05.01.1950
Neðri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að ræða um málið almennt og það, sem málið snertir, nú við 1. umr., og mun einnig óska nokkurra upplýsinga nú við þessa umr.

Í fyrsta lagi vil ég minna hv. þm. á, að á s.l. vori, rétt í þann mund, er verið var að ganga frá fjárl. fyrir árið 1949 og dýrtíðarl., að þá voru samþ. enn 70 millj. kr. útgjöld úr ríkissjóði til greiðslu í uppbætur og til þess að greiða niður verð innanlands. Er Alþingi lauk við að ganga frá fjárl., sem voru greiðsluhallalaus á pappírnum, þá var samþykkt að greiða uppbætur á laun opinberra starfsmanna, en það var gert rétt fyrir þinglausnir. Ég vil í þessu sambandi benda á, hve hættulegt fordæmi það er, að þegar Alþingi er nýhætt störfum, skuli kaup hafa verið hækkað til muna í landinu, sem aftur skapaði svo fleiri hækkanir og nýja verðbólgu. Enn fremur var það og vitað, að þótt búið væri að setja útflutningsábyrgð á fisk, þá var hagur bátanna mjög þröngur. Af þessum ástæðum var það þegar ljóst, að fyrir næstu vertíð yrði að hefja ráðstafanir að nýju. Þetta vil ég undirstrika, og sýnilegt er að hnúturinn er nú mun fastari og torleystari. Bátaflotinn er sokkinn dýpra í skuldafenið en áður. Framsóknarmenn kviðu fyrir þessu og sáu glöggt, hvað var að gerast. Þeir hafa hvað eftir annað undirstrikað og bent á þann voða, sem nú er að koma í ljós, og hafa gert till. um, að á síðastliðnu sumri yrði þá þegar hafizt handa og rannsakað, hvaða ráðstafanir væri hægt að gera til frambúðarlausnar. Við framsóknarmenn töldum, að hinar fyrri leiðir væru illfærar lengur og það væri ekki hjá því komizt að finna ný úrræði. Enn fremur bentum við á þessi önnur úrræði, en þau voru, að fjármagnið yrði fært til framleiðslunnar og metin yrðu jöfnuð með niðurfærslu á gengi, en með þessu yrðu að fylgja hliðarráðstafanir til þess að reyna að forðast og draga úr, að þær ráðstafanir kæmu mjög illa niður á þeim, sem verst væru stæðir. Við vildum fá tryggingu fyrir meiri hluta til þess að koma þessum till. í framkvæmd, m.a. um stóríbúðaskatt á húsnæði, endurskoðun skattamála, verzlunarmála og aðra hluti, sem snertu dýrtíðina hvað mest, og í öðru lagi og í framhaldi af þessu, að hægt yrði að hætta við uppbótakerfið. En þegar framsóknarmenn voru í ríkisstj., fengust ekki samtök um þetta, og þá töldum við, að rétt væri, að almennar þingkosningar færu fram og úr því fengist skorið, hvað þjóðin kysi. Þjóðin gat þá kosið á milli tillagna okkar framsóknarmanna og annarra. Kosningar fóru svo fram í haust, eins og menn muna, og að kosningunum afstöðnum var nokkuð rætt um stefnubreytingu, en meiri hluti fékkst ekki í haust fyrir neinni þeirra leiða, sem fram komu. Það stöðvaði Framsfl., að hinir þingflokkarnir vildu ekki fallast á þá grundvallarstefnu, sem við höfðum haldið fram og talið líklegasta til þess að sporna fæti við dýrtíðinni og því öngþveiti, sem ríkir í framleiðsluháttum þjóðarinnar. Niðurstaðan varð svo sú, að minnihlutastjórn var ákveðin um mánaðamótin nóvember–desember. Ekki hefði það verið ósanngjarnt að álykta sem svo, að sú stjórn hefði nú undirbúið