16.02.1950
Efri deild: 56. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (3177)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir, að frestað var umr. um þetta mál, til þess að n. hefði tækifæri til að ræða og athuga till., sem ég bar fram hér á þskj. 283. N. hefur athugað brtt. og hún hefur sent hana til umsagnar til stjórnar fiskimálasjóðs. Vil ég leyfa mér að lesa hér upp svarið frá þessari sjóðstjórn, með leyfi hæstv. forseta, þar sem n. þótti ekki ástæða til að gefa út framhaldsnál. og bréfið hefur þá ekki heldur verið prentað sem þskj., en það hljóðar svo:

Brtt. á þskj. 283 við frv. til laga um breyt. á l. um fiskimálasjóð, sem fylgdi bréfi yðar, dags. 3. febrúar s. l., var tekin til umr. á fundi sjóðstjórnarinnar 3. febr. s. l. Sjóðstjórnin er því alveg mótfallin, að ákvörðunarréttur hennar á meðferð sjóðsins sé takmarkaður á þann hátt, sem brtt. ber með sér, enda er útilokað, að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar um lánsloforð, ef brtt. verður samþ.

Ég verð að segja, að mig undrar mjög, að stjórn, sem falið er svo mikilsvert verkefni sem hér á sér stað, skuli leyfa sér að senda hæstv. Alþ. svona bréf, sem fullt er af hroka annars vegar og fer alls ekki rétt með staðreyndir hins vegar. Í fyrsta lagi er það algerlega rangt, að ef brtt. verði samþ., þá geti ekki sjóðstjórnin staðið við þær skuldbindingar um lánsloforð, sem hún hefur gefið, svo framarlega að láns1oforðin séu ekki annað eða meira en hæstv. sjútvmrh. hefur samþ. og legið hafa fyrir þinginu. Og ég hef enga ástæðu til að ætla, að annað eða meira hafi verið af þeim loforðum gefið, enda er þá gengið nægilega langt, þar sem lofað er að ráðstafa fé á árinu 1950 og 1951, og virðist hér, sem sjóðstjórnin hafi alveg litið fram hjá þeim staðreyndum, að með því frv., sem búið er að samþ. hér í þessari hv. d. á þskj. 279, þá er sjóðnum tryggt einnar millj. kr. hærra framlag á hverju ári, en nú er. Um það hefur deilan staðið hér, hvort rétt væri að gera það, m. a. vegna þeirrar meðferðar, sem þessir menn hafa haft á sjóðnum. En úr því að svo er komið, að meiri hl. þessarar hv. d. vill, að þetta fé verði tryggt, og verði því ekki breytt í hv. Nd., þá er það raunveruleiki, að sjóðstjórnin hefur eins miklu fé yfir að ráða til útlánanna, þó að mín brtt. verði samþ., það er að leggja 60% af tekjum sjóðsins til útlána samkv. 4. gr. Þá hefði stjórn sjóðsins einmitt fé til útlána sinna eins og hún hefur í dag á þann veg, sem hún lánar út féð. Þess vegna eru þetta hreinar rangfærslur hjá sjóðstjórninni að fullyrða, að hún geti ekki staðið við skuldbindingar sínar um lánsloforð, ef samþ. verður mín brtt. — Hitt gegnir svo furðu, að þegar með ákvæðum í lögum er fyrirskipað, að einn sjóður skuli gera eitthvað sem aðalverkefni og það er enginn ágreiningur um það eftir l., hvert það verkefni er, þá skuli sjóðstjórnin leyfa sér ár eftir ár að taka langmestan hluta af tekjunum, sem sjóðurinn fær, til þess að framkvæma önnur verkefni, sem eftir lögum sjóðsins aðeins er heimilt fyrir sjóðinn að styðja, en eru alls ekki aðalverkefni sjóðsins. Það er vegna þessarar misnotkunar á fé sjóðsins, sem þessi brtt. er fram komin á þskj. 283, og það er ekki orðið lengur stætt á að gefa þetta vald til þessara manna að fara með þetta fé, eins og þeir hafa gert það á undanförnum árum, og vanrækt fullkomlega þau verkefni, sem eru undirstaðan undir því, að hægt sé að halda áfram sjávarútvegi í landinu, sem einnig eru þau verkefni, sem sjóðnum samkv. l. var aðallega ætlað að styðja og framkvæma, enda sýnir það sig, að kröfurnar, sem gerðar eru til Alþ. um fjárframlög til þess að standa undir kostnaði við framkvæmd á þeim verkefnum, þær eru svo háværar, sem eðlilegt er, vegna þess alveg sérstaklega, að þeir menn, sem farið hafa með þetta fé, sem fiskimálasjóðurinn hefur haft til umráða, hafa alveg brugðizt skyldum sínum í þessu efni. Það kom fram m. a. þess vegna þáltill. í hv. Sþ. um að láta svo og svo mikið fé beint úr ríkissjóði, auk þess, sem látið er hér í þennan sjóð, til þess að standast kostnað af síldarrannsóknum á þessu ári og á komandi ári og til þess að fylgjast með öllum þeim nýjungum, sem fram kunna að koma, innan lands og utan, í sambandi við síldveiðar, svo að það væri hægt að nota þær verksmiðjur, sem hafa verið byggðar m. a. hér við Faxaflóa, að vetrinum til og ná hér þeirri síld, sem vitað er, að stendur hér í flóanum allan veturinn, en hefur ekki tekizt að ná, vegna þess að ekki hafa verið til nægilega góð veiðitæki til þess að ná henni, og svo að það væri hægt að bæta stórkostlega hag útvegsmanna með áframhaldandi auknum síldveiðum og verksmiðjuiðnaði, sem á síldveiðum byggist. En fiskimálasjóðsstjórnin, sem hefur milljónir króna yfir að ráða og á fyrst og fremst að inna þetta verkefni af hendi, spyrnir við fótum og segir: Það er ekki þetta, sem ég vil. Ég vil gjarnan taka á móti 10 manna nefnd, sem sé skipuð til þess að athuga þetta mál, en ég vil ekki láta hana hafa neitt fé til þess að starfa fyrir. — Og þegar svo kemur hér fram till. í þinginu um að tryggja, að ekki sé hægt að fara svona með þessi mál, þá rís þessi stjórn upp og segir: Nei, við látum ekki bjóða okkur þetta. Við viljum hafa leyfi til að ráðstafa því fé, sem sjóðurinn hefur yfir að ráða, til þess, sem er aukaatriðið, en ekki til þess, sem eftir lögum sjóðsins er aðalverkefni hans.

Ég skal ekkert um segja, hvernig hv. samþm. mínir í hv. þd. líta á þetta mál. N. sá ekki ástæðu til að leggja til að gera breyt. á till. Hún kemur hér náttúrlega til atkv. Ég vænti þess fastlega, að hv. þdm. sjái ástæðu til að samþ. brtt. Og ég teldi það mjög mikla skammsýni, ef á sama þingi, sem auknar væru tekjur þessa sjóðs um eina millj. kr. á ári, væri ekkert gert til að koma í veg fyrir, að þessir sömu menn, sem farið hafa með stjórn sjóðsins, fari enn lengra út fyrir þau takmörk, sem þeim eru sett í l. fyrir starfsemi sjóðsins.