15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (2527)

175. mál, Laxárvirkjunin

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli, því að frv. ber með sér þá breytingu, sem gera á, á þessu máli frá núverandi skipan þess. Það er kunnugt hv. þd., að samningar voru gerðir við Sogsvirkjunina, um að ríkið eignist Sogsvirkjunina að hálfu, og gengur þá Sogsvirkjunin inn á þá samninga með mjög hagkvæmu verði fyrir ríkið. Á þessu var nokkur tregða hjá Reykjavík, sem var þó fljótt yfirunnin, vegna þess að menn gerðu sér ljóst, að þýðingarmikið var að fá ríkið til að vera meðeiganda í þessari virkjun, vegna þess hve aðstaðan verður betri, sem sést á því, hvernig þessum málum hefur verið fylgt eftir nú upp á síðkastið. Hins vegar samdist ekki við Akureyri um þetta mál. Þeir hafa þar viljað halda ríkinu utan við þetta, þar til núverandi virkjun, sem stendur fyrir dyrum, verði lokið. Akureyri hefur ekki fengizt til að gera um þetta samninga síðustu 2 árin, vegna þess að meiri hl. bæjarstj. var á móti því. Sumir bæjarfulltrúarnir voru þó með því, að gerðir væru við ríkið samningar, eftir því sem við yrði komið hliðstæðir þeim, sem Reykjavík hafði gert við ríkið. Nú stendur fyrir dyrum stórvirkjun þessa fallvatns, og ríkisstj. er sammála um það, að óeðlilegt sé að hafa á því þann hátt, sem meiri hl. bæjarstj. Akureyrar hefur gert kröfu til, og hefur þess vegna einum rómi verið farið fram á það, að bæjarstj. Akureyrar samþ. það fyrirkomulag, að eignarhaldi á virkjuninni verði breytt til samræmis við það, sem gert er ráð fyrir hér í 2. gr. frv. Mótstaðan gegn þessu fyrirkomulagi mun vera að hverfa, a. m. k. er meiri hl. bæjarstj. Akureyrar nú reiðubúinn til að samþ. það. Þetta er það, sem felst í frv. — 3. gr. frv. er svo afleiðing af þeirri breytingu, sem af þessu leiðir, að því er snertir stj. fyrirtækisins. Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta nánar, án þess að tilefni gefist. Ég geri ráð fyrir, að málið og forsaga þess sé hv. þdm. kunn, svo að engin þörf sé á að tefja tímann með því að rekja það mál. Ég læt svo útrætt um málið að svo stöddu.