22.11.1949
Neðri deild: 3. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2674)

14. mál, innflutningur búfjár

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti.

Þetta mál lá fyrir síðasta þingi og gekk þá í gegnum þessa hv. d. En ekki vannst tími til að afgreiða málið í hv. Ed., því að komið var að þinglokum, þegar málið kom þangað. Hv. landbn. Ed. vannst þó tími til að afgr. málið frá sér, og fjórir af fimm hv. nm. mæltu með frv., en einn á móti. Þá var komið að þinglausnum, og málið dagaði uppi. Það virtist liggja í augum uppi, eftir undirtektum undir þetta mál á síðasta þingi, að málið hefði þingvilja að baki sér í báðum hv. þd., og þess vegna tók ríkisstj. það upp í sumar, eftir að þingi lauk, og gaf út bráðabirgðalög um málið í sama eða svipuðu formi og það var afgr. á síðasta þingi frá þessari hv. d.

Sú breyt., sem hér er farið fram á að gera á l. um innflutning búfjár, er ekki mikil. Aðalbreyt. er sú, að í stað þess að í gildandi l. er gert ráð fyrir því, að ríkið eitt hafi með höndum og annist innflutning þess búfjár, sem á hverjum tíma er flutt inn, er hér gert ráð fyrir, að ríkið geti veitt ákveðnum stofnunum, í þessu tilfelli Sambandi íslenzkra samvinnufélaga og Reykjavíkurbæ, leyfi til þess að annast þann innflutning á búfé, sem þær stofnanir, sem um þau mál eiga að fjalla samkv. l., mæltu með og ríkisstj. leyfir. Er þessi breyt. nánast það að létta af ríkinu þeim útgjöldum, sem þessum málum eru samfara, og taka í sína þjónustu þá krafta utan starfskrafta sjálfs ríkisins, sem vildu leysa málið. Þetta er aðalatriðið. Og með því að mikill áhugi er hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga um að hrinda einum þætti þessara mála áfram, innflutningi á nautum af holdakyni, taldi ríkisstj. rétt að greiða fyrir því með setningu bráðabirgðalaga.

Önnur breyt., sem einnig er í þessu frv. frá gildandi l. um innflutning búfjár, er það, að í þeim. l. er ekki gert ráð fyrir, að það verði leyft að flytja inn lifandi búfé, heldur eingöngu sæði úr búfé til sæðingar á búfé af innlendum stofni. En sú aðferð til innflutnings á búfé tekur langan tíma, upp undir 11–12–13 ár, þar til talið er, að kominn sé hreinkynja stofn í landinu. Og í öðru lagi má benda á, að sérfræðingar telja, að ekki stafi meiri hætta af að flytja inn nýfædda kálfa, ef þeir eru teknir strax eftir burðinn og sótthreinsaðir og fluttir undir eftirliti sérfróðra manna, heldur en í sambandi við það að flytja inn sæði úr búfé. Þá mælir það einnig með innflutningi nýborinna kálfa, að í því tilfelli tekur varúð sú, sem í sambandi við það þarf að hafa til að verjast innflutningi næmra sjúkdóma, ekki lengri tíma en 1 mánuð, í stað þess að innflutningur á sæði mundi verða að vera tíðkaður árum saman til að flytja inn eitt einasta kyn, og hættan því í því sambandi þar af leiðandi því meiri sem lengri tími færi í innflutninginn, og lengri tími, sem færi í sóttvarnir og eftirlit með innflutningnum. Þar að auki kæmi reynsla á búfjárstofninn hér á landi á tiltölulega mjög skömmum tíma, ef fluttir væru inn kálfarnir í stað þess að viðhafa sæðisinnflutninginn.

Það er álit margra manna í landinu, að það sé mjög athugavert og sjálfsagt að gera tilraunir með það að koma hér upp sérstöku holdakyni af nautpeningi. Og ýmsir menn telja, að okkar miklu haglendi víða á landinu séu mjög vel til þess fallin að ala upp á þeim naut af holdakyni til kjötframleiðslu. Það væri réttara og hagkvæmara að nota okkar graslendi svo, heldur en ala á því hesta til kjötframleiðslu, því að það kjöt er þriðja flokks vara, en gott nautakjöt aftur á móti er fyrsta flokks vara. — Ríkisstj. vildi því fyrir sitt leyti greiða fyrir því, að þessa tilraun mætti gera og á þann veg, að ríkið sjálft þyrfti ekki að standa straum af henni, þar sem það hefur þegar í nógu mörg horn að líta.

Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að hv. þd. taki máli þessu með skilningi, og æskja þess, að því verði að loknum umræðum vísað til landbn.