14.04.1950
Efri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

106. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um þetta mál, frv. um breyt. á l. um útsvör, og klofnaði n. um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með einni breyt., en minni hl. leggur til, að því verði vísað frá með rökst. dagskrá. Ég hef að vísu ekki séð álit minni hl. enn — jú, það er verið að útbýta því; hann leggur til, að því verði vísað frá með rökst. dagskrá. — N. sendi frv. 4 aðilum til umsagnar, og höfðu svör borizt frá þeim öllum, er n. tók málið til afgreiðslu. Svörin voru löng og ýtarleg, og þótti meiri hl. rétt að láta prenta þau sem fylgiskjöl með nál., svo að þm. gætu átt þess kost að kynna sér þau sem rækilegast. Niðurstaðan í svari Sambands íslenzkra sveitarfélaga er sú, að sambandið telur æskilegast, að frv. frá 1947 verði samþ. með þeim breyt., sem fulltrúaráðsfundurinn leggur til, m. a. þeirri, að skipting útsvara verði felld niður. Í svari hreppsn. Kópavogshrepps kemur aftur berlega í ljós, að hreppsn. telur æskilegt, að frv. milliþn. frá 1947 yrði afgreitt frá þinginu, og hafði hún ritað þáv. félmrh., Ólafi Thors, um málið. — í svari félmrn., sem prentað er sem fskj. nr. 5 á bls. 9 í nál., er tekið fram, að ráðuneytið hafi talið þýðingarlaust að leggja frv. fyrir Alþ. vegna þess, að sú n., sem hefði málið til meðferðar á Alþ., teldi rétt, að skattalögin væru tekin til endurskoðunar samtímis, en endurskoðun skattalöggjafarinnar væri ekki lokið og óráðið, hvenær það frv. yrði lagt fyrir Alþ. Að fengnu þessu svari félmrn. sýnist þannig ekki önnur leið fær, en að afgreiða það frv., sem hér liggur fyrir. Hreppsn. Kópavogshrepps leggur ríka áherzlu á, að þetta frv. fái afgreiðslu nú, og sýnir fram á, að skipting útsvara hafi kostað hreppinn talsvert á aðra millj. kr., og telur sér brýna þörf á að fá skiptinguna niður fellda. — Svar hreppsn. Seltjarnarneshrepps er stutt og laggott. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Vegna bréfs yðar, dags. 10. febr. 1950, varðandi breytingar á lögum nr. 66 frá 12. apríl 1945, vil ég taka fram:

Hreppsnefndin hefur kynnt sér frumvarpið og mælir mjög eindregið með, að það verði samþykkt sem lög, eins fljótt og unnt er.“

Fjórða svarið, frá bæjarráði Rvíkur, er langt og ýtarlegt, og er í því viðurkennt, að tryggja beri rétt heimilissveitar til útsvarsskyldu og skattheimtu, og niðurstaðan er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Af framanrituðu má sjá, að bæjarráð Reykjavíkur hefur ekki á móti því, þrátt fyrir rökstuðning flm. þessa frv., að réttur atvinnusveitar til útsvarsskiptingar væri numinn úr lögum, en bendir jafnframt á hættuna, sem af því getur stafað, einkum fyrir fjölbyggð sveitarfélög.“ Um þetta vandkvæði, sem bæjarráð telur þetta bundið, segir svo á blaðsíðu 2: „Frá sjónarmiði kaupstaða sýnist þó einkum varhugavert að afnema skiptireglurnar með öllu vegna hættunnar, sem á því er, að á næsta leiti myndist byggðarlög gjaldþegna, sem að vísu ynnu öll sín störf í kaupstaðnum og hefðu þar allar tekjur sínar, en teldu sér hagkvæmara vegna skattþungans að búa utanbæjar“ og: „verði frv. samþykkt, réttur atvinnusveitar til útsvarsskiptingar afnuminn, skapast vafalaust skilyrði í báðum þessum hreppum til verulegrar útsvarslækkunar, og þá jafnframt skilyrði fyrir „góða“ gjaldendum í Reykjavík til að flytjast búferlum, sbr. það, sem áður var sagt.“