málið og komið fram með raunhæfar tillögur til úrbóta, en þessi ríkisstj. hefur eytt tímanum í eintómar undanfærslur. Nú hefur hæstv. ríkisstj. haft málið til meðferðar síðan í nóvemberlok, og hver er árangurinn? Hann er þetta frv., sem hér hefur nú verið lagt fram af hæstv. stjórn. Það var minnzt á þetta mál fyrir jólin, og tilkynnti hæstv. forsrh. þá þinginu, að frv. yrði ekki lagt fram fyrr en eftir áramótin. Það þýddi, að útgerðin gat ekki hafizt á venjulegum tíma. Ástæðurnar fyrir þessum drætti voru gefnar svona úr og í, að ríkisstj. væri ekki málið nógu kunnugt, og sumpart var tímaskorti kennt um. Þessar ástæður er vart hægt að taka gildar, því að í núverandi stjórn eru tveir ráðherrar, sem sæti áttu í fyrrv. ríkisstj., og var þeim vel kunnugt um þetta mál, auk þess sem þegar hefur verið upplýst í máli þessu í kosningarbaráttunni. en öllum, sem fylgzt hafa með fjármálum landsins að undanförnu, hefur verið ljást um gang þessa máls í höfuðdráttum, enda var mjög um það talað í baráttunni í kosningunum. Er því þessi dráttur á tylliástæðum byggður. Enn fremur var það tekið fram, þegar Ólafur Thors tók við forsætisráðuneytinu, og því yfir lýst, að ríkisstj. mundi taka á málinu með skírskotun til yfirlýsingar, sem Sjálfstfl. gaf í sambandi við málið í fyrrv. stjórn. En hvernig stendur nú á því, að sá grundvöllur er nú ekki lengur nothæfur? Hæstv. forsrh. skírskotaði til ákveðinnar stefnu, en er hér kannske um enga stefnu að ræða? Er hún skökk, eða er hún ófullnægjandi? Hæstv. ríkisstj. hefur kannske fundið á sér, að þetta mundi ske, og síðan talið það gott og gilt að láta hæstv. forsrh. draga það fram yfir nýár að taka málið tökum, ef á þeim tíma kæmu stjórninni ráð í hug, sem teljast mættu framtíðarúrræði. Nú hefði verið hægt að ganga til verks, ef hæft hefði verið í því, sem hæstv. forsrh. sagði þá um nýja stefnu í þessum málum, en nú sést á frv., að ekkert er hæft í fyrri yfirlýsingum hæstv. forsrh. Þess vegna hefur það nú skeð, að ríkisstj. hefur afsakað það með því að halda svona lengi í frv., að vertíð hefur ekki getað hafizt á tilteknum tíma, og landið hefur daglega tapað stórfé. Það stafar af því, að hæstv. stjórn dreif ekki í því fyrir áramótin að reyna að knýja eitthvað samkomulag í gegnum þingið fyrir áramótin, og eftir allan þennan drátt virðist ríkisstj. ekkert annað hafa í pokahorninu, en þetta frv., en henni hefði verið það alveg vorkunnarlaust að bera frv. sem þetta fyrr fram, og hún hefði ekki þurft að draga þetta svona lengi. (Forsrh.: Hvenær var gengið frá samþykkt þessa frv. í fyrra?) Löggjöfin var sett fyrir jól í fyrra, en það dróst fram í janúar, að útgerðin færi á stað, og ég er ekki viss um, að hæstv. forsrh. haldi, að nú fari útgerðin á stað sama dag og l. eru samþ. g óska þess því eindregið, að ekki verði frekari dráttur á setningu einhverra laga útgerðinni aðlútandi, svo hún geti farið af stað sem fyrst. En hér hefur verið haldið svo á málunum, að stórkostlega ámælisvert er, og vil ég leyfa mér að undirstrika það. — Ég skal svo ekki hafa þennan formála lengri, en víkja að málinu almennt.

