14.04.1950
Efri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

106. mál, útsvör

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. hefur þegar fært að mínu viti nægilega skýr rök fyrir því, að sjálfsagt sé að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir, með þeim breyt., sem meiri hl. leggur til, að gerðar verði á því. Hv. þm. Barð. hefur tekið svo rækilega undir þau rök, sem liggja að því, að óþarfi er að fara mikið út í þau almennu rök, sem fyrir því eru. Það nægir að benda á, að það liggur í raun og veru fyrir, að allir, sem bezt eru kunnugir sveitarstjórnarmálum og þar með útsvarsmálum, eru orðnir sammála um, að ákvæðin um skiptingu útsvara, eins og þau eru nú, eiga að hverfa. Þar nægir að benda á, að fulltrúaráð Sambands íslenzkra sveitarfélaga samþykkti þetta fyrir sitt leyti haustið 1947. Nú liggur fyrir umsögn frá bæjarráði Reykjavíkur, stærsta bæjarfélagi landsins, þar sem það er viðurkennt, að núverandi ákvæði útsvarsl. um skiptinguna eigi ekki lengur rétt á sér. Þessi ákvæði hafa verið í l. um nærri aldarfjórðungsskeið, og rökin fyrir því, að þau eigi að hverfa, eru þessi: Tímarnir eru orðnir svo mikið breyttir í fjármálum sveitarfélaganna, að það er ekki hægt að verja það lengur, að þessi ákvæði standi óbreytt, enda hef ég ekki hitt neinn mann, sem er kunnugur fjármálum sveitar- og bæjarfélaga, sem vill verja það ákvæði. Það hefur heldur ekki komið fram í neinni ræðu hér, ekki einu sinni af hálfu minni hl. Hv. frsm. minni hl. allshn. gerði enga tilraun til að verja réttmæti þessara ákvæða eins og þau eru. Rökin eru aðeins þau, að það sé réttara að láta bíða að lagfæra þessi ákvæði, sem allir viðurkenna, að eru óréttlát og röng, en bíða eftir því, sem menn vilja nefna endurskoðun útsvarsl. Hv. frsm. minni hl. orðaði það svo, að endurskoðun útsvarsl. og skattal. væri ekki lokið. Þetta er ekki rétt nema að litlu leyti. Henni er lokið af hendi mþn. þeirrar, er skyldi rannsaka þetta mál, en hún var sett 1946. Hún lauk störfum og skilaði áliti seint á árinu 1947, og á tveimur undanförnum þingum hefur frv. hennar legið fyrir Alþingi, og það einmitt fyrir allshn. Ed., en hefur í bæði skiptin strandað þar. Endurskoðun útsvarsl. hefur því staðið yfir árum saman og getur gert það enn, ef slík vinnubrögð verða höfð framvegis, sem allshn. Ed. hefur haft.

Á þinginu 1943–44 komu fram frv. til breyt. í þessa átt eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, og 1945 var það sem svar við því, að þau frv. höfðu verið svæfð, að mþn. var sett til að endurskoða l. Endurskoðunin hefur því staðið yfir 5–6 ár nú. Ef minni hl. allshn. vill nú flýta þessari endurskoðun útsvarsl., þá er ekki annað en að gera þær brtt., sem hann óskar. Till. mþn. liggja fyrir, og till. fulltrúaráðs sambands sveitarfélaga liggja einnig fyrir og eru öllum kunnar, ekki sízt n., sem hefur fjallað um þetta mál. Það er því óforsvaranlegt að bera fram þau rök, að það eigi enn að fresta þessari lagabreytingu, vegna þess að endurskoðun útsvarslaganna standi yfir. Það stendur aðeins á þinginu og n., sem hefur haft þetta frv. til meðferðar í tvö undanfarin þing og enn á þessu þingi, með því að þetta frv. hefur komið til hennar. Það stendur því aðeins á nefndinni.

