27.03.1950
Efri deild: 81. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (2725)

37. mál, sveitarstjórar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það var ætlun mín að halda mér utan við þessar umr. og að þessi kaleikur, sem hv. þm. Barð. og hv. 8. þm. Reykv. bera á milli sín, færi fram hjá mér, en ég sé, að svo ætlar ekki að verða, því að sýsla sú, sem ég veiti forstöðu, er að ófyrirsynju komin inn í þetta þrætumál, ef till. á þskj. 485 verður samþ. Ég taldi sem sé, að þetta mundi ekki ná til hreppsfélaga, sem hefðu undir 500 íbúa, en verði þessu breytt, svo að það geti náð til allra sveitarfélaga, getur það orðið óþægilegur baggi. Í minni sýslu er hreppur, sem telur 90 íbúa, og þar eru 3 menn í hreppsnefnd. Ef tveim þessara manna dytti í hug að ráða sveitarstjóra, þá gætu þeir ráðið hann með 5.000 kr. árslaunum til langs tíma, og svo er uppsagnarfresturinn 6 mánuðir eftir að ráðningartíminn er útrunninn. Þetta gæti t. d. verið svo, að annar þessara manna vildi verða sveitarstjóri og hinn væri honum tengdur eða vinveittur. Ég vona því, að þetta verði aðeins látið ná til stærri hreppanna, en ekki til þessara minni. — Mér finnst brtt. minni hl. að öðru leyti vera til bóta, nema þá sú síðasta, sem ég get ekki áttað mig á. Ég get ekki skilið, að ekki megi reka sveitarstjóra, ef hann gerir sig sekan um stórfellda vanrækslu, og finnst mér óþarfi að sleppa því. Ég verð því að vera á móti fyrstu og síðustu brtt. hv. minni hl. En frv. er vanskapnaður frá upphafi, og væri bezt að fella það, og sé ég mér ekki fært að fylgja því, jafnvel þótt það verði eitthvað betrumbætt.