25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2837)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. talaði hér af talsverðum þjósti, og get ég skilið það. Hann gerði sér ljóst, að hv. 6. þm. Reykv. hafði talað af sér og látið í ljós skoðun, sem vafalaust á ekki sem beztan hljómgrunn meðal þeirra manna, sem hann er sérstakur umboðsmaður fyrir hér á þingi. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það langaði engan til að vísa á verkfallsleiðina til að lengja hvíldartíma togarasjómanna, en hv. 6. þm. Reykv. virtist einmitt langa til þess, því að hann sagði, að rétta leiðin í þessu máli sé að afnema togaravökulögin og gera frjálsa samninga um þetta atriði, vitandi það, að jafnþýðingarmikil breyting kemst aldrei fram nema með verkfalli og það mjög löngu verkfalli. Hv. 2. þm. Reykv. virðist ekki vera sammála honum, heldur mér og hæstv. forsrh., og fagna ég því.

Ég sagði ekki annað um öryggismálafrv. en það, að hv. 6. þm. Reykv. hefði ekki farið rétt með, er hann staðhæfði, að þar væru alls engin ákvæði um hvíldartíma verkamanna. Ég tók fram, að þessi ákvæði mundu vera í samningum margra verkalýðsfélaga, þó að mér sé óhætt að fullyrða, að svo er ekki hjá þeim öllum, því að n. hefði varla séð ástæðu til að taka þessi ákvæði í l., hefðu þau alls staðar verið komin inn í samninga. Þau eru ekki í samningum bifreiðastjóra.

Hv. 6. þm. Reykv. segir réttilega, að það atriði í samningum Dagsbrúnar að banna næturvinnu sé ákaflega mikilsvert, og vil ég á engan hátt draga úr því. Ég vil ekki heldur á neinn hátt gera lítið úr forustu hv. 6. þm. Reykv. í verkalýðsmálum. Ég var eingöngu að leiðrétta ranghermi hjá honum. Sé ég enga ástæðu fyrir hv. 2. þm. Reykv. að taka það svo óstinnt upp, allra sízt þegar hann er sammála mér, en ekki hv. 6. þm. Reykv.