13.02.1950
Neðri deild: 46. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (3040)

113. mál, veiting prestakalla

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það var meginatriði í ræðu hv. 2. þm. Reykv. (EOl), að þjóðkirkjan eigi í raun réttri að vera sjálfstæð stofnun. Ræða hans var fyrst og fremst röksemdafærsla fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju, og allt, sem hann sagði, byggðist að verulegu leyti á því, að þjóðkirkjan væri sjálfstæð stofnun, en það er auðvitað misskilningur. Íslenzka kirkjan er ríkiskirkja, þjóðkirkja, samkvæmt stjórnarskránni, og þess vegna má auðvitað ekki rökræða eins og svo væri ekki. Þegar ég skaut þeirri spurningu til hv. 2. þm. Reykv., hvers vegna hann bæri ekki fram frv. um að gera prestskosningar fullkomlega lýðræðislegar með því að kjósa presta með vissu árabili, þá svaraði hann því til, að hann teldi rangt, að íslenzka löggjafarvaldið hefði afskipti af málefnum kirkjunnar, eða rétt eins og ekki væri um ríkiskirkju eða þjóðkirkju að ræða. Hér gilda ákveðin l. um það, hvernig prestsembætti skuli veitt, og það, sem hér er um að ræða, er, hvernig þessi l. skuli vera, hvort þau skuli vera eins og nú er, eða hvort þeim skuli breyta, eins og lagt er til, að gert verði með þessu frv. Þá taldi hv. þm., að rökin, sem færð væru fram fyrir því í grg. frv., að afnema bæri prestskosningar, gætu að sumu leyti, ef ekki að miklu leyti, átt við um almennar stjórnmálakosningar. t. d. kosningar til Alþ. Þau mundu gilda jafnt um þingframboð og um umsóknir um prestsembætti. Hér er um mesta misskilning að ræða, svo mikinn grundvallarmisskilning, að ekki er laust við, að mig furði á því, að jafngreindur maður og hv. 2. þm. Reykv. er skuli bera þessa röksemdafærslu á borð fyrir þingheim. Það er auðvitað, að þingmenn, bæjarfulltrúar og aðrir slíkir aðilar, sem þátt taka í stjórnmálalífinu, bjóða sig fyrst og fremst fram sem fulltrúa ákveðinna flokka og ákveðinna stjórnmálaskoðana. Þeir bjóða sig fram til þess að fara með ákveðið vald í þjóðfélaginu. Þeir eru, eins og nú er háttað málum í hinu íslenzka lýðræðisþjóðfélagi, fyrst og fremst kosnir sem fulltrúar ákveðinna stjórnmálaskoðana, en ekki sem menn. Skipan Alþ. og sveitarstjórna byggist greinilega á þessari reglu, svo sem sjá má m. a. af þeim ákvæðum, sem gilda um skipan hinna landskjörnu þm., sem allir hafa sína varamenn. Meðal annars kemur það mjög oft fyrir í þingflokki hv. 2. þm. Reykv., að skipt er um menn. Nú var t. d. að taka sæti hér í þessari hv. d. einn af landsk. þm. úr hans flokki, sem hefur verið fjarverandi um langt skeið. Þetta ber þess glögglega vott, að þm. eru fyrst og fremst kosnir sem fulltrúar stjórnmálaskoðana eða stjórnmálaflokka, en ekki sem einstaklingar og ekki vegna persónulegra verðleika og ekki til að framkvæma persónuleg störf, heldur umboðsstörf í þágu ákveðinna stjórnmálaflokka. Hér ber brýna nauðsyn til að greina á milli þrenns. Í fyrsta lagi eru þeir opinberir trúnaðarmenn, sem taka ýmiss konar ákvarðanir, er hafa þýðingu fyrir hagsmuni borgaranna. Slíka opinbera trúnaðarmenn verður að kjósa í lýðræðisþjóðfélagi, og það er megineinkenni lýðræðis, að þeir, sem fara með slíkt vald, eru kosnir. Löggjafarvaldið á í lýðræðisþjóðfélagi að vera í höndum kjörinna manna, af því að það tekur ákvarðanir, sem snerta mjög hagsmuni borgara þjóðfélagsins. Frá þessum kjörnu trúnaðarmönnum verðum við svo að halda algerlega aðgreindum þeim embættismönnum, sem framkvæma ákvarðanir hinna fyrr nefndu. En þriðji meginflokkur hinna opinberu trúnaðarmanna eru þeir, sem fara með dómsvaldið. Hér er um að ræða gömlu regluna um þrískiptingu ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Það er, eins og áður er fram tekið, megineinkenni lýðræðisþjóðfélags, að þeir, sem með löggjafarvaldið fara, séu kjörnir, en til þess ber enga nauðsyn, að þeir, sem með framkvæmdarvaldið og dómsvaldið fara, séu kjörnir, vegna þess að þessir aðilar taka ekki sjálfstæðar ákvarðanir, sem hafa þýðingu fyrir hagsmuni borgaranna, heldur eru þeir bundnir við ákveðnar reglur, sem löggjafarvaldið hefur sett. Það er þess vegna ekkert hagsmunamál fyrir borgarana, að þessir embættismenn séu kjörnir. Nú er það svo, að í þjóðfélaginu er um að ræða einn flokk opinberra embættismanna, sem að vísu eru skyldastir þeim, sem fara með framkvæmdarvaldið, en þó ekki alveg hliðstæðir þeim. Þar er um að ræða embættismenn eins og lækna og presta. Þeir fara ekki með neitt vald, ekki einu sinni framkvæmdarvald. Þeir eru í þjónustu almennings á vissu sviði, læknar til þess að tryggja líkamlega heilsu og velferð þegnanna og prestarnir til þess að framkvæma tiltekin embættisverk og vera sálusorgarar borgaranna. En einmitt vegna þess, að þessir tveir flokkar embættismanna hafa bókstaflega ekki neitt vald, sem neina þýðingu getur haft fyrir hagsmuni borgaranna, er auðvitað enn þá minni ástæða til að kjósa þá en hina, sem fara með framkvæmdarvaldið, t. d. sýslumenn og aðra, sem með dómsvaldið fara.

