02.03.1950
Efri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

103. mál, skógrækt

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það er aðeins aths. út af fyrirspurn hv. 2. þm. S-M. Ég get tekið það fram hvað snertir fyrstu fyrirspurn hans, að það ákvæði er alls ekki komið að fyrirlagi mínu inn í þetta frv., heldur er það tilraun til að mæta hv. 1. þm. N-M. í þessu máli, og það var búið að tala svo mikið um það, að það þarf ekki nú að taka það frekar fram. Hann minntist á, að það liggi þarna óskýrt fyrir. — að það er ekki tekið fram í frv., — hvað sé fullgild girðing. Við höfum ákvæði um það í girðingarl. frá 1931, hvað þar er talin fullgild girðing, en það er ekki talin fullgild skepnugirðing nú. Það er talið nú, að það þurfi sexfalda girðingu eða jafnvel sjöfalda til þess að hún geti talizt fullgild skepnugirðing, ef það er gaddavír. Þess vegna eru engin lagaákvæði til um þetta, og við töldum ekki liggja fyrir að setja þau hér inn, en nú liggur fyrir, að komi fram l. um girðingar. Það kemur sennilega frá næsta búnaðarþingi frv. um það, sem verður lagt fyrir Alþ., en mþn. er að semja l. um girðingar, því þau lög, sem nú gilda, eru talin úrelt.

Þetta er það, sem ég vildi sérstaklega taka fram. En um tvöfalda gjaldið af þessu er það að segja, að þá er síður lagt út í það af skógareiganda að nauðsynjalausu að drepa niður féð, þegar hann verður að greiða tvöfalda borgun, svo að þess vegna er það, að það mundi aldrei vera farið að drepa nema alveg sérstakar fálur, sem sæktu sérstaklega í skóglendi. Þetta vil ég taka fram, en eins og ég tók fram áðan, þá er þetta 2. umr., og er hv. þm. í lófa lagið að koma með brtt. um þessi átriði við 3. umr.