11.12.1949
Efri deild: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

32. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Steingrímur Aðalsteinsson:

Ég hafði ekki búizt við því, að málinu yrði hraðað svo mjög, að það yrði afgr. frá d. í dag, og minntist ég því ekki áðan, þegar málið var til 2. umr., á atriði, sem ég ætlaði mér að minnast á við sjútvn. milli umr., en það virðist ekki eiga að verða neinn tími til þess að drepa á það við 3. umr. En það er það, að mér finnst í rauninni ástæða til, þegar þetta bátaábyrgðarfélag í Vestmannaeyjum nú með þessu frv., ef a.ð l. verður, er algerlega undanþegið ákvæðum l. um Samábyrgðina, eins og hér er tekið fram, að það væri sett inn til viðbótar þeim ákvæðum, að því skuli skylt að tryggja skip og báta í Vestmannaeyjum, og það væri líka ákvæði um það, að þetta félag skyldi endurtryggja hjá Samábyrgðinni. Ég býst við, að menn telji það sjálfsagt, en ég álít líka sjálfsagt að hafa ákvæði um það í l. Ég er hins vegar ekki tilbúinn með brtt. um þetta atriði, en vildi vekja hér máls á þessu og skjóta því til form. sjútvn., hvort honum finnist ekki ástæða til að setja þetta í l., að það sé ekki aðeins gengið út frá því sem sjálfsögðu, að félagið geri þetta, heldur sé um þetta Lagaákvæði.