Hv. 1. þm. N-M. (PZ) viðurkenndi, eins og aðrir verða að gera, að fullkomin nauðsyn væri á að breyta núverandi ákvæðum útsvarsl. Hann, sem er þeim málum vel kunnugur, af því að hann er í ríkisskattanefnd, viðurkennir, að þau eigi ekki rétt á sér, eins og þau eru. Honum finnst þó ekki standa svo á árstíma þessa dagana, að þetta sé hægt. Þetta eru undarleg rök. Næst kemur, að ekki megi samþ. lögin, nema sérstaklega standi á tungli. Nú er miður apríl, og ríkisskattanefnd hefur ekki enn þá lokið úrskurðum um skiptikröfur, sem liggja fyrir í hundraðatali frá fyrra ári og eru að koma enn frá yfirskattanefndum. Hann segir, að um 60 sveitarfélög séu búin að ganga frá útsvörunum hjá sér. En ég get fullvissað hann um, að þau sveitarfélög í nágrenni Reykjavíkur, sem mest hafa liðið undir þessum óverjandi ákvæðum, eru ekki búin að ganga frá þeim enn hjá sér. Ég ætla, um þessi sveitarfélög, sem búin eru að ganga frá hjá sér, að það geti ekki haft nokkur veruleg áhrif á þeirra fjárhagsafkomu á þessu ári, því að það er einmitt á sveitarfélögunum í nágrenni bæjanna, sem þessar skiptikröfur mæða mest, og þau geta ekki undirbyggt sínar kröfur um skiptingu, fyrr en búið er að vinna úr framtölum og upplýsingum um atvinnutekjur manna í atvinnusveitinni. Til míns sveitarfélags berast skiptikröfur í hundraðatali á hverju ári, en enn sem komið er er ekki komin nein krafa fyrir þetta ár. Enda þótt gert sé ráð fyrir, að þær séu bornar fram strax eftir áramót, þá er ekki hægt að fylgja því fram fremur en mörgu öðru. L. eru svo úrelt, að engin leið er að fara eftir þeim í mörgum atriðum. Það er rétt hjá hv. þm. Barð., það eru ekki aðeins þessi ákvæði, sem þarf að endurskoða, heldur einnig fjöldamörg önnur. Það eru því engin rök hjá minni hl. að segja, að þegar þetta ákvæði er úr lögum numið, muni hverfa ástæðan til að reka á eftir endurskoðun. Það er fjöldamargt annað, sem þarfnast endurskoðunar. Ég vil benda hv. form. allshn, á, að hjá n. liggur síðan í desember annað frv., um manntal, sem er mjög nauðsynleg breyt. á ákvæðunum um heimilisfestu manna. N. hefur legið á þessu frv., síðan það kom til hennar, í nokkra mánuði. Það er sérstök ástæða til að láta þetta mál ná fram að ganga nú, því að nú á allsherjarmanntal að fara fram. (LJóh: Það er beðið eftir svari hagstofunnar.) Það má vel vera, að það sé einhver afsökun hjá hv. n., en ég held, að það væri þá ástæða til að reka á eftir svari þeirrar ágætu stofnunar til Alþingis.

Það er rétt hjá hv. þm. Barð., að það er fullkomin ástæða til að endurskoða reglur um niðurjöfnun. Einnig þær ná engri átt, þær eru svo óljósar og óákveðnar, enda snerist starf mþn. mjög mikið um það að rannsaka þær og gera till. um þær.

Þá er það einnig rétt, að það þarf að tryggja, að skattþegnar geti komið málsvörnum fyrir sig fyrir yfirskattanefnd. Þar verður að gilda sama um skattþegnana og þær n., sem starfa að því að leggja byrðar á menn.

Hv. 4. þm. Reykv. (HG) lýsti þeirri skoðun sinni, sem ég vona, að sé ekki skoðun hans flokks, a. m. k. þó ekki skoðun hv. flm. þessa frv., varamanns hv. 6. landsk., að það væri tímabært að innlima Seltjarnarneshrepp og Kópavogshrepp í Reykjavík. Ég sé ekki ástæðu til að ræða það hér, en það liggur fyrir frá Reykjavíkurbæ krafa um, að Seltjarnarneshreppur verði innlimaður í Reykjavík. Hv. þm. Barð. benti réttilega á, hversu óviðeigandi það er í þessu sambandi af stærsta bæjarfélagi landsins að gera slíka kröfu. Ég ætla ekki að ræða það hér, hvaða rök eru með því og á móti. Hitt er rétt, sem hv. 4. þm. Reykv. segir, að það er röng stefna, sem hefur verið höfð, að skipta sveitarfélögum. En það eru einmitt flokksbræður þessa hv. þm., sem hafa manna mest stefnt að þessari röngu þróun, þó að þeir látist vera á móti henni, enda mun skipting Seltjarnarneshrepps og Kópavogshrepps hafa verið knúin fram af félmrn. og skrifstofustjóranum þar, gegn rökum, sem fyrir lágu í því máli, sem er óþarft að ræða hér, eins og það var óþarft af bæjarráði Reykjavíkur að draga innlimun þessara tveggja hreppa inn í það mál, sem hér er til umr.

Bæjarráð Reykjavíkur, sem er skipað fulltrúum þriggja stjórnmálaflokka, er allt sammála um, að ákvæðum útsvarsl. eigi að breyta, og hefur ekkert á móti því, að ákvæðin um skiptingu útsvara falli niður með öllu. Það er álitið, að Reykjavíkurbær hafi helzt hag af skiptingu útsvara, en jafnvel Reykjavíkurbær vill ekki færa rök fyrir því, að þessi ákvæði haldist, eða gera kröfur til þess, að svo verði. Bæjarráð mælir raunverulega með því, að þetta frv. nái samþykki. Ég get ekki skilið umsögn bæjarráðs öðruvísi.

Ég held, að ekki sé svo ástæða til að fara lengra út í umræður um þetta mál. Mér virðist. að í raun og veru sé enginn, sem vilji mæla bót núgildandi lagaákvæðum, og mér virðast rökin fyrir því að fresta að breyta þeim í raun og veru engin, því að það er ekki hægt bæði að viðurkenna annars vegar, að lagabreytingin sé þörf vegna ranglætis og misréttis, sem gildandi lög skapa, og hins vegar, að Alþingi ár frá ári skjóti sér undan þeirri skyldu að breyta þeim 1., svo að misréttinu sé útrýmt.