi og glundroðinn magnist. Það gera íslenzkir kommúnistar. Það gera kommúnistar allra landa. Ekki af illmennsku. Þeir eru svipaðir mannkostamenn og gallagripir eins og við hinir. Heldur af því, að í akri örbirgðarinnar tekur sáðkorn þeirra örustum vexti. Þeir hafa sín fyrirmæli frá sér lærðari mönnum í þessum efnum, mönnum, sem þeir hlýða og þjóna. Allt þeirra tal, öll þeirra hegðun verður að skiljast, dæmast og fordæmast frá þessum sjónarhól. En að Alþfl., flokkurinn, sem hafði stjórnarforustuna meðan 100 millj. skattarnir voru á lagðir og 175 milljóna tapið hlóðst á ríkissjóð og margt fleira hné í sömu átt, flokkurinn, sem hélt forustunni allt fram á þennan dag, að velja varð milli 150–200 millj. kr. nýrra drápsklyfja, gengisfellingarinnar eða hruns og atvinnuleysis, að slíkur flokkur, sem auk þess er skipaður mörgum ágætum mönnum og mörgu góðu hefur til leiðar komið á sviði íslenzkra stjórnmála, að hann skuli ekki fyrirverða sig fyrir þau, bolabrögð, sem hann nú beitir, það tekur út yfir allan þjófabálk.

Stjórnarandstæðingar tala um það eins og einhverja goðgá, að vörur hækki í verði, allt sé það gengislækkuninni að kenna. Hvílík tíðindi! En halda menn, að vörur hefðu lækkað í verði, ef 200 millj. kr. nýjum sköttum hefði verið bætt ofan á 100 milljónirnar, sem fyrsta stjórn Alþfl. lagði á þjóðina? Finnst mönnum reynslan benda til þess? Eða hefðu launþegar heldur kosið þær geigvænlegu verðhækkanir, og það bótalaust, — vegna lagafyrirmæla fyrstu stjórnar Alþfl., sem ákvað, að kaup skyldi greiða eftir vísitölu 300, hver svo sem vísitalan yrði, — heldur en verðhækkun gengisfellingarinnar, sem bæta á að mestu samkv. löggjöf núverandi stjórnar, enda þótt bæturnar komi ekki launþegum í hendur sama daginn sem varan hækkar í verði?

Launþegar færðu fórnir, það er rétt. Vonir standa til, að þær verði ekki stórvægilegar. En allar aðrar stéttir þjóðfélagsins færa líka fórnir, og enn er ekki tímabært að dæma um, hver harðast verður úti. Hver getur t.d. enn þá dæmt um framleiðendur, einkum útvegsmennina? Gengisfellingunni var ætlað að sjá hag þeirra borgið. Hún hefði líka gert það, ef ný óhöpp hefðu ekki steðjað að, þ.e.a.s. verðfall útflutningsafurðanna og markaðsmissir. En þessi nýju óhöpp geta vel leitt til áframhaldandi taprekstrar. En hvað mundi þá, ef gengið hefði haldizt óbreytt? Og sjaldan hefur verri og raunar fíflslegri blekking verið á borð borin, en þegar verið er að reyna að halda því að sjómönnum og útvegsmönnum, að krónufallið hafi skaðað þá. Eða hver trúir því, að sá, sem eignast pund fyrir fisk, þ.e.a.s. útvegsmenn og sjómenn, sé verr farinn vegna þess, að hann fær 46 krónur fyrir pundið í stað 26 króna áður? Þá segir Alþýðublaðið nýverið: „Gengislækkunin er hvorki meira né minna, en að sliga sjávarútveginn.“ Hvað finnst mönnum um svona boðskap? Hitt er svo annað mál, að ef verðfallið á erlendum markaði verður úr hófi, en því ráða íslenzk stjórnarvöld engu um, kann svo að fara, að 46 krónurnar nægi ekki. En hvað mundi þá, ef pundið hefði haldizt í 26 krónum kommúnistanna og Alþfl.?

