25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (2831)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Flm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Ræða hv. síðasta ræðumanns gefur mér tilefni til að segja nokkur orð, og ég gæti trúað því, að hún hefði ekki verið svona, ef hann hefði staðið 20 til 30 ár í samningum fyrir verkalýðsfélög. Og ég er ekki hissa á því, þó að þetta sjónarmið kæmi fram hjá honum, en ég var hissa á því, þegar hæstv. forsrh. tók það fram, að í togaravökulögunum væri um lágmarkshvíld að ræða og að búast mætti við, að í samningum mætti ganga lengra, en l. ákveða. Venjulega er það margt annað en þetta, sem kemur til greina, þegar samið er, og þykir fullerfitt að hreyfa þar til, þó að ekki séu til l. um það. Um það voru allir sammála, þegar togaravökul. voru sett, að þau væru svo miklar réttarbætur, að ef til vill hafi aldrei önnur eins verið gerð fyrir sjómennina, eftir að botnvörpuskipin komu. Áður fyrr voru á skútunum ekki nema 12 tíma vaktir við að draga fiskinn, en þegar botnvörpuskipin komu til sögunnar og áður en togaravökul. voru samþ., þá urðu menn að vinna, þangað til þeir gátu ekki staðið lengur. En það er eitthvað bogið við það, þegar þessi l., sem allir voru jafnhrifnir af og töldu til góðs, eru farin að verka þannig, að farið er að heyrast frá sjómönnunum sjálfum, að það hefði verið betra, að þeir hefðu farið með þessi mál sjálfir. Og mér fannst það skylda mín að láta hv. þm. vita, hvað þeim finnst um þetta, mönnunum, sem eru þeir einu, sem Alþ. hefur samið um réttarbætur fyrir, eða m. ö. o. sýna fram á, hvað mikil afturför hefur orðið á réttlæti hjá hæstv. Alþ., móts við það sem var, þegar l. komu fyrst til greina.

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. landsk. þm. tók fram um vinnuvernd og frv. það, sem hér liggur fyrir um það efni, er því að svara, að þar er um allt annað mál að ræða. Þau l. eru ekki byggð upp á því, hve langan vinnutíma menn mega vinna, heldur eru þau um aðbúnað manna, þegar véltæknin er alls staðar komin, hvert sem maður snýr sér. Það þarf lög um aðbúnað manna, sem vinna á stöðum, þar sem hin stórvirku vinnutæki eru notuð, sem geta verið lífshættuleg, ef ekki eru gerðar ráðstafanir til að vernda líf þeirra manna, sem við þau vinna. Það er bara allt önnur löggjöf, en hér er verið að ræða um. Verndarlöggjöf getur verið alveg eins nauðsynleg fyrir sjómennina fyrir það, þó að ákveðið sé í l., hve langan vinnutíma þeir hafa, því að hún er ekki til að vernda vinnutímann, heldur líf og heilsu manna. Við höfum haft löggjöf um vernd á vinnustöðum lengi, en aðalgallinn á henni hefur verið sá, að hún hefur ekki verið nógu vel haldin, hvorki af atvinnurekendum né þeim, sem hjá þeim vinna. Eftirliti með l. hefur verið mjög ábótavant og eftirlitið kemur því aðeins að fullum notum, að reglur séu haldnar. Það má segja, að þessi stóri lagabálkur um vinnuvernd sé ákaflega nauðsynlegur og kominn fram af brýnni þörf, vegna breyttra aðstæðna, en hann á í sjálfu sér ekkert skylt við þetta mál, sem hér er til umræðu. Vinnutíminn á togurunum var ákveðinn með lögum af nauðsyn, sem var fyrir hendi á þeim tíma, en er nú orðinn aftur úr. Þau l. eru farin að dragast aftur úr þeim kjarabótum á þessum sviðum, sem verkalýðsfélögin hafa fengið til sjós og lands. Það, sem máli skiptir, er, að sjómennirnir eru sjálfir farnir að tala um, að eigi svona að ganga áfram, nefnd sé skipuð á nefnd ofan og ekkert sé gert, þá sé betra að vita, hvort þeir geti ekki farið aðrar leiðir. Það eru 3 ár síðan þetta mál var borið fram, og það er ekki komið lengra en þetta. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að menn vilja fylgja málinu, og ég vona, að það nál fram að ganga á þessu þingi, þar sem hásetar á togurum eru komnir aftur úr öðrum vinnandi stéttum þjóðfélagsins um aðbúnað.