03.03.1950
Efri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

103. mál, skógrækt

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég vil fyrst benda á það, sem ég býst reyndar við, að hafi ekki farið fram hjá hæstv. forseta, að á þetta frv. vantar alveg höfuðið. Þar stendur hvergi á þskj. 1. gr. Það hefur fallið niður í prentinu að setja framan við frvgr.: 1. gr. Það verður sjálfsagt að skoða sem prentvillu.

Þá vil ég að öðru leyti vera sem fáorðastur núna, því að ég vil ekki fá yfir mig skúrir á hverjum degi, og skal nú reyna að fara með löndum, eftir því sem hægt er.

Hv. 2. þm. S-M. kom hér fram með þrjár brtt., eða í raun og veru ekki nema tvær, því að ég tel, að tvær brtt., sem hann gat um fyrst, hangi hvor við aðra, og sú seinni þeirra, sem er nr. 3 á þskj., leiði af fyrstu brtt., ef hún verður samþ. — Ég get lýst yfir, að það var til samkomulags í n., að ég leiddist út í þetta og við mættumst þarna á miðri leið, hv. form. n. og ég og fleiri, sem voru í n., um þetta atriði. Og við vildum í raun og veru ekki hafa það, að sjálfseignarskógræktargirðingar hefðu ekki jafnan rétt á við hinar skógargirðingarnar, sem á einhvern hátt tilheyrðu skógræktarstjóra. Og ég segi fyrir mig, að þar sem þessi brtt. er komin fram hér í hv. þd. og hverjum þm. er skipað að greiða atkv. eftir sinni sannfæringu, þá sé ég mér ekki fært annað en að greiða þeirri brtt. atkv., sem hv. 2. þm. S-M. hefur borið hér fram.

Ég álít, sannast að segja, að 2. tölul. brtt. sé ekki verulega gagnsmikill. En sú brtt. er meinlaus, að ég hygg, og ég sé ekki ástæðu til að bregða fæti fyrir hana, eftir því sem ég tók eftir hennar orðanna hljóðan, þegar hæstv. forseti 1as hana upp. Ég segi þetta fyrir sjálfan mig. En ég veit einnig, að einhverjir af mínum meðnm. eru á sama máli og ég um þessa 1. brtt. hv. þm. — Ég vildi aðeins taka þetta fram nú og sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta meira að sinni.