Með þessu, sem ég hef nú sagt, þykist ég hafa leitt nokkru gleggri rök fyrir því en ég gerði í framsöguræðu minni, að það er alveg óskylt lýðræði, hvort þessir embættismenn, læknar og prestar, eru kosnir, og engar tvær stéttir embættismanna eru eins hliðstæðar og læknar og prestar. Mér er ekki kunnugt um, að nokkurn tíma hafi verið upp á því stungið hér, að læknar væru kjörnir. Það væri í raun og veru engu minni ástæða til að kjósa lækna, en presta. Það mætti kannske segja, ef menn fyrst og fremst bera hag almennings fyrir brjósti, að þýðingarmeira sé fyrir menn að hafa lækna, er þeir geta unað við, heldur en að hafa presta, sem þeir geta sætt sig við. Hitt er annað mál, að hér er um það að ræða, að söfnuðirnir hafa ákveðið vald í sambandi við kosningu presta, og í þessu frv. er gert ráð fyrir, að það vald verði af þeim tekið. Aftur á móti hafa menn ekki haft skilyrði til að hafa áhrif á kosningu lækna og þess vegna sakna þeir þess ekki. En ég er alveg sannfærður um, að nokkrum árum eftir að l. hefði verið breytt, mundi enginn finna til þess, að neitt hefði verið frá honum tekið, frekar en að menn finna nú ekki til þess, að þeir geta ekki ráðið lækna með almennum kosningum. Það er því á algerðum misskilningi byggt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði síðast í ræðu sinni, að það, sem að væri stefnt með þessu frv., væri að afnema það, sem eftir væri af lýðræði innan íslenzku þjóðkirkjunnar. Ég tel mig hafa glögglega sýnt fram á, að þetta er spurningunni um lýðræði algerlega óskylt.