Það er þetta verðfall á hraðfrystum fiski, sem því veldur, að fiskurinn hækkar ekki í 93 aura kílóið, eins og vonir stóðu til, þegar gengisfellingarfrv. var samþ. Að ásaka stj. fyrir það og brigzla henni um svik af þessum ástæðum, er auðvitað ófyrirleitin fjarstæða. Í grg. frv. stendur orðrétt:

„Verð það, sem þeir mundu fá með þessari gengislækkun, mun vera kringum 93 aurar miðað við 10d lb. á freðfiskinum.“

Þetta er það eina, sem frv. eða grg. segir um fiskverðið. Af því sést, að því aðeins er gert ráð fyrir, að fiskverðið geti hækkað í 93 aura, að verðið á hraðfrystum fiski verði 10d fyrir enskt pund. Það þótti að sönnu ekki djarft að reikna með þessu verði, þegar frv. var samið, enda vildi stj. forðast að vekja tálvonir. Nú hefur þó svo illa til tekizt, að litlar líkur virðast á, að þetta verð fáist, og veit þó raunar enn enginn til fulls, hvað það verður. Af þessum ástæðum stafa vonbrigðin. — Þau spretta ekki af gengislækkuninni, heldur koma þau þrátt fyrir gengislækkunina. Að fróðustu menn á sviði útvegsmála skuli leggjast svo lágt að leyna þessu í því skyni að villa almenningi sýn, ef takast mætti að sverta stjórnarvöld landsins, er ógöfug iðja, og er þá ekki fast að kveðið.

Það er hart, að Alþfl., sem í hjarta sínu ber réttmæta fyrirlitningu fyrir kommúnistum, skuli nú leggjast á sveif með þeim og með þeim hætti reyna að greiða götu þeirra til pólitískra áhrífa í landinu. Hitt á Alþfl. að sjálfsögðu að vita af fyrri reynslu, að honum eykst ekkert fylgi með slíkum vopnaburði. Kjósendur hans eru oftast skynbærari, en foringjar flokksins ætla. Þeim mætu mönnum hefur gengið svo illa að vinna traust verkalýðsins, þrátt fyrir langa og oft ágæta stjórnmálastarfsemi, einmitt vegna þess að öðru hverju brestur þá kjark til að segja sannleikann, af því að þeir óttast, að lygi kommúnistanna hljómi betur. Þá slást þeir í förina með kommúnistum eins og nú, og þá slitnar margur maðurinn aftan úr hjá þeim.

Ég hef enga löngun til að della á Alþfl., en ég á ekki annars kost. Alþfl. berst gegn núverandi stj. á alveg sama hátt og með nákvæmlega sömu vopnum og kommúnistar börðust gegn stjórn Stefáns Jóhanns. Það væri gaman, ef það væri ekki mannskemmandi fyrir Alþfl., að prenta orðrétt upp hlið við hlið ádeilur kommúnista á stjórn Stefáns Jóhanns og ádeilur Alþýðublaðsins á núverandi stj. Það er engu líkara, en rithöfundar Alþfl. séu annað tveggja, vaxnir upp úr kommúnistískum jarðvegi eða óvenju næmir lærlingar þeirra.

Hvenær sem verðið hækkar, er rammagrein, sem flytur þjóðinni þann boðskap, að nú sé stj. að senda þjóðinni sumargjöf eða því um líkt.