Meiri hl. n. getur fallizt á, að það, sem hér er sagt, eigi við nokkur rök að styðjast, og hefur því samþykkt að flytja brtt. við frv. til þess að útiloka með öllu hættu þá, sem þarna er bent á. Ef það tekst, er engin hætta fyrir Rvík, þótt frv. verði samþ. Það gæti verið um útsvarsflótta að ræða í einstaka tilfelli, en till. þessi fyrirbyggir þann hugsanlega möguleika, að menn vildu flýja hærra útsvar í Rvík til nágrannasveitar, en stunda þó hér atvinnu. Telur n. nóg að gert til að fyrirbyggja það með svo hljóðandi brtt. við frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Nú stundar gjaldþegn fasta atvinnu utan heimilissveitar og meiri hluti atvinnutekna hans stafar frá þeirri atvinnu, en útsvör verða talin hlutfallslega lægri í heimilissveit hans en í atvinnusveit, og getur þá atvinnusveit krafizt þess, þótt útsvari gjaldþegns sé ekki skipt, að hann greiði henni útsvar, sem nemur þeirri upphæð, er honum hefði borið að greiða í atvinnusveit umfram það, er hann greiðir í heimilissveit.

Heimilissveit er skylt að innheimta útsvarsauka þennan, samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar, og standa atvinnusveit skil á honum.“

Ef þetta ákvæði kemst inn í lögin, þá verður að teljast tryggt, að útsvör í nágrannasveitum Rvíkur verði jafnhá og þar, og er þá ástæður laust fyrir nokkurn mann að búsetja sig fremur þar en í Rvík, enda er þetta orðið svo víða í nágrannasveitum hennar og ekki líkur til, að frá því verði horfið aftur.

Aðrar mótbárur, sem kynnu að verða færðar fram gegn þessu, væri t. d. það, að ef þetta eina atriði væri tekið út úr, mundi það tefja fyrir endurskoðun útsvarslöggjafarinnar í heild. En ég get ekki séð það, að þetta hefði minnstu áhrif til þess að tefja það eða seinka því. Þetta mun þó vera aðalröksemd minni hl. fyrir afstöðu hans.

Niðurstaða þeirra aðila, sem til hefur verið leitað um álit á frv., er sú, að þeir hafa engin mótmæli fram að færa gegn afgreiðslu þess, heldur eiginlega samhljóða meðmæli, nema Reykjavík vill tryggja, að ekki geti orðið um útsvarsflótta að ræða til nágrannasveitanna, en fyrir því er sem sagt séð, að sá flótti verði fyrirbyggður, með þeirri brtt., sem ég hef gert grein fyrir. — Það er kunnugt, að það hefur gengið allerfiðlega að fá greidda útsvarshluta frá öðrum sveitarfélögum, og vilja sjálfsagt allir sveitarstjórar losna við þann eltingaleik og þá skriffinnsku, sem því er samfara.

Þá vil ég aðeins líta á þann siðferðislega grundvöll, sem þyrfti að vera undir allri skiptingu útsvara. Þegar atvinna er sótt úr einu sveitarfélagi í annað, af því að eftirspurn er eftir vinnuafli í sveitarfélaginu, sem leitað er til, en tæp atvinna í hinu, þá ber á það að líta, að slíkt sveitarfélag þolir illa að missa af útsvarstekjum sínum, samanborið við það sveitarfélag, þar sem atvinnulíf er með blóma. Auk þess verða viðkomandi aðilar oft að stunda atvinnu fjarri sinni heimasveit með ærnum tilkostnaði. Hinn hluturinn í þessu er svo sá, að kveði að því að ráði, að sveitarfélög veiti aðkomumönnum atvinnu, þá er þar venjulega hver hönd að starfi. Slíkt sveitarfélag hlýtur að standa mjög vel að vígi með útsvarstekjur og er sízt ástæða til þess að það fái hluta af tekjum sveitarfélaga, sem hafa naumar útsvarsgreiðslur. Verður skiptingin þannig þveröfug við það, sem ástæða virðist til. Tekjur eru teknar af sveitarfélögum, þar sem atvinnulíf er í kaldakoli, og fluttar til hinna, þar sem atvinnulíf er í blóma. Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna starfar því öfugt við þetta, og væri því sízt að harma, að hans hlutverk væri minna eftir að búið er að nema úr gildi þessi ákvæði útsvarslaganna.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um frv., en mér sýnast öll rök hníga að því, að það verði samþ., og meiri hl. n. hefur tekið til greina þá einu mótbáru, sem komið hefur fram, sem sé þá, að möguleiki sé á útsvarsflótta vegna skiptingarinnar, og hefur útilokað þann möguleika með brtt. sinni á þskj. 508. Mér finnst vera búið að bíða nægilega lengi eftir leiðréttingu á misræmi því, sem er við álagningu útsvara, og ég sé ekki ástæðu til þess, að beðið sé eftir því, að ríkisstj. leggi fram frv. um skattalöggjöfina, sem verið er að endurskoða.