21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af aths. þeirra tveggja hæstv. ráðh., er viku að brtt. mínum. Þó að hvorugur þeirra sé í d., þykir mér rétt að mannast örlítið á það, sem þeir sögðu.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að brtt. mínar væru sízt til bóta, en ég heyrði ekki, að hann kæmi með nein rök gegn till. mínum, og sérstaklega ekki gegn till. minni um skipun dómsins. Hins vegar benti hæstv. viðskmrh. á — og hæstv. landbrh. tók undir það —, að það væri hlutverk fjárhagsráðs að verðleggja vörur, en verðgæzlustjóri hefði framkvæmdina með höndum, og væri þess vegna óeðlilegt að gera ráð fyrir því, að verðgæzlustjóri skyldi sérstaklega gæta þess, að álagningu á framleiðsluvörur saumastofa væri stillt í hóf. Því er til að svara, að þó að það sé rétt, að fjárhagsráð taki heildarákvarðanir um verðlagninguna, hljóta þær að byggjast á upplýsingum og till. frá verðgæzlustjóra. Fjárhagsráðsmenn eiga þess naumast kost að fylgjast með verðinu í einstökum atriðum. Þeir hafa, eins og við vitum, öðrum hnöppum að hneppa, þar sem þeir hafa með höndum stjórn fjárfestingarinnar og yfirumsjón með veitingu gjaldeyrisleyfa. Ég hygg því, að það hafi verið rétt, er ég nefndi verðgæzlustjóra í till. minni, því að þótt fjárhagsráð taki ákvarðanir, eru þær byggðar á till. verðgæzlustjóra. Ég held því, að aðfinnslur hæstv. ráðh. styðjist ekki við fullkomin rök.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að ákvæðin í 1. brtt. væru svo hörð, að búast mætti við því, að margar saumastofur yrðu lagðar niður, því að fæstar þeirra væru svo settar, að þær væru í senn innflytjendur og smásalar. Þessar saumastofur eru fleiri en hæstv. ráðh. vill vera láta. Það er að verða nokkurn veginn algeng regla, að þeir, sem verzla með vefnaðarvöru, verði sér úti um að eignast og reka saumastofu eða að verða meðeigendur í saumastofu. Þeir geta þá lagt á vöruna, áður en hún fer til saumastofunnar, og framleiðsla saumastofunnar er síðan seld hjá þeim, svo að þeir fá tækifæri til þess að leggja á sömu vöruna tvisvar. Ég held, að ekki mundi þrengja svo að saumastofunum, að þær yrðu lagðar niður, ef till. mín væri samþ., enda þótt þar sé sagt, að álagningu eigi að stilla í hóf. Ég get því ekki fallizt á rök hæstv. ráðh. gegn till. minni.

Ég er sammála hæstv. viðskmrh. um það, að ekkert ríkisvald, að minnsta kosti ekki í lýðræðisríki, hefur mátt til þess að koma í veg fyrir svartamarkaðsbrask, ef vöruþurrð er og kaupgeta, að minnsta kosti nokkurs hluta þjóðarinnar, — talsvert mikil. Þess vegna áleit ég nokkuð djúpt tekið í árinni í grg., eins og ég vék að áður. En ég sé því miður ekki, að miklar líkur séu til þess á Íslandi fyrst um sinn, að magn neyzluvara vaxi svo mikið, að komið verði í veg fyrir svartamarkaðsbrask.

Hæstv. landbrh. sagði, að aðalatriðið í frv. væri verzlunarfrelsið, sem þjóðin hefði verið rænd um skeið. En ég sé eigi þau ákvæði í frv., hvorki því, sem upprunalega var flutt á þ., né hinu, er nú liggur hér fyrir, sem sé í þá átt að afnema verzlunarófrelsi, — ekki stafkrók. En það eigum við víst eftir að sjá frekar, þegar við sjáum, hver heildarstefna hæstv. ríkisstj. verður í verðlags- og viðskiptamálum. Er þá eftir að sjá, hversu Alþfl. snýst við þeirri stefnu. sem mörkuð verður á þinginu. Hæstv. landbrh. segir í niðurlagi grg. við frv., að takmarkið sé heilbrigð verzlun. Það er vert að veita athygli orðunum í niðurlagi grg. frv., en þar er eigi stafkrókur um það að greiða fyrir frjálsri verzlun og afnámi verzlunarhafta, og er það nokkuð traustlega hrakið í grg. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ef frumvarp þetta verður að lögum og ákvæðum þess sæmilega framfylgt, mundi það gerbreyta til bóta á stuttum tíma“ — takið eftir: gerbreyta og á stuttum tíma — „því ömurlega ástandi, er ríkir í verðlagsmálum Íslendinga á tuttugustu öldinni.“ Hér eru ekki smáir hlutir nefndir. En ég held, að óhætt sé að strika yfir þessi orð.

Að lokum minntist hæstv. landbrh. á till. mína um fjölgun meðdómenda, og að þeir verði tilnefndir af samtökum neytenda. Að vísu er það svo, að í þeim landssamböndum, sem tilnefna í dóminn, eru eigi neytendur einir. Við getum sagt, að þeir séu í Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands að einhverju leyti, Kvenfélagasambandi Íslands og Landssambandi iðnaðarmanna. En það verður nú vafasamt, hvort þeir séu hreinir umboðsmenn fyrir neytendur, þar eð þeir framleiða iðnaðarvörur og vilja selja þær við því verði, sem þeir hljóta bezt. Svo er það Stéttarsamband bænda. (Rödd: Allt neytendur!) Neytendur erum við allir á vissan hátt, en með mismunandi áhuga á að fá neyzluvörur sem ódýrastar. Ég veit, að bændur hafa það áhugamál sameiginlegt að fá sem ódýrasta aðflutta vöru. Held ég og, að skoðanir okkar falli þar saman, og er eigi nema gott um það að segja. En þau rök eru hæpin, að landssamtökin sýni einhliða neytendasjónarmið. — Í annan stað hefur hæstv. landbrh. verið þeirrar skoðunar, að meðdómendur ættu að vera tveir. Þá veit ég, að hæstv. ráðh. hefur haft í huga, að þetta sé algild regla. Ég veit, að þar, sem eru fjölskipaðir dómar, sitja þá tveir meðdómendur. Held ég þá, að þetta yrði hið fyrsta dæmi í löggjöfinni, að dómendur væru tveir, en eigi þrír. Ég hygg annars, að hæstv. ráðh. hafi gert sér ljóst, hvað hann átti við, þegar hann sagði, að meðdómendur ættu að vera tveir, hvað sem líður skoðanabreytingu hans og meðferð málsins síðan.

Ég ætla þá ekki að fara fleiri orðum um frv. þetta, en vænti skilnings hv. þdm. á brtt. mínum. Annars mun ég greiða atkv. með frv., en held þó, að það velti eigi veröldum í svartamarkaðsmálunum.