Hæstv. dómsmrh. fór nokkrum orðum um frv. og gat þess, að prestastéttin sjálf hefði ekki gerzt formælandi þessa máls, málið hefði ekki verið rætt á prestastefnunni. Til þess eru sérstakar ástæður. Það var haldin prestastefna, rétt eftir að málið kom fyrst fram, en það mun ekki hafa verið sent henni nógu snemma til þess að hægt væri að ræða það. Þegar prestastefna var haldin aftur, þá mæltumst við flm. til þess við biskupinn, að hann legði þetta mál fyrir prestastefnuna. Hann færðist undan því og bar því við, að dagskrá prestastefnunnar væri fullákveðin. Ég hygg, að ástæðan fyrir því, að biskup vildi ekki leggja þetta fyrir prestastefnuna, hafi verið sú, að hann hafi búizt við deilum um þetta mál, og að hann hafi ekki viljað efna til mikilla deilna á þeirri prestastefnu. — Það er algerlega rétt, og ég tek undir það með hæstv. dómsmrh., að aðalatriði þessa máls, sem hér um ræðir, er það, hvort líklegt megi telja, að almenningur fái þá presta, sem hann helzt vildi, ef þessari skipan verður breytt. Ég sé enga ástæðu til að óttast annað. Hæstv. dómsmrh. nefndi dæmi um það, að t. d. mundi Reykjavík hafa farið á mis við ágætan prest, síra Bjarna Jónsson, ef kosningarl. hefðu ekki verið í gildi. Það má vera, að ef til vill hefði síra Bjarni ekki verið skipaður, þegar hann fyrst sótti um embætti hér í Reykjavík. En engan vafa tel ég á því, að slíkum afbragðsmanni og kennimanni hefði bráðlega staðið Reykjavíkurembætti til boða, ef hann hefði leitað eftir því. Og hinu má heldur ekki gleyma, að einnig má nefna dæmi og m. a. s. mörg dæmi, sem sýna, að menn, sem allir hefðu verið sammála um, að bezt hefðu verið að embættunum komnir og söfnuðirnir hefðu verið ánægðastir með, hafa ekki sótt um laus prestsembætti vegna þess, að þeir hafa álitið, að aðrir mundu sækja á móti þeim, og þeir hafa ekki viljað standa í prestskosningum og öllu því, sem af slíku leiðir, þó að ekki nefni ég nöfn í því sambandi. Þó að vafalaust megi á það benda, að í ýmsum tilfellum hafi val presta með frjálsum kosningum tekizt vel, þá má líka benda á fjölmörg dæmi þess, að ágætir prestar hafa langan starfsaldur dvalið um kyrrt í litlum brauðum, þar sem starfshæfni þeirra og hæfileikar hafa engan veginn notið sín. Þeir hafa veigrað sér við að sækja um stærri brauð og ábyrgðarmeiri störf beinlínis vegna þess, að þeir hafa ekki viljað leggja út í prestskosningar, og því hefur í mín eyru verið haldið fram, að ein skýringin á því, hversu lítil aðsókn hefur verið í prestastéttina undanfarin ár, sé m. a. það fyrirkomulag, sem haft er á veitingu prestsembætta. Það þykir heldur óvænlegt, eftir að hafa lokið guðfræðiprófi, að eiga þess ekki kost að komast í embætti nema með kosningabaráttu og geta svo ekki skipt um embætti án þess að leggja út í nýja kosningabaráttu. Ég get líka viðurkennt ummæli hæstv. dómsmrh. um það, að sú reynsla, sem menn hafi af pólitískum embættisveitingum ráðh. á Íslandi, sé ekki allt of góð. Mér hefur verið það fullljóst, og m. a. þess vegna flutti ég fyrir tveim árum frv. hér í þessari hv. d. um embættaveitingar, þar sem gerð var tilraun til þess að stinga upp á skipan, sem átti að reyna að fyrirbyggja misnotkun pólitísks valds í sambandi við veitingu embætta. Mér er ljóst, að mjög mikill vandi er að fyrirbyggja það, að pólitískur ráðh. misbeiti valdi sínu. En prestsembættin eru engan veginn þýðingarmestu embættin, sem pólitískir ráðh. veita, og meðan menn telja, að þeir geti veitt embætti eins og hæstaréttardómara-, sýslumanna-, lækna- og biskupsembætti — hann er ekki kjörinn nema viss skilyrði séu uppfyllt —, þá fæ ég ekki séð, að ekki sé eins hægt að fela honum veitingu prestsembætta. Hæstv. dómsmrh. ræddi um ákvæði 2. gr. frv. og benti á, að ekki væri skýrt á um það kveðið, hvort sóknarnefnd þyrfti að vera algerlega sammála til þess, að atkv. hennar teldist gilt, eða hvort átt væri við meiri hl. Önnur gr. frv. er orðuð af kirkjuráði og send menntmn. sem till. kirkjuráðs. Við flm. tókum hana óbreytta upp í frv. Ég hef lagt þann skilning í þetta ákvæði, að nægilegt væri, ef um meiri hl. sóknarnefndar væri að ræða. Mér finnst sá skilningur eðlilegastur.

Að síðustu vil ég geta þess, að þau ummæli mín áðan, að sú kosning, sem nýlega hefur farið fram í fríkirkjusöfnuðinum og sú kosningabarátta, sem þar var háð, hafi sumpart verið tilefni til þess, að við vöktum málið upp aftur, ber ekki að skilja svo, að ég telji ekki þann prest, sem þar var kosinn, vel að embættinu kominn. Þvert á móti. Ummæli mín má ekki skilja svo, að þetta frv. hafi komið fram vegna þess, að embættið hefði verið veitt öðruvísi, ef það hefði verið í höndum ráðh. að veita það: Tilefnið til þess, að við vöktum málið á ný í sambandi við fríkirkjukosninguna, var hin heiftúðlegi áróður, sem var viðhafður í söfnuðinum í sambandi við kosningarnar. Hann harma ég og hef þá bjargföstu skoðun, að slíkt sé kirkjunni ekki til góðs.