07.03.1950
Efri deild: 69. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að svara miklu þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað. Ég skil, að hv. flm. frv. sé ekki alls kostar ánægður með till. okkar í landbn. Hjá n. ríkti önnur skoðun um þarfir íbúa Hauganess og Hjalteyrar. En þó að hún vilji gefa íbúum þessara staða kost á því að reka búskap, vill hún ekki reka bændurna á þessum stöðum burt af jörðunum, því að þessi búskapur verður víst ekki í svo stórum stíl, a. m. k. ekki fyrst í stað.

Hv. þm. vildi, að við tækjum till. okkar aftur til 3. umr., en ég sé enga ástæðu til slíks. Hann mun fá tækifæri til að sitja á fundi hjá n., áður en málið verður afgreitt, en ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi neitt að segja með Stærra-Árskóg og Syðri-Bakka, en í n. hefur enginn ágreiningur verið um að selja ekki þessar jarðir. Við teljum ekki rétt, að bóndinn í Stærra-Árskógi eða sonur hans geti selt lóðir til íbúanna í Hauganesi dýru verði, eða ábúandinn á Syðri-Bakka geti selt lóðir til Hjalteyringa, en teljum heppilegra, að ríkið eigi jarðirnar áfram og sjái sjálft um að úthluta lóðum, eftir því sem þörf er og verður á. En þegar íbúar Hjalteyrar biðja bóndann á Syðri-Bakka, telja þeir sig sæta þar betri kjörum, en þegar þeir þurfa að leita til eigenda eða ábúenda Hjalteyrar, Bragholts eða Skriðulands, og ég skil ekki í því, að þeir væru að sækjast eftir landi á Syðri-Bakka, ef þeir gætu fengið land með sæmilegu móti í Bragholtslandi.

Hv. þm. Barð. fór út í að ræða málið almennt, en ég skal ekki fara út í það. En þegar bóndi fer fram á að fá keypta jörð, sem hann hefur setið og er í eigu ríkisins, og það er samþ., fær hann hana við vægu verði og með góðum kjörum og eru fyrirmæli um slíkt í l. um óðalsrétt og erfðaábúð. Og þegar bóndi biður um jörð til kaups á þann hátt, liggja aðallega til þess tvær ástæður: Í fyrsta lagi, að hann vill heldur eiga jörðina, sem hann býr á, og í öðru lagi, að hann vill fá jörðina fyrir lítið verð til að geta síðan hagnazt á henni, t. d. með því að selja hana. Ég verð að segja, að ég skil ekkert í þeim mönnum, sem vilja heldur eiga jarðirnar, sem þeir búa á, en hafa þær t. d. í erfðaábúð, en slíkir menn eru því miður margir, en fer sem betur fer fækkandi. Og ég get leitt rök að þessu. Fyrir 37 eða 38 árum var ég á allfjölmennu bændanámskeiði á Hvanneyri og hélt þá fram þessari skoðun, sem ég var nú að segja frá, en aðeins einn maður féllst á skoðun mína, og Páll Jónsson kennari á Hvanneyri og Guðmundur Jónsson á Hvítárbakka hölluðust að henni. Ég man eftir því, að tveir menn, sem þarna voru og voru þá á móti skoðun minni, hafa síðar selt jarðir sínar og setzt í erfðaábúð, og telja þeir þetta fyrirkomulag nú betra, eftir að hafa komizt í kynni við það. Af þessu sést, að skoðanir manna hafa nokkuð breytzt í þessum efnum á ekki lengri tíma. Það er alveg sama, hvort maður á jörðina eða hefur erfðaábúð, þetta er aðeins gömul venja og kredda, sem menn eru nú að láta af. Um þær fjórar jarðir, sem samþykkt var að selja með því skilyrði, að þær yrðu gerðar að ættaróðali, en af þeim voru 2 á Skógarströnd, og hv. þm. Barð. sagði, að væru komnar í eyði, er það að segja, að menn þeir, sem vildu kaupa þær, ætluðu sér að selja þær aftur og græða þannig á þeim. Tvær af jörðunum voru hlunnindajarðir, og hugðust þeir, sem vildu kaupa þær, að selja Reykvíkingum þær til laxveiða, en þegar gera átti þær að ættaróðulum, vildu þeir þær ekki. Ég hygg, að sama hafi gilt um jörð í Norður-Múlasýslu, sem var að vísu smájörð, en kaupandinn ætlaði að leggja undir aðra stærri jörð og hagnast svo á sölunni, en þegar óðalsskilyrðið var sett, hvarf hann frá kaupunum. Þessi dæmi sanna því ekki það, sem hv. þm. Barð. vildi vera láta, að þetta væri svo slæm aðferð. Menn hafa ekki enn áttað sig á því, hve mikil bölvun það er fyrir íslenzkan landbúnað að láta jarðir ganga kaupum og sölum, þannig að þær síhækki í verði vegna þess, og jafnframt hækkar afgjaldið og framleiðsla á jörðinni verður dýrari. Ég sé ekki ástæðu til að taka till. n. til baka, en mun halda fund í landbn. á milli umr. Og um Fagranes vil ég segja það, að ef til vill má laga það til, en ég vil láta athuga fyrir fram, hvað gert verður við brunatrygginguna, sem fylgir jörðinni, svo að kaupandinn geti ekki hagnazt á kröfu til Brunabótafélagsins, en ég held ekki, að við getum fallizt á að selja jarðirnar Syðri-Bakka eða Stærra-Árskóg.