Í frv. er gert ráð fyrir, að ábyrgðarverðið hækki frá því sem nú er, og kom það engum á óvart, sem veit, hvernig ástatt er fyrir bátaútveginum. Hér er gert ráð fyrir, að ábyrgð ríkissjóðs nái til 1. marz, og þeim auknu útgjöldum, sem af því stafa, verði mætt með því að framlengja og hækka söluskattinn, toll á heimilisvélum o.fl. og svo leyfisgjöldin. Það má skipta frv. í tvo meginþætti, bráðabirgðaúrræði til bráðabirgða og bráðabirgðaúrræði til frambúðar. Bráðabirgðaúrræði til frambúðar tel ég vera að hækka ábyrgðarverðið og á móti því að hækka söluskattinn, sem þýðir 25% tollhækkun á flestar nauðsynjavörur. Ég segi til frambúðar, því að ef menn neyðast til að samþykkja þennan nýja toll, hver trúir því þá, að þingið sjái sér fært að samþykkja nýja till. um að fella hann burt seinna? Ég álykta því, að samþykkt þessa nýja skatts mundi verða til þess, að hann stæði áfram, en ekki gert nýtt átak til hins betra. Þessa hættu hljóta kunnugir að sjá. Ég vil vekja athygli á því, hversu einkennilegt hlutskipti hæstv. ríkisstj. er, bæði sem ríkisstj. og flokksforustu, að vera ætíð óþreytandi að lýsa því yfir, að ekki sé hægt að halda áfram uppbótastefnunni, hvað þá að ganga lengra á þeirri braut. Hvernig stendur þá á því, að hæstv. ríkisstj. leggur nú til að halda áfram þeirri leið, sem hún hefur verið óþreytandi í að fordæma? Hvernig stendur á því, að Sjálfstfl. er ekki tilbúinn að leggja fram sína stefnu í málunum, þegar hann nú hefur ekki við neina að kljást? Í stað þess leggur nú Sjálfstfl. til það, sem forustumenn hans hafa fordæmt með sterkustu orðum tungunnar. Ég veit, að það verður talað um tímaskort og að hæstv. stj. hafi ekki getað ráðfært sig nóg við sérfræðinga sína, en þetta eru aðeins tyllirök að afsaka sig með því. Það er nú meira en mánuður síðan Sjálfstfl. myndaði ríkisstj. og var áður búinn að ákveða í orði, hvað hann ætlaði að gera, og þess vegna er ómögulegt að bera við tímaskorti. Ég vil nú enn spyrja, hvernig stendur á því, að flokkurinn leggur nú fram það, sem hann hefur alltaf þótzt berjast á móti. Ég veit ekki, nema flokkurinn kinoki sér við að sýna stefnu sína, og þykir mér það líklegasta skýringin. Sjálfstfl. sér nú misræmið í þessu og setur því langan kafla í grg. um það, að menn megi ekki halda, að á þennan hátt vilji Sjálfstfl. skipta byrðum viðreisnarinnar niður á landsfólkið. Það eru því meinleg örlög að vilja leggja byrðarnar á landsfólkið eftir leiðum, sem okkur eru óskiljanlegar, en leggja samt fram allt aðrar till., sem Sjálfstfl. hefur mjög barizt á móti. Ég geri nú ráð fyrir, að hæstv. ráðh, muni segja, að þetta sé allt málæði úr þm. og ráðstafanir þær, sem í frv. greinir, séu aðeins til bráðabirgða. En ég vil nú spyrja, hvort samþykkt þessa frv. eykur líkurnar fyrir frambúðarlausn. Ég segi nei.

