06.05.1950
Neðri deild: 96. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

49. mál, húsaleiga

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég er búinn að lýsa afstöðu minni til málsins einu sinni, en leyfi mér nú að bera fram nokkrar brtt. til lagfæringar á ákvæðum frv. Tek ég það þó fram, að ég tel, ef brtt. mínar verða felldar, frv. vera svo mikla skerðingu á lífskjörum almennings, að eigi verði við það unað. Vil ég nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þessar brtt.:

1. Við 1. gr. Orðin „systkini sín“ falli niður. Hér var það fólgið í, að leigusala er heimilt að segja upp íbúðarhúsnæði, ef hann hefur eignazt það fyrir þ. 9. sept. 1941 og þarf á því að halda fyrir sjálfan sig, skyldmenni í beinni línu, kjörbörn og fósturbörn. Þessu hefur verið breytt, þannig að ákvæðin eru og látin ná til systkina. Gerbreytir þetta allri aðstöðu og gerir húsaleigul. mjög þýðingarlítil. Mundu allmargar íbúðir vafalaust verða ruddar mjög fljótlega, og þetta yrði notað sem átylla til að losa húsnæði. Og eins og oft er, þá er þetta meira notað sem átylla til þess að losa íbúðina, en um raunverulega nauðsyn sé að ræða í sambandi við þær heimildir, eins og í l. eru nú.

Í öðru lagi legg ég til, að í Reykjavík verði húsaleigunefnd skipuð fimm mönnum, og auk þeirra þriggja, sem tilgreindir eru í frv., verði tveir menn kosnir í n. af bæjarstjórn Reykjavíkur.

Og í þriðja lagi legg ég til, að sú breyt. verði gerð á 7. gr. frv., að 2. tölul. gr. falli niður. En það er tölul. um það, að húsaleigulöggjöfin falli niður varðandi atvinnuhúsnæði og leiguíbúðir, sem eru í því sama húsi, sem húseigandi býr sjálfur í, 14. maí 1951. Og ef sú brtt. mín yrði samþ., mundi aðeins gilda 3. liðurinn, sem nú er, þannig að húsaleigul. féllu þá úr gildi eftir tvö ár í einu lagi.

Vil ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessar brtt. mínar og biðja hann að leita afbrigða fyrir þeim.