13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það kom fram hjá hæstv. menntmrh., að vafi kynni á því að leika, hvort hægt yrði að byggja félagsheimili á næstu árum sökum skorts á byggingarefni. Út af því vil ég ítreka það, sem ég gat um áðan, að þannig mun vera háttað, að þegar er búið að veita loforð um stuðning við þau félagsheimili, sem byrjað er á að reisa víðs vegar um land. Það eru loforð, er tekjurnar munu ekki neitt árið fram á árið 1952 gera betur en hrökkva til að efna.

Hv. 6. þm. Reykv. talaði örfá orð og lét þau orð falla, að þeir, sem staðið hefðu að setningu l. um skemmtanaskattinn, hefðu svo sem verið að svipta þjóðleikhúsið reifunum. Sú lagasetning var gerð með vitund þeirra forráðamanna hússins, sem fjölluðu um byggingu þess. Þá kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., að eigi hefði verið tekið tillit til félagsskapar verkamanna, þegar l. voru sett um félagsheimili. Í því sambandi vil ég minna á, að þegar l. voru sett, þá var um það rætt, hvort hægt yrði að fella saman félagsheimili í sveltum og hvíldarheimili fyrir verkamenn í bæjum, og sást þá, að það mundi eigi henta, því að í félagsheimilum sveitanna var eigi gert ráð fyrir aðstöðu til dvalar, svefnherbergjum o.þ.h., en það þyrfti að vera, ef þar ættu a.ð dveljast verkamenn að sumri til. Var þá bent á, að teknir yrðu upp samningar við verkalýðsfélögin um afnot af heimavistarskólum sveitanna. Ég vil drepa á þetta varðandi orð hv. 6. þm. Reykv.