29.11.1949
Efri deild: 6. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (3141)

30. mál, stóríbúðaskattur

Gísli Jónsson:

Ég vil aðeins benda hv. 1. flm. á það, að ræða hennar sannaði fullkomlega, hversu lítið hún er kunnug þessu máli. Hv. þm. gekk fram hjá þeim grundvelli, sem ég lagði fyrir hana, vegna þess að hún hefur ekki kynnt sér málið í heild. Mér sem öðrum er kunnugt um menntun og gáfur hv. þm., og þær eru meiri, en er samboðið þessari svarræðu. Getur það ekki afsakazt af öðru en vanþekkingu á málinu. Það er auðvelt að svara því, hvernig þetta verkar samkvæmt þeim útreikningum, sem ég tók. Ég spurði, hvort hv. flm. hefði kynnt sér, hvort þetta gæti komizt upp í 37 þús. kr. skatt á ári, eða hvort hún teldi þetta eðlilega skattálagningu, en hv. flm. kom ekki nærri að ræða það efnislega. Það gekk svo langt, að flm. var ekki ljóst, að þetta ætti að renna í ríkissjóð, en talaði um, að þetta ætti að renna í sérstakan sjóð. Það er ákveðið, að þetta er ríkisstyrkur, sem nota á til ákveðinna verkefna eins og t. d. benzínskatturinn, sem er notaður til viðhalds á vegum, og benzínskatturinn rennur í ríkissjóð.

Hv. flm. talaði um, að ég hefði gerzt talsmaður ákveðinnar stefnu og hún væri mér ekki sammála um þá stefnu. Húsaleigumálin eru ekki hér til umr., en það er rétt, að ég hef gerzt talsmaður þeirrar stefnu í húsnæðismálunum, sem ekki eingöngu traðkar á rétti þeirra manna, sem styrkjalaust af sjálfsdáðum hafa tekið að sér það hlutverk, sem nú þykir svo mikils virði, að ríkissjóður verður að leggja stórkostlega fjármuni, til þess að þetta geti haldið áfram. Þetta hefur verið min stefna í húsnæðismálunum, og ef hv. flm. heldur, að það verði bætt úr þeim málum með því að ýta þessum mönnum af athafnasviðinu, þá er það misskilningur. Það er mjög langt þangað til hægt verður að ýta þeim mönnum burtu, sem hafa verið að byggja yfir sig og sína, og það mundu sjálfsagt margir finna til byrði, ef ætti að taka þá stefnu í húsnæðismálunum yfirleitt. Ég hef gerzt talsmaður á móti þeirri stefnu, en það er svo að skilja, að flm., ef hún er á öðru máli, þá sé það af því, að hún vilji gerast talsmaður þeirrar stefnu.

Hv. flm. talaði um, að þetta frv. hefði legið fyrir Alþ. En veit hv. flm., hvernig afgreiðslu þetta mál fékk á s. l. þingi? Ég held, að það hafi ekki einu sinni komið nál., hvorki frá meiri hl. né minni hl., því að þess var krafizt, að málið væri tekið úr n. til afgreiðslu fyrir d., án þess að nokkuð væri búið að ákveða sig um það, hvort n. mælti með frv. eða ekki. Þetta var afgreiðsla málsins, og það bendir til þess, að fullkomin ástæða sé til að athuga frv., eins og hæstv. dómsmrh. benti á, og enn meiri ástæða til að fara um það meira, en örfáum orðum, þegar það er lagt fram.

Þá minntist hv. flm. á, að það væri ekkert annað, en að láta íbúðirnar standa auðar. Mér er spurn. Bætir það úr húsnæðismálunum, ef fleiri íbúðir standa auðar, af því að ekki er hægt að leigja þær, vegna þess að fjárfestingarleyfi til að breyta þeim fæst ekki? Ég hafði þó skilið það svo, að eitt af atriðunum, sem þetta mál ætti að leysa, væru húsnæðisvandræðin. En það yrði ekki til þess að bæta úr í þessu efni, þó að margar íbúðir stæðu auðar, af því að ekki fylgdu þeim eldhús, böð eða stigar til að komast upp í þær. Nei, ég held, að þetta sé svo mikið vandamál, að það þurfi miklu betri athugun, en hér hefur verið gerð, og hún verður náttúrlega gerð í þeirri n., sem fær málið til meðferðar. Ég er hins vegar ekki sammála hæstv. ráðh. um það að geta fylgt þessu frv. í nokkurri mynd. Mér skilst þetta frv. ekki vera annað en skattamál, og eins og ég benti á í minni fyrstu ræðu, að ef þetta á að bæta úr húsnæðisvandræðum, er auðveldari leið að skammta húsnæðið. En ég get ekki fylgt þeirri stefnu, sem kemur fram í frv., að nota þetta atriði sem hreint skattamál og þvinga menn þannig til þess að yfirgefa einhvern hluta af húsnæði sínu. (RÞ: Mundi ekki skömmtun hafa sömu áhrif?) Þá er komið inn á allt annað atriði. Þá eiga viðkomandi aðilar að taka að sér skyldur í sambandi við íbúðir sínar. Eftir þessu frv. verður útkoman sú, að búi t. d. hjón með tvö börn í húsnæði, sem ekki er skattskylt, sem verða fyrir þeirri sorg að missa annað barn sitt, þá eiga þau að greiða skatt, vegna þess að íbúðin verður þá of stór. Fyrir það ólán, sem þau hafa orðið fyrir, að missa barn sitt, þá verða þau annaðhvort að greiða skatt eða leigja út herbergið. Það væri ekki leiðinleg sending til hjónanna að fá einhvern fylliraft inn í íbúðina. Finnst nú hv. flm. sæmilegt að bera þetta fram? Það eru, eins og bæði ég og hæstv. ráðh. höfum bent á, þúsund erfiðleikar, sem koma fram, ef framkvæma á þetta eins og hér er gert ráð fyrir. Ég held, að hv. flm. ætti að athuga þetta mál betur, áður en hún fylgir því með atkv. sínu út úr þessari deild.