16.02.1950
Efri deild: 56. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

88. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, var lagt fyrir Nd. af fyrrv. landbrh., Bjarna Ásgeirssyni; voru gerðar þar á því nokkrar breytingar á tveimur þskj., sem allar voru samþ., og kom frv. til okkar eins og það liggur nú fyrir á þskj. 273. Landbn. hefur borið það saman við lög um bjargráðasjóð og lánveitingar úr sjóðnum og að því loknu gert við frv. þær brtt., sem liggja fyrir á þskj. 323 og ég skal nú skýra nokkuð, en koma að því loknu inn á þær breytingar, sem verða á bjargráðasjóði, ef frv. þetta verður að lögum.

Fyrsta brtt. er við 1. gr. og er orðalagsbreyting. Það þykir óeðlilegt að skilgreina ekki nafnið, en með þeirri breytingu, sem við leggjum til, er það gert með tilvísun til gömlu laganna, sem eru grundvöllur hinnar nýju lagasetningar.

Önnur brtt. er við 2. gr., og er þar lagt til að hafa orðið „bjargráðasjóðsgjald“ í stað „bjargráðagjald“, og þótti okkur það eðlilegra.

Þá er brtt. við 4. gr., sem líka er orðabreyting. og er þar gert ráð fyrir, að stjórn sjóðsins heiti bjargráðastjórn, en í frv. á þskj. 273 kemur það ekki fram. Annars vil ég benda á, að stjórn sjóðsins skipa nú 3, en ekki 5 menn, eins og áður. Hún var áður skipuð lögum samkvæmt af skrifstofustjóranum í atvinnumálaráðuneytinu, en þó það væru lög, var nú svo orðið, að skrifstofustjóri félagsmálaráðuneytisins var formaður sjóðsstjórnar. Ríkisstjórnin hafði breytt þessu þrátt fyrir lögin. Með honum voru tveir menn kosnir af fiskiþingi og búnaðarþingi, og formenn Fiskifélagsins og Búnaðarfélagsins,. Samkvæmt frv. á skrifstofustjóri félagsmálaráðuneytisins að vera formaður sjóðsstjórnar og formaður Búnaðarfélags Íslands og forseti Fiskifélags Íslands meðstjórnendur. En brtt. n. við 4. gr. er aðeins um nafnið á sjóðsstjórninni.

Um 6. gr. hefur n. gert till.. sem er talsverð breyting, en þar er sagt, að reikningshald sjóðsins og reikningarnir skuli endurskoðaðir af endurskoðunardeild stjórnarráðsins og endurskoðendum ríkisreikninga án sérstaks endurgjalds. Hins vegar hafa þeir verið endurskoðaðir af þremur sjóðgæzlumönnum og átti svo að leggja þá fyrir Alþingi; en ég hef nú setið hér síðan 1934, og þeir hafa aldrei komið hingað; hins vegar er mér sagt, að sjóðgæzlumenn hafi athugað þá samvizkusamlega, en ekkert sé við þá að athuga. En eðlilegt virðist, að þessu sé hagað svo sem n. leggur til.

Brtt. við 7. gr. er í samræmi við það, sem áður er sagt.

Brtt. við 8. gr. breytir henni verulega frá því, sem er á þskj. 273. Við gátum ekki almennilega skilið, hvernig hún var hugsuð þar. Það eru fyrst og fremst innheimtumennirnir, sem reikna gjöldin út og þurfa að fá manntalsskýrslur prestanna í hendur sveitarstjórnirnar þurfa þess ekki. Og þess vegna breytum við 8. gr. í það horf, að innheimtumenn bjargráðasjóðs skuli fá skýrslurnar.

Þetta eru aðalbreytingarnar. Þær brtt., sem hér koma á eftir, eru minni háttar, nema b-liður brtt. við 10. gr., sem er efnisbreyting.

Þá er enn till. um það að bæta inn ákvæði við 10. gr. frv., sem miðar að því að hækka gjaldið í séreignarsjóðinn, þegar þess gerist þörf, en þó aldrei meira en sem nemur helmingi, það er að segja viðbótargjaldið getur ekki orðið meira en ein króna, sem sýslan getur lagt á með leyfi ráðherra. Þegar svo stendur á, að sýsla óttast einhver skakkaföll, getur hún þannig með leyfi ráðherra hækkað sitt framlag, og er lagt til, að ríkissjóður megi leggja fram helming á móti, eða aldrei meira en 50 aura.

