13.12.1949
Neðri deild: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2871)

63. mál, fjárhagsráð

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það er nú þannig með mig, að ég hef ekki lesið þetta frv. nægilega ofan í kjölinn til þess að ég hafi getað gert mér fulla grein fyrir því í öllum atriðum og sé því reiðubúinn að fella um það heildardóm. En mig langar þó til að fara um það nokkrum orðum og taka til athugunar sumt, sem hv. 1. flm. hefur sagt.

Hann taldi l. um fjárhagsráð ábótavant á ýmsan hátt, og get ég verið honum samdóma um það; t. d. framkvæmd skömmtunarlaganna, sem hann taldi mjög aðfinnsluverða, svo sem útgáfu seðla fyrir vörum, sem ekki væru til. Það er rétt, að þetta er einn af göllum þessa kerfis, sem byggt er á l. um fjárhagsráð. Kerfið er allt mjög þungt í vöfunum, það eru of margir aðilar með of lítið samband sín á milli, sem hér fjalla um, til þess að samræmi geti fengizt á milli ákvarðana þeirra. Ég flutti á síðasta þingi frv. til l. um breyt. á l. um fjárhagsráð. Þar var lagt til, að viðskiptanefnd yrði lögð niður og yfirstjórn þessara mála færð undir eitt ráðuneyti. Síðarnefnda till. er ekki tekin með í þessu frv., en ég tel hana þó engu þýðingarminni ráðstöfun, en að leggja niður viðskiptanefnd, því að með því móti mætti meira að segja takmarka starf hennar mjög. Og víst er um það, að á meðan margir flokkar stóðu að ríkisstjórn a. m. k., þá hefur það reynzt þungt í vöfum, að svo stór stofnun eigi undir ráðherrafundi að sækja í stað þess, sem réttara væri, að eitt ráðuneyti bæri alla ábyrgð á störfum hennar, en henni sé ekki dreift víða og enginn vilji svo við hana kannast. Vitaskuld kemur þetta síður til greina undir stjórn eins flokks, eins og þeirri, sem nú er mynduð, en það velt nú heldur enginn, hve lengi hún stendur. Og ég hef talið rétt, að yfirstjórn á þessum málum væri á einni hendi, og enn fremur var það till. mín, að viðskiptanefnd yrði lögð niður, svo sem hér er ráð fyrir gert. Það er meginatriði í þessu frv. — Fyrir utan það er svo annað meginatriðið um skiptingu innflutningsins. Hún virðist hér hugsuð nokkuð öðruvísi, en svipaðir aðilar lögðu til á síðasta þingi, en um þessa skiptingu á innflutningnum átti ég till. í frv. í fyrra, sem hneig að því, að einungis 3/4 af innflutningnum yrði skipt upp eftir kvótareglunni, og það sem eftir yrði væri notað til að jafna metin, veita af því nýjum innflytjendum og bæta upp þeim, sem hefði verið hallað á og hefðu meiri sölu, en viðurkennt hefur verið.

Ég er ekki farinn að sjá, að þessar till., þar sem beinlínis er slegið föstu hlutfallinu á milli samvinnuverzlananna og einkaverzlananna, gangi hér í réttari átt. Það er auðvitað vandamál, hvernig þessu skuli hagað, en ég hefði haldið, að það yrði komizt nálægt hinu rétta, ef að því yrði horfið, sem ég lagði til í fyrra.

Ýmislegt er hér fleira, sem mér virðist, að taka þyrfti til athugunar. Þegar úthlutun leyfa er skellt á fjárhagsráð eins og hér er gert, þá er því um leið falið að gera víðtæka útreikninga í ýmsar áttir, og þegar starf þess er orðið svo víðtækt, þá þarf um leið að setja því ákveðnar starfsreglur, eins og ég lagði til í mínu frv., að gert yrði. Ég lagði til, að fjárhagsráð fengi sér til aðstoðar 6 deildir undir fastri stjórn, og færi hver aðili með sérstakt hlutverk. Það virðist einsætt, að ráðinu verði að setja fastar starfsreglur og það sé óhjákvæmilegt að gera samtímis því, að viðskiptanefnd væri lögð niður. Ég ætlaðist til, að úthlutun leyfa í einstökum vöruflokkum yrði falin ákveðnum manni og gerðir hans yrðu daglega lagðar fyrir ráðið til athugunar og yfirlits.

Í sambandi við þetta mál verð ég að minnast nokkrum orðum á annað, sem snertir þetta frv. mjög verulega, enda þótt það sé ekki tekið þar til meðferðar, en það er framkvæmd verzlunarinnar út á við. Hér er aðeins fjallað um framkvæmd hennar inn á við, en þetta tvennt er nátengt. Nú hin síðari ár og ekki sízt síðustu mánuðina hefur sú alda verið uppi í heiminum að reyna að losa um höftin á viðskiptunum landa á milli. Samvinnunefnd Marshallstofnunarinnar hefur haft þar forgöngu og hefur í því skyni komið á „frílistum“ og svokölluðu „glóbakvótakerfi“ í ýmsum löndum, sem kemur því til leiðar, að þau losna undan hinum þrönga stakki tvíhliða samninga sín á milli. Um okkur er það svo, að við getum aðeins farið skammt inn á þessa braut, en e. t. v. gætum við slakað það til á einstökum vörutegundum, að við gætum flutt inn til að fullnægja eftirspurninni og þó heldur meira. En verði það unnt, þá þurfum við ekki á þessum reglum að halda um skiptingu innflutningsins, sem settar eru vegna innflutningshaftanna.

Í frv. mínu á síðasta þingi lagði ég til, að jafnan yrði flutt inn af skömmtunarvörum meira magn, en skammtað væri. Hefði það verið unnt, hefði mikið verið við það unnið. Það, hve neyzluvöruinnflutningurinn er takmarkaður, hefur orðið til þess, að þetta var ekki hægt, en það kemur til af því, að kapitalvöruinnflutningurinn er svo mikill. Ef úr honum yrði dregið án þess að atvinna drægist saman, — sparaðist t. d. innflutningur á skipum og vélum, sem svo stór liður hefur verið í heildarinnflutningnum til þessa, — þá mundi „automatískt“ lagast verulegur hluti af því ólagi, sem nú er á þessum málum. Og við samningu innflutningsáætlunar fyrir árið 1950 álít ég beri að stefna að þessu, því að undir eins og birgðir eru til af vörunum í hverri búð, kemur skiptingin af sjálfu sér. Um innflutningsskiptinguna skal ég annars ekki fjölyrða nú, né þær till., sem gerðar eru um hana í þessu frv. Ég er þeim enn of ókunnugur til þess. Enda þótt ég hafi lesið frv. tvisvar, tel ég mig þurfa að kynna mér það betur. En ég vil leyfa mér að leggja það til við þá hv. n., sem um þetta fjallar, að hún athugi jafnframt þær till., sem ég hef gert um þetta í áðurnefndu frv., og beri þær saman við það, sem hér er lagt til.