27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

49. mál, húsaleiga

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég hef ekki getað fallizt á þetta frv. og er því andvígur. Ég hef flutt ásamt 2. þm. Reykv. annað frv., á þskj. 40, sem samið er að tilhlutan Leigjendafélags Rvíkur og er ýtarlegt í öllum atriðum. Þar er ekki farið inn á þá braut að afnema húsaleigulögin og þó ekki haldið fást við fyrirmæli þeirra, heldur farinn meðalvegur, enda er frv. byggt á ýtarlegum athugunum greinargóðra manna.

Um þetta frv. er hins vegar það að segja, að það er ekki byggt á neinum slíkum athugunum, heldur er því slegið fram að mér finnst nokkuð út í bláinn og þá fyrst og fremst till. um að afnema húsaleigulögin. Ákvæði þeirra laga, sem snerta leigu á einstökum herbergjum, eiga í fyrsta lagi að falla úr gildi 1. okt. í haust. Ákvæðin um atvinnuhúsnæði , og leiguíbúðir í sama húsi og eigandinn býr í skuli falla úr gildi eftir 14. maí 1951. Önnur ákvæði laganna falla úr gildi 14. maí 1952, en þó á hvert einstakt bæjarfélag að hafa heimild, til þess að framlengja gildi þeirra fyrir sitt leyti.

Mér þykir rétt að vekja athygli, á því, að hér er Alþingi í raun og veru að kveða upp úrslitadóm um afnám laganna, og ég verð að segja það, að mér finnst þeir menn, sem flytja þetta frv., eins og aðstæður eru í húsnæðismálunum, sannarlega vera nokkuð djarfir, því að ég er sannfærður um það, að áhrifin af afnámi þessara laga verða fyrst og fremst þau, að húsaleiga kemur til með að hækka mjög verulega. Ákvæði frv. um hámark húsaleigu eru mjög mikið út í bláinn og verða hreinasta pappírsgagn til einskis nýtt, ef ekki er látin fram fara ýtarleg rannsókn á öllu því húsnæði, sem undir þau heyra. Ég held, að myndin af þessum málum hér í Reykjavík, ef þetta yrði að l., yrði sú, að það stæðu uppi fjöldamargar íbúðir og byggingar, sem fasteignasalar yrðu með á hendinni, og auðvitað yrði reynt að selja þær á sem hæstu verði, en á meðan yrði fjöldinn allur af fólki á götunni. Með því að gera þetta að lögum væri verið að kalla yfir allan fjöldann í þessum bæ þá örbirgð, sem við höfum ekki þekkt áður, en þekkt er í öðrum löndum. Fjöldi fólks mundi búa í skúrum, sem alls ekki gætu talizt mannabústaðir. Það mundi gerbreyta öllu því, sem við höfum átt að venjast í þessum efnum. Ég viðurkenni það fúslega, að húsaleigulögin hafa víða komið ósanngjarnt niður á eigendum húsa og fólk svipt þeim arði af húsnæði, sem það hafði ætlað sér til lífsviðurværis, með hinum einstrengingslegu ákvæðum húsaleigulaganna, en það er ekki verið að breyta þessu fyrir þessa menn. Ég vil benda hv. flm. á það, að þeir, sem græða á þessu afnámi húsaleigulaganna, það eru stóreignamenn hér í Reykjavík, það eru þeir, sem græða á því, að hundruð fjölskyldna verða borin út á götuna.

Mér finnst þetta frv. vera alvörulaus tillaga um lausn á þessum miklu vandamálum og vil vara menn við því að ganga þessa braut. Það er sanngjarnt að endurskoða og endurbæta ákvæði laganna um húsnæði og húsaleigu, og hefði ríkisstj. átt að vera búin að gera það, vegna þess að ákvæðin hafa nú verið í gildi um nokkur ár og leitt af sér nokkurt ranglæti, eins og ég gat um áðan, og það má segja, að það sé ekki ástæðulaust að rýmka nokkuð uppsagnarákvæðin, en þó held ég, að það skipti ekki eins miklu máli og hitt, en hér er þetta ekki gert, vegna þess að gert er ráð fyrir afnámi laganna.

Ég vil nú sérstaklega beina því til hv. þm. að athuga gaumgæfilega frv., sem Leigjendafélagið hefur samið og er mjög sanngjarnt, áður en farið er inn á þessa glæfrabraut, sem hér er lagt til í frv. Það er lítið dæmi um ástandið í húsnæðismálunum, að um 2.000 manns hafa sótt um það húsnæði, sem bæjarstjórn Reykjavíkur er nú að bjóða út, og nú er það þó vitað, að fjöldi fólks getur ekki sótt um þessar íbúðir vegna peningaleysis og lendir á götunni. Nei, svona lög verða ekki til annars, en til þess að flagga með, til þess að villa mönnum sýn, sem kynnu að vera andvígir eða óánægðir með ástandið. Ég mun greiða atkv. með till. um rökst. dagskrá, vegna þess að ég er andvígur frv. og álít, að það sé til skaða fyrir fjöldann, en til tiltölulega lítils gagns nema fyrir örfáa, því að það er hægt að gera nauðsynlega leiðréttingu á húsaleigul. án þess að valda svo stórum hópi manna tjóni, eins og verður, ef þetta frv. er samþ. Ég mun við 3. umr. málsins, ef hin rökstudda dagskrá verður ekki samþ. nú við 2. umr., flytja brtt. um þessi atriði, en mun hins vegar ekki bera þær upp hér við 2. umr.