17.04.1950
Neðri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (2855)

26. mál, utanríkisráðuneytið og fulltrúar þess erlendis

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv. kom fram á síðasta þingi í líkri mynd og það er nú, og náðist ekki samkomulag þá um málið, en því var þá vísað frá með rökstuddri dagskrá, þess efnis, að í trausti þess, að ríkisstj. gæti hins ýtrasta sparnaðar í þessu efni, þá taki deildin fyrir næsta mál á dagskrá. Nú er meiri hl. allshn. sömu skoðunar og hún var þá, eins og sjá má á nál.. á þskj. 502. Við leggjum til, að málinu verði vísað til ríkisstj., í trausti þess, að í þessum efnum verði gætt fyllstu hagsýni. Ég mun ekki fjölyrða um afstöðu nefndarinnar, en meiri hl. hennar telur það ekki vera tímabært að ákveða með lögum, hvar og hverjir séu sendifulltrúar Íslands erlendis.