23.03.1950
Neðri deild: 73. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (2986)

85. mál, eyðing refa og minka

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Hv. þm. Borgf. talaði um þrákelkni mína í þessu máli, en ég hélt nú, að aðstandendur þessa frv. þyrftu ekki að öfunda mig, því að þeir virðast sjálfir eiga nægilegt af þeirri vöru. Í sambandi við brtt. mína vil ég benda á, að minkaeldi hefur verið stundað í Vestmannaeyjum og það með þeim hætti, að ekki hefur nokkur plága af hlotizt. Þeir hafa notað búragerð, sem er talin vera alveg örugg, enda gefið ágæta raun. Höfuðólánið í sambandi við minkaeldið hér á landi er einmitt það, að fyrst þegar dýrin voru flutt til landsins, var búragerðin ófullkomin og auk þess mikið skeytingarleysi við að halda þeim í góðu lagi. Þessi vanhirða leiddi til þess, að dýrin sluppu úr haldi og hefur síðan fjölgað utan búranna. Það má líka benda á, að sá dýrafjöldi, sem nú sleppur úr búrum, er svo lítill í samanburði við þann fjölda, sem gengur laus, að varla mun meira en einn af hverjum þúsund, sem næst, vera sloppinn úr búri, og af því má sjá, hversu nær við erum að útrýma minknum, þó að minkaeldi verði algerlega bannað. En þrátt fyrir þessa staðreynd, þá er ég samþykkur öllum varúðarráðstöfunum í sambandi við þessa plágu, en ég vil þó ekki ganga svo langt, að minkastofn sá, sem við höfum náð inn í landið með miklum kostnaði, verði alveg eyðilagður. Og vegna þess að ég treysti bæði Grímseyingum og Vestmannaeyingum til að gæta dýra sinna, þá legg ég til, að undanþága frá banni við minkaeldi verði gefin fyrir þessa tvo staði. Og ég get ekki séð, að það verði á nokkurn hátt hættulegt fyrir landsfólkið eða verði í veginum fyrir þeirri hreinsun, sem ráðgerð er. — Ég vænti svo, að hv. þm. sýni frjálslyndi í þessu máli og samþ. þessa brtt.