21.03.1950
Neðri deild: 72. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

120. mál, ónæmisaðgerðir

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er að nokkru leyti nýmæli í íslenzkri löggjöf. Hér er bætt við ákvæðum eftir því, sem nýjungar hafa komið fram á sviði læknisfræðinnar. Sumt af ákvæðum þessa frv. er þó gamalt, eins og t.d. um kúabólusetninguna. En ég vil vekja athygli n. á því, að í þessu frv. er verið að íþyngja starfi héraðslæknanna með þessu nýja ákvæði um kúabólusetningu, því að það er til þess ætlazt, að héraðslæknar framkvæmi allar bólusetningar með öðrum störfum sínum. Hins vegar hefur það verið svo fram að þessu, að kúabólusetning hefur verið framkvæmd af ljósmæðrum, og hefur það gefizt vel. Hér er hins vegar lagt til, að alls staðar þar, sem ekki eru heilsuverndarstöðvar, — en þær eru fáar enn sem komið er, þó að þeim fjölgi að vísu eitthvað, — sé þessi bólusetning framkvæmd af héraðslæknum. Sumt af þessum aðgerðum er ekki hægt að láta annan framkvæma en lækni, en það á ekki við um kúabólusetningu og það er of mikið lagt á héraðslækna að eiga að sjá um það í stórum sveitalæknishéruðum, — þeir hafa ekki tíma til að sinna þessu, því að þessi bólusetning er framkvæmd á ungum börnum, og yrði þá læknirinn að vera á stöðugu ferðalagi milli heimilanna til þess að framkvæma hana. Þess vegna yrði betra, að ljósmæður hefðu hana á hendi, eins og sakir standa. — Ég vil aðeins biðja hv. n. um að athuga þetta rækilega og gera breytingu á þessu, því að ef hún gerir það ekki, þá mun ég flytja um það brtt. við 2. umr. Þá vænti ég þess og, að hv. n. leiti umsagnar Læknafélags Íslands. Ég hef átt tal við formann stjórnar þess, og hefur hann sagt mér, að hann hafi lesið frv. mjög fljótlega yfir, en ég vænti þess sem sé, að leitað verði umsagnar stjórnarinnar um málið, áður en það verður lagt fyrir aftur.