10.02.1950
Efri deild: 52. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þessar jarðir eru opinberar jarðir, þótt þær séu eign ýmissa aðila, sem opinberir eru kallaðir. En satt að segja hvílir á því nokkur óvissa, undir umsjón hvers þær teljast, hver og ein. Þetta eru þá fyrst þjóðjarðir, sem teljast undir landbrn. og umsjón hreppsstjóranna. Svo eru kirkjujarðir, sem hvíla undir kirkjumrn., en vafasamt er, hverjir hafa umboð yfir þeim. Þá koma jarðakaupasjóðsjarðir, sem heyra undir landbúnaðarráðherra, en hreppsstjórar og sýslumenn munu fara með umboð yfir þeim undir ráðherra. Síðan eru kristfjárjarðir, sem sitt á hvað gildir um, og oft fullkomnum vafa undirorpið hver á að sjá um þær. Ákveðið er um hverja þeirra, hvert afgjöldin eigi að renna. Sumar þeirra er bannað að selja, í gjafabréfunum, og sumar jarðirnar eru týndar þannig lagað, að afgjaldið rennur nú annað en ætlað var í gjafabréfinu. Þegar l. um ættaróðal og erfðaábúð voru sett, var tekið fyrir sölu þjóðjarða. Varð samkomulag milli þeirra, sem vildu láta ríkið eiga landið eða hreppsfélögin hvert innan sinna vébanda, og hinna, er vildu selja þær í hendur einstakra manna. Við, sem vildum ekki selja jarðirnar til einstaklinga, vildum koma í veg fyrir, að kynslóð eftir kynslóð væri íþyngt með vöxtum sökum hækkaðs verðs. En milli þessara ólíku sjónarmiða varð samkomulag um að leyfa að selja jarðirnar, ef þær væru settar í erfðaábúð og gerðar að ættaróðulum, því þá átti sala og brask með þær með síhækkandi verði og aukinni vaxtabyrði á ábúanda að vera útilokað. Hins vegar var sett í lög, að ábúandi ætti kröfu á að fá ábúðarjörð sína á erfðafestu, og að hinu opinbera væri skylt að selja erfðafestujörð, ef hún jafnframt væri gerð að ættaróðali. Til þess svo að létta ríkissjóði byggingarskylduna var leyft að þeir, sem hefðu jörð til erfðaábúðar, mættu veðsetja hana fyrir lánum til umbóta jörðinni eins og þeir ættu jörðina sjálfir. Mikil tregða hefur verið á því að fá jarðir í erfðaábúð, og enn meiri til að fá fé til að byggja upp á jörðunum. En annaðhvort verður að vera, ríkið að leggja fé til endurbyggingar á jörðunum, eins og einstaklingar gera, sem eiga jarðir, eða að það setur þær í erfðafestu og ábúandinn fái síðan lán eins og aðrir er byggja. Annaðhvort verður að vera, með þjóðjarðirnar, sem hvíla undir landbrn., og kristfjárjarðir, — hvern sem þær nú heyra undir. (BSt: Er það ekki Kristur?) Ja, það eru prestar hingað og þangað um landið. Ég hefði sagt, að þær fari í erfðaábúð, eða til bygginga á þeim sé lagt af hálfu eiganda eins og annarra jarðeiganda sem eiga leigujarðir. Að forminu til er enn verið að veita veðsetningarleyfi, þegar lána þarf út á húsabætur á opinberri jörð, og ég hef komizt í vandræði með kristfjárjarðir og kirkjujarðir, því eiginlega vill enginn viðurkenna, að þær heyri undir sig í ráðuneytinu. Já, það vantar alla stefnu á þetta. Ef nú sú stefna væri tekin að segja við ábúandann: Fáðu þér erfðaábúð, þá geturðu keypt jörðina, — þá væri öðru máli að gegna. Þá væri tryggt, að sonur hans gæti verið þar áfram. En það er ekki sagt, heldur er alltaf einhver tregða á að fá erfðaábúð hjá stjórnarráðinu. Annaðhvort verður að gera, að leggja fram fé og byggja samkvæmt ábúðarlögunum, eða setja jarðirnar í erfðaábúð og segja síðan ábúanda að fá lán og byggja sjálfur, og það er vitanlega það, sem gera á. Hér þarf hreinar línur, ákveðna stefnu, en hún verður ekki til, meðan ekki er einu sinni mögulegt að fá að vita hver það er, sem ræður yfir kirkjujörðunum og kristfjárjörðunum. Það vantar, að á einni og sömu hendi sé stjórn á öllum þessum jörðum af hálfu þess opinbera, hvort sem það eru kirkjujarðir kristfjárjarðir, þjóðjarðir eða jarðakaupasjóðsjarðir. — Svo er hitt aftur nokkru þyngri raun, sem ég veit ekki vel, hvernig á að leysa, og það eru þessar kristfjárjarðir, sem ekki má selja. Ég tel enga skuldbindingu um það atriði gildandi viðkomandi þeim kristfjárjörðum, þar sem gjafabréfin eru týnd, jafnvel þó að munnmæli séu til um það, hvernig þær eigi að byggjast. En um kristfjárjarðir, sem ekki má selja, er það svo, að það má byggja þær í erfðaábúð, enda er það tekið fram í l. um erfðaábúð og óðalsrétt, enda þó að sú lagasetning væri með miklum vangaveltum gerð, því að maður vissi varla, hvort það væri leyfilegt að ákveða það, en þó að sumum þætti það vafaspursmál, þá var það nú gert, en það er ekki hægt að kaupa þær. Ég hef á hverju ári fengið beiðni frá einum ábúanda á kristfjárjörð um að greiða fyrir, að hann fái hana til kaups, en mér hefur aldrei dottið í hug að fara á flot með það, af því að í gjafabréfinu fyrir henni er bannað að selja hana.