— Hvenær sem markaður bregzt, útflutningsafurðir falla eða aðrir slíkir örðugleikar verða á vegi þjóðarinnar, kemur ný rammamynd í Alþýðublaðinu af mannvonzku ríkisstj. Ég spyr nú: Rámar ekki Alþýðuflokksmenn, leiðtoga og liðsmenn, í að hafa séð eitthvað svipað áður? Og enn spyr ég: Finnst Alþfl. vegur sinn mestur með því að að velta sér í kommúnistísku svaði, einmitt nú, þegar gegnir menn eiga að sameinast um að bjarga þjóð sinni? Telur Alþfl., leiðtogar hans og liðsmenn, sér vegsauka að því að leggjast á sveif með þeim, sem á glundroðanum lifa, einmitt á örlagastundinni, þegar úr sker um það, hvort þjóðin vill færa einhverjar smáfórnir í því skyni að tryggja afkomu sina og framtíð í fjárhagslegum og pólitískum efnum?

Alþfl. hlýtur þó að vita, engu siður en aðrir, að enda þótt þjóðin eigi sér miklu bjartari framtíð, en ella mundi vera vegna hinnar bættu tækni, þá mega Íslendingar ekki ætla, að þeir geti um langan aldur búið sér önnur og betri kjör, en aðrar menningarþjóðir geta veitt sínum þegnum, en það höfum við gert síðasta áratuginn.

Andstöðuflokkar stj. hafa báðir brugðizt þjóð sinni á þessum miklu alvörutímum. Með athæfi sínu hefur Alþfl. vikið sér undan því að vinna það verk, sem honum er ætlað í íslenzku þjóðlífi. Það hafa kommúnistar hins vegar ekki gert. Þeir gera sína skyldu og vinna sín myrkraverk, eins og þeim er ætlað. Ég hef af góðgirni mælt þeim bót með því að telja, að þeir starfi í þjónustu hugsjóna, sem þeir trúa á og telja sér ekki aðeins heimilt, heldur og skylt, að fórna öllu fyrir, líka frelsi þjóðar sinnar og ættlands. Slíkir menn eru hættulegir, svo hættulegir, að gegn þeir ber öllum, sem unna frelsinu, að sameinast, hvenær sem þess er þörf. Þeirri skyldu hefur Alþfl. brugðizt með því að draga sig út úr stjórnmálum og sitja nú auðum höndum, atkvæða- og áhrifalaus, eins og lítið og óþægt tökubarn kommúnistanna, nöldrandi gagnrýni, sem allir hlæja að, sjálfum sér til minnkunar og vinum sínum til sárrar sorgar.

Sjálfstfl. og Framsfl. hafa gengið til þessa samstarfs vel vitandi um þá örðugleika, sem við er að etja, einnig þá, er stafa af djúptækum skoðanamun milli þessara flokka. Þetta er báðum þessum flokkum til lofs. Enn er of snemmt að spá, hver gifta fylgir þeim að verki. Margt horfir þunglega í bili, og má vera að verðfall, markaðsmissir og aflabrestur vaxi stj. yfir höfuð. Þá er að taka því, og væri bættur skaðinn, ef ný úrræði finnast þjóðinni til bjargar. En þjóðin lifir ekki lengi á líki stjórnarinnar. Kemur þá til kasta Alþfl. og kommúnista að reiða fram réttina. Munu kommúnistar vissulega vilja halda í austurátt og gera þar falt frelsi og fisk fyrir lágt verð og lækkandi. En AIþfl. mun væntanlega hyggjast lina þrautir þjóðarinnar með norrænu samstarfi. Er bróðurhugur frændþjóðanna mikill og mikils virði, en þó mun þá vaf:alaust verða þröngt í búi á Fróni.

Ég treysti því, að allt fari þetta á annan veg. Ég treysti því, að gifta okkar sé svo mikil, að ekki brotni allar stoðir atvinnulífsins í senn. Ég treysti því, að ef, og þegar á dalnum harðnar, muni forn og nýr manndómur Íslendinga lýsa sér í því að taka með ró því, sem að höndum ber, og sætta sig við deildan verð. Ég treysti því, að Íslendingar vilji fremur þrengja kost sinn og kjör, ef með þarf, en tefla í tvísýnu sjálfstæði og frelsi þjóðarinnar.