Það kann að vera, að þeir menn, sem alltaf vilja vita fótum sínum forráð, álíti, að þetta sé dálítið óviðfelldið í framkvæmd, þar sem ekki er hægt að reikna með þessu fyrir fram, en þess er þó að gæta, að fyrst þarf viðkomandi sýslunefnd að fjalla um þetta og samþykkja og sækja síðan um það til ráðherra, og venjulega er það nú svo, að þetta mundi eiga sér stað einmitt á sama tíma og Alþingi stendur yfir, því að það er alveg undantekning, að sýslufundir séu ekki einmitt haldnir á sama tíma og Alþingi stendur yfir. Ráðherra ætti því alltaf að vita um þetta það snemma, að hægt sé að taka tillit til þess á fjárlögum. Þess vegna er þetta ákvæði alveg áhættulaust fyrir þá að samþykkja, sem hafa fjárlögin efst í huga, og mér finnst ekki nema rétt og eðlilegt, að ríkisheildin komi á móti viðkomandi sýslufélögum, þegar svona stendur á.

Þetta eru nú þær breytingar, sem við leggjum til, að gerðar verði á bjargráðasjóðslögunum, og má í fám orðum segja, að í því felist þær breytingar, að gjaldið í bjargráðasjóð er hækkað úr 25 aurum upp í 2 krónur. Hlutfallinu milli sameignarsjóðs og séreignarsjóðs er breytt. Stjórnina skipa þrír menn í stað fimm. Endurskoðun er hagað öðruvísi, en áður var. Heimild er veitt fyrir einstök sýslufélög að auka séreignarsjóði sína með því að auka gjöldin um eina krónu á mann, og komi framlag frá ríkinu á móti. Þá er lánveitingum breytt og hagað öðruvísi en áður var. Áður var heimilt að lána sýslu- og bæjarfélögum og fóðurbirgðafélögum, og var heimilt að lána til þess að tryggja fleira en það, sem var afleiðing harðinda, t.d. var heimilt að lána hreppsfélögum, er koma á fót hjá sér bústofnlánadeildum, og má segja, að þetta hafi verið dálítið notað hér áður fyrr, en hins vegar hefur þessi heimild ekki verið notuð nú um 20 ára skeið, og má segja eins og allar aðstæður eru, að litlar líkur séu til þess. að hún verði notuð. Hins vegar var áður óheimilt að lána einstökum mönnum úr sjóðnum. en núna má eftir 13. gr. lána þeim. Það getur oft komið fyrir, að einstaka menn verði hart úti af völdum náttúrunnar, þó að hrepps- eða sveitarfélög vilji ekki fara að taka lán fyrir þá. Nú væri hins vegar gott að hafa þetta ákvæði, sérstaklega þegar miðað er við harðindin síðast liðið vor, þar sem margir einstaklingar urðu mjög illa settir, en einstök sveitarfélög sjá kannske ekki ástæðu til þess að hjálpa þeim. Þá gerir þetta frv. enn ráð fyrir einni breytingu. Bjargráðasjóður var á sínum tíma stofnaður til þess að fyrirbyggja tjón af völdum hallæris og til þess að veita lán í sama skyni og koma í veg fyrir bjargarskort almennt, en hér er einnig tekið upp það atvik, þegar tjón af náttúrunnar völdum hefur í för með sér mikla röskun á afkomu manna, og er nýjasta dæmið um það skriðufallið í Neskaupstað. Þar er um að ræða tjón, sem þetta frv. heimilar viðkomandi bæjarstjórn lán til þess að laga þær skemmdir eftir ástæðum, en það er hins vegar ekki heimilt eftir gömlu lögunum. Tilfelli eins og þetta og það, þegar snjóflóðið drap féð á Snæfjallaströnd, komust ekki undir gömlu lögin. Þegar snjóflóðið drap féð á Snæfjallaströnd, þá var veitt fé úr ríkissjóði til þess að mæta þessu tjóni, en það hefði ekki þurft að gera, ef þetta ákvæði hefði verið í gömlu lögunum, því að þá hefði féð komið úr þessum sjóði.

Þetta eru nú þær helztu breytingar, sem n. hefur fallizt á að gerðar væru. Þegar n. afgreiddi þetta frv., vantaði þá hv. 4. þm. Reykv. (HG) og hv. 7. landsk. þm. (FR.V) og hafa þeir því ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins; get ég því ekki sagt um afstöðu þeirra, en við hinir 3 leggjum til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 273, með þeim breytingum, sem eru á þskj. 323.