Svo vil ég benda á annað í þessu sambandi. Það virðist vera töluverður tendens til þess bæði hjá sýslunefndum og stjórn Búnaðarfélags Íslands að mæla með sölu á jörð, sem komin er í erfðaábúð, ef þeir ekki sjá alveg beint, að á allra næstu árum þurfi að taka hana undir fyrirtæki þess opinbera. Þetta nefni ég af því, að ein af þessum jörðum, sem um er að ræða í frv., Syðri-Bakki, sem á land að Hjalteyri, er jörð, sem allar líkur eru fyrir, að sé hæpið, hvort ætti að selja einstaklingi. En viðbúið er kannske, að hvorki sýslunefnd né stjórn Búnaðarfélags Íslands sjái það langt fram í tímann, að Hjalteyri muni stækka það, að til þess muni koma, að á landi Syðri-Bakka muni þurfa að halda til annars, en búrekstrar. Þarna þurfa bæði sýslunefnd og stjórn Búnaðarfélags Íslands að sjá lengra fram í tímann en þær hafa séð, án þess að ég ætli nú að fara að nefna dæmi um það. En þau dæmi eru til, því miður, að mínum dómi. Ef á að fara aftur inn á þessa braut og fara aftur að tína til upptalningu á jörðum, sem megi selja, eins og gert var á hverju þingi um margra ára skeið, þá held ég, að það sé dálítið hæpin braut, og þá þarf a. m. k. að fyrirbyggja, að jarðirnar eftir söluna lendi í braski, og það verður ekki gert með öðru en því, sem hv. frsm. minntist á, að setja í frv. ákvæði um það, að jarðir, sem seldar eru frá ríkinu, séu gerðar að ættaróðulum. Og ég mun ekki fyrir mitt leyti setja mig neitt á móti þessu frv., ef þetta er sett inn í frv., því að þá er þetta mál á þeim grundvelli, sem lagður var, þegar l. um ættaróðal og erfðaábúð voru sett, og fer ekki út fyrir hann. En annars er náttúrlega fjarri lagi að vera með frv., ef þessi ákvæði eru ekki sett inn í það um leið.

Ég vildi nú mjög mælast til þess, að hæstv. landbrh., sem nú heiðrar hv. þd. með sinni nærveru hér, — sem er ekki venjulega hér, því að venjulega er hans stóll hér auður og sömuleiðis hinir ráðherrastólarnir við hliðina á hans stóli, — ég vildi mælast til þess, að hæstv. landbrh. vildi reyna að koma stjórn allra opinberra jarða á eina hendi í stjórnarráðinu og hafa heilsteypt yfirráðin yfir þeim, þannig að að einhverju ákveðnu sé að ganga í því efni, t. d. viðkomandi þeim jörðum, sem stjórnarráðið er að þybbast við, að settar verði í erfðaábúð. Og ég er alveg viss um, að það verða ekki fá vandamálin og erfiðleikarnir, sem koma út úr því, þegar ríkissjóður hefur verið að styrkja byggingar á þessari eða hinni jörðinni og hefur þá lagt fram tvö þús., þrjú þús., fjögur þús. eða fimm þús. kr. eða einhverja upphæð aðra til þess að hjálpa bónda til að byggja upp á jörð ríkisins, bónda, sem er þar nokkur ár, en hefur ekki erfðaábúðarrétt á jörðinni og hans börn hugsa sér ekki að vera þar. Og þegar virt verður, hvað ríkissjóður hafi gert, hvað bóndinn hafi gert og hvaða hækkun hafi eðlilega orðið á verði jarðarinnar fyrir rás viðburðanna að öðru leyti, þá held ég, að stundum muni þurfa á þessu yfirmat og að ekki muni vera gott fyrir þá, sem eiga að meta í þessum efnum, að vita, hvað eigi út úr þessu að koma, sem réttast sé. En slíkt kæmi til greina, ef þeirri reglu verður fylgt, sem ég gat um nú síðast.

Ég vildi, að hv. landbn. athugaði, að ef á að selja þessar jarðir, sem í frv. eru nefndar, þá tel ég, að skilyrðislaust þurfi að gera þær um leið að ættaróðulum. Og ég mælist til þess, að hæstv. landbrh. komi þessum jörðum öllum undir sömu stjórn, — kirkjujörðum, þjóðjörðum, jarðakaupasjóðsjörðum og kristfjárjörðum, í einhverri mynd, og að framtíðarlínurnar, sem fylgt verði með ábúð þeirra og byggingu, verði heilsteyptari, en verið hefur.