17.04.1950
Neðri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (2965)

75. mál, byggingarlán og húsaleigulækkun

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv., frsm. n., sagði, að þetta kæmi misjafnt niður, af því að þannig væri t. d. um þá, sem lánað hefðu út sitt fé til húsa, að þeir yrðu illa úti, ef þetta frv. væri samþ., meðan þeir, sem hefðu lánað fé sitt til fyrirtækja, sem mætti telja alls konar óþarfa, yrðu miklu betur úti. Þetta er rétt. En þetta er það, sem verður fyrir almenning, vegna hverra einustu laga, sem svona eru samþykkt. Þegar t. d. húsaleigul. voru samþ. um 1940, þá eru reyndar raunveruleg yfirráð fjölda manna yfir húsum sínum tekin af þeim. Á sama tíma eru aftur á móti aðrir, sem ekki hafa máske byggt íbúðarhús, en hafa lagt sitt fé til einhverra hluta, stundum þarfra, en stundum óþarfra, sem fengið hafa aðstöðu til þess að halda áfram að ráðstafa sínum eignum og kannske stórgrætt. T. d. hafa bankar lánað einhverjum mönnum fé til þess að kaupa togara og viðkomandi menn stórskulda bönkunum í stríðsbyrjun, en græddu svo á togurunum á stríðstímanum. — Nú gerði ríkið ráðstafanir til þess að svipta þá menn, sem höfðu lagt fé sitt í hinar mjög svo þörfu húsbyggingar, umráðarétti yfir sumum eignum með húsaleigul. Ríkið hins vegar lætur togarana vera áfram á höndum þeirra, sem þá skulduðu mjög mikið í bönkunum, og þar með fengu þeir tækifæri til að græða stórfé, jafnvel fleiri milljónir króna.

Nú er það út af fyrir sig ákaflega þarft verk, að bankarnir skuli hafa lánað til togara, og gott, að þeir hafa verið reknir, og allt slíkt. En það er ríkisvaldið, sem grípur þarna inn í og ræður því, að eigendurnir græða ekki stórfé á sinum húseignum, en togaraeigendur græða hins vegar stórfé á sínum togararekstri. Þetta kemur misjafnt niður á þegnum ríkisins. Og svona hefur það alltaf verið. Og þetta er ekkert sérstakt með þetta lagafrv., sem hér liggur fyrir.

Viðvíkjandi svo þeirri aths., sem meiri hl. hv. allshn. gerir, verð ég að segja að mér finnst hún út í hött. Hv. meiri hl. allshn. segir: „Meiri hl. n. telur, að almennu samningsfrelsi manna verði ekki með réttu kollvarpað með almennum lögum, svo sem frv. þetta gerir ráð fyrir, þar sem það bryti í bága við 67. gr. stjórnarskrárinnar.“ — Um hvað er 67. gr. stjskr.? Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir.“ — Í fyrsta lagi: Meiri hl. allshn. hefur spurt lagadeildina, hvort hún vilji segja sitt álit um það, hvort eignarrétturinn samkv. 67. gr. stjskr. væri brotinn með samþykkt þessa frv. Lagadeildin hefur ekki látið uppi álit sitt um þetta. Meiri hl. allshn. segir, að almennu samningsfrelsi sé kollvarpað með ákvæðum frv., ef samþ. væru. Nú er 67. gr. stjskr. ekki um samningsfrelsi, enda hefur samningsfrelsi manna verið kollvarpað á undanförnum árum. Hins vegar er 67. gr. stjskr. um friðhelgi eignarréttarins. En friðhelgi eignarréttarins hefur hvað eftir annað verið kollvarpað á þessu sviði. Það er gert með húsaleigul., þar sem menn eru ekki látnir geta ráðstafað sínum húsum, af því að það var talin þjóðarnauðsyn að hafa það á þann veg sem gert var. Og það er ekki látið fara eftir þessari gr. stjskr., þar sem stendur: „enda komi fullt verð fyrir.“ Mönnum er ekki bætt það upp, þó að þeir hafi ekki full umráð yfir sínum íbúðarhúsum.

Þetta frv., sem ég flyt hér, miðar til þess að draga úr því misrétti, sem viðkomandi menn verða fyrir af völdum húsaleigulaganna, og miðar því að því að bæta húseigendum að nokkru leyti upp þá skerðingu á friðhelgi eignarréttarins, sem þeir hafa orðið fyrir með l. frá Alþ. hér áður. En það miðar að því að bæta þeim þetta upp á kostnað lánardrottna þeirra, m. ö. o. á kostnað þeirra, sem húseigendur skulda. Það er rétt, að þetta þýðir líka nokkurn ágang á hendur vissra eigenda, sem a. m. k. í mjög mörgum tilfellum eru voldugar og ríkar stofnanir.

Ég held þess vegna að, að svo miklu leyti sem hér kynni að vera brotið í bága við stjskr., þá sé það gert til þess að draga úr harðvítugri brotum á stjskr., sem Alþ. hefur samþ. áður að gera, en ekki fengizt til að laga, — ef um brot á stjskr. er hér að ræða, — og láta byrðar af slíku misrétti koma jafnar niður en verið hefur.

Ég ætla ekki að orðlengja meir um þetta nú. Mér þykir vænt um að heyra, að annað frv., sem ég gat um og allshn. hefur haft til meðferðar, er afgr., og vonast til þess, að áður en langt líður sjáum við, að hitt verði afgr. á einn eða annan hátt, þannig að þessi mál verði tekin fyrir sem heild, sem er ekki vanþörf á.