11.05.1950
Efri deild: 104. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Þetta frv. er frá Nd. Það kann að sýnast, að við höfum gert á því miklar breyt., en þær eru í rauninni sárfáar og lítils virði.

Eins og frv. kom frá Nd., var það breyt. á l. frá 1945 um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum. En Nd. láðist að gæta þess, að áður var búið að breyta jarðræktarl. og umskíra n. og kalla vélan., sem áður var kölluð verkfæran. Þess vegna höfum við alls staðar sett inn vélan. fyrir verkfæran. Þetta er bara orðabreyt., enda var það sagt í gríni hér áðan, að við værum orðnir prófarkalesarar fyrir Nd.

Eins og frv. kom frá Nd., var heimilað að ávaxta séreignir einstakra ræktunarsambanda í sparisjóðum í héraði, en áður skyldi ávaxta allan fyrningarsjóð í Búnaðarbanka Íslands. Nm. töldu réttara, að þessi heimild næði einnig til banka á svæðum viðkomandi sambanda, eins og t. d. bankanna á Selfossi, Akureyri og Seyðisfirði.

Þetta eru allar breyt. n. Verkfæran. hefur verið breytt í vélan. og heimilað að ávaxta fyrningarsjóðina einnig í bönkum. Annars er frv. eins og það kom frá Nd.

Breyt. Nd. eru nokkrar og verulegar. N. er sammála þeim, og er kannske rétt að ég geri nokkra grein fyrir þeim. Lagt er til, að framlag ríkisins til öflunar ræktunarvéla hækki úr 3 millj. kr. upp í 6 millj. kr., þar sem sýnilegt er, að hin upphaflega áætlun um stofnkostnað mun ekki standast. Síðan sú áætlun var gerð hefur tvennt skeð, samböndin hafa hallazt að kaupum á stærri og dýrari vélum en upphaflega var ætlað, og stórkostleg verðhækkun hefur orðið á vélum. Þessi verðhækkun á vélum veldur mestu um það, að nauðsynlegt er að hækka framlag ríkisins. Enn eiga 23 ræktunarsambönd eftir að fá vélar, og þessar 6 millj. kr. eru miðaðar við, að þau njóti sama stuðnings og önnur sambönd hafa fengið. Þetta er því réttlætismál, þrátt fyrir allan sparnað.

Þá er önnur breyt. sú, að áður skyldi ávaxta fyrningarsjóði í Búnaðarbankanum, en nú má líka ávaxta þá í sparisjóðum og bönkum í héraði. Þriðja breyt. á rætur sínar að rekja til þess, að minni ræktunarsambönd, sem þröngt hafa um rekstarfé, hafa farið fram á að fá að hafa fyrningarsjóði sína í rekstrarfé. Með samþykki Búnaðarfélags Íslands og gegn ábyrgð sýslun. er samböndunum heimilað að hafa allt að helmingi fyrningargjaldsins í rekstri sínum. Þar sem gengið hefur illa að ná inn fyrningargjaldinu í einstaka tilfellum, — það munu vera tvö eða þrjú ræktunarsambönd, sem ekki hafa staðið í skilum, — er loks Búnaðarfélagi Íslands heimilað að halda eftir af jarðræktarstyrk, svo að gjaldið verði greitt og hægt að endurnýja vélarnar. Fyrningargjaldið er nú 15%. Sums staðar, þar sem vel er farið með vélarnar, er það tiltölulega of hátt, en annars staðar ekki nóg; þó má telja það nærri réttu lagi. Þetta eru breyt. Nd. Okkar eru í rauninni engar, þó að nokkuð fari fyrir þeim.