16.02.1950
Efri deild: 56. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (3178)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara langt út í þetta mál nú. Það hefur verið rætt ýtarlega áður. Ég vil þó aðeins víkja að einu eða tveimur atriðum, sem fram komu í ræðu hv. þm. Barð. um leið og ég lýsi afstöðu minni til þeirrar brtt., sem fram er komin frá honum. Honum þótti furðu gegna orðalag og efni þessa bréfs, sem n. barst frá stjórn fiskimálasjóðs, og m. a. fullyrti sá hv. þm., að það væri gersamlega rangt hjá sjóðstjórninni, að hún gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, ef þessi till., um að binda 60% af árlegum tekjum sjóðsins í starfsemi samkv. 4. gr. l., yrði samþ. Og svo bætti hv. þm. Barð. við, að sjóðstjórnin gengi fram hjá þeim staðreyndum, að með frv. því, sem hér liggur fyrir, ef að lögum verður, sé sjóðnum tryggð ein millj. kr. árlega