Ég vil þá koma að því, sem nýtt er í málinu, þ.e.a.s. leyfi til að innheimta söluskattinn eftir 1. marz. Það er á mjög ófullkominn hátt gerð grein fyrir því í frv., hve mikilli fjárhæð þessar álögur nema, og vil ég því nú við 1. umr. málsins taka fram nokkrar tölur. Ég hef að vísu haft lítinn tíma til þess að kynna mér allar aðstæður, en hef þó í morgun aflað mér nokkurra upplýsinga hjá ríkisbókhaldinu. Það telur, að 6% söluskattur af innflutningi til nóvemberloka s.l. ár nemi sem næst 18 millj., og mætti því ætla, að allt árið yrði hann a.m.k. 20 millj. Annars ætlaði ríkisbókhaldið að athuga þetta nánar. Til fróðleiks má geta þess, að 161/2 millj. af þessu var lagt á vörur, sem skipað var upp hér í Rvík. Ef þessar tölur eru nærri lagi og gert er nú ráð fyrir, eins og hér í frv., að fimmfalda söluskattinn, þá yrði hann um það bil 100 millj. á ári, en ef miðað er við tíu mánuði, þá yrði þetta 80 millj. til tekjuauka. Ef gert er nú ráð fyrir, að innflutningur minnki, eins og við vitum allir, að þörf er á, og í staðinn fyrir 20 millj. sé reiknað með 15 millj., þá nemur þessi skattur samt 75 millj. pr. anno og fyrir tíu mánuði 60 millj. Það skakkar að vísu ekki miklu við það, sem sagt er í frv., en þó eru þessar tölur yfirleitt hærri. Ég vil í þessu sambandi spyrja, hvernig það er fundið, þar sem talað er um í frv., að ábyrgðarverðið til maíloka kosti 42 millj., mér er það sem sagt ekki vel ljóst. Mér hefur alltaf skilizt, að eins eyris hækkun á ábyrgðarverðinu mundi nema 1,2–1,3 millj. pr. anno. Ég vil því spyrja, hvort reiknað er hér með lægra verði á hraðfrysta fiskinum. Einnig vil ég í framhaldi af þessu fara nokkrum orðum um þá mynd, sem við Alþingi blasir og þetta frv. er einn stór dráttur í. Hér leggur hæstv. ríkisstj. til að hækka aðflutningsgjöldin um 60–80 millj., að vísu til bráðabirgða eins og hæstv. stjórn segir, en ég býst þó við, að það sé til frambúðar. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að leysa vandamál bátaútvegsins aðeins til bráðabirgða og ekki á þann hátt, sem þeir sjálfir telja heppilegastan. Er þetta því gífurlega mikið fjármagn, sem ráðgert er að kasta í hina miklu dýrtíðarhít aðeins til bráðabirgða. Samt sem áður eru, eins og hæstv. atvmrh. tók fram, alveg óleyst vandamál togaraflotans, sem ekki er eins mikið vitað um, en mér skilst, að sá vandi sé töluverður, sérstaklega hvað viðvíkur gömlu togurunum, en þá vill víst enginn taka undir ábyrgð. Það er og sagt, að nýsköpunartogararnir berjist í bökkum, en um afkomu þeirra liggja ekki fyrir neinar opinberar skýrslur. Ég vil þess vegna beina því til hæstv. ríkisstj., hvort hún vilji ekki beita sér fyrir því, að upplýsingar um afkomu togaraflotans verði birtar, svo að einn dráttur enn komi í þá mynd, sem við þinginu blasir.

Til viðbótar þessu eru svo fjárlög þau, sem hæstv. stj. hefur lagt fram, með raunverulegum greiðsluhalla, ef greiða á uppbætur til opinberra starfsmanna. En það versta af öllu er þó, hvernig er með viðskiptin út á við. S.l. ár er áætlað, að verði um 100 millj. kr. halli á viðskiptum við útlönd, og við vitum, að svona er ekki hægt að halda áfram, neina með stórskuldum erlendis. Mér er sagt, að ekki sé hægt að áætla útflutninginn nema um 300 millj., og það er allt, sem við höfum til að kaupa með vörur erlendis, að viðbættri dálítilli Marshallaðstoð, en auðvitað viljum við reyna að komast hjá að nota hana alla sem eyðslueyri. Það lítur því út fyrir, að án stórkostlegrar skuldasöfnunar verðum við að færa innflutninginn niður, bæði til að mæta hækkuðu vöruverði erlendis svo og vegna þess, að innlendar útflutningsvörur hafa fallið mjög í verði á heimsmarkaðinum. Þetta er enn einn dráttur í þá mynd, sem við verðum að hafa fyrir augunum á næstunni. Útlitið er þó ekki geigvænlegra, en við mátti búast og ætti ekki að koma neinum á óvart. Þetta hef ég að vísu oft sagt áður, en segi þetta nú aðallega til þess að undirbyggja þá skoðun mína, að það sé ekki leiðin til að lækna meinsemdina að hækka nú aðflutningsgjöldin og kasta þar með einum steininum enn í verðbólguhítina. Ef þetta eitt verður gert, mundi það aðeins leiða af sér rangindi og truflun. Það er því þjóðarnauðsyn, eins og ég tók fram í upphafi, að alhliða úrræði séu fundin til þess að jafna metin.

Þá er eitt atriði, sem ég vildi minnast á og ég held að þurfi að ræðast í sambandi við þetta mál, þótt ekki séu um það ákvæði í frv. Það var farið inn á það í tíð fyrrv. stj. að gefa útvegsmönnum hluta af gjaldeyrinum frjálsan, þ.e.a.s. hrognagjaldeyrinn o.fl. Ég hygg, að ekki séu til ákvæði í l., sem leyfi þetta, og ég vil segja, að þótt ég tæki þátt í því í fyrrv. ríkisstj. að veita þetta leyfi, þá sé þetta mjög vafasamt. Það þarf ekki lengi að velta því fyrir sér, að mjög vandfarið er með þetta atriði, því að framkvæmdin er þannig, að útgerðarmenn fá leyfi til að ráðstafa sjálfir gjaldeyri fyrir hrogn, Faxasíld o.fl. Þeir skila gjaldeyrinum að vísu til bankanna, en geta svo ávísað honum sjálfir og fá að selja hann með vissu álagi, sem þeir hafa heimild til frá verðlagsyfirvöldunum. Það var byrjað með hrognin, en síðan tekið fleira. Ég hef verið samþykkur þessu, af því að ég álít, að útgerðarmenn hafi þurft þessa með. Þetta er ekki annað en að leggja skatt á neyzluvörur, sem fer svo til framleiðendanna og þeir eru, að mínum dómi, vel að komnir. Vegna þess að ekkert er í l. um þetta atriði, vildi ég spyrja hæstv. ríkisstj. um þetta. Ég álít, að það sé nauðsynlegt, að það, sem gert er í þessum efnum, sé gert hér á Alþ., svo að menn geti fylgzt með því. Ég vil því spyrja hæstv. ríkisstj. um það, hvort það hafi ekki komið til athugunar í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, hvort hún hefur hugsað sér að halda þessu áfram eins og verið hefur, eða hvort hún hefur hugsað sér að breyta til, draga úr eða auka á þessu sviði. Ég teldi nauðsynlegt, að menn fengju hér yfirlit yfir þetta mál.

Enn fremur vildi ég beina því til hæstv. ríkisstj., að mikið er talað um, að ýmsar vörur, sem ganga manna í millum og þykja dýrar, eru álitnar vera fluttar inn í sambandi við frjálsa gjaldeyrinn. Ég hygg, að mikið af þessu sé á misskilningi byggt, og enn fremur er það mín skoðun, að þetta umtal sé ekki heppilegt fyrir útveginn. Ég vildi skora á hæstv. atvmrh. að skýra frá því opinberlega, hvaða vörur það eru, sem leyft er að leggja þessa aukaálagningu á. Það munu vera fáir vöruflokkar og tiltölulega mjög lítið magn, miðað við þá vöru, sem til landsins kemur, sem er flutt inn samkvæmt þessari heimild. Það er því gott að fá þetta upplýst, svo að ekki verði neinir viðskiptahnykkir gerðir í skjóli þessa fyrirkomulags. Ég hygg, að ástæðulaust sé, að menn tali sífellt um það, að einhver vara, sem dýr kann að þykja, sé dýr vegna þess, að svo og svo mikið renni til útvegsins, en slíkt leyfa menn sér að segja. Allt þetta kerfi er mjög ófullnægjandi fyrir útgerðina, vegna þess að það snýr öllu öfugt. Það kemur þjóðinni til að halda, þeim hluta hennar, sem ekki kemur nálægt framleiðslu sjávarútvegsins, að það sé hún eða þeir, sem hirða sín laun, sem styrkja útgerðina eða þá, sem afla verðmætanna, sem lífsafkoma okkar að miklu leyti byggist á. Þetta er einn gallinn, sem fylgir þessu uppbótastandi og er ef til vill ekki síður röksemd fyrir því en annað, að menn þurfa endilega að finna leið út úr þessu feni. Ég held svo, að það væri mjög æskilegt bæði fyrir neytendur og framleiðendur að fá upplýst, hvaða vörur eru fluttar inn fyrir hinn svokallaða frjálsa gjaldeyri. — Ég skal svo láta máli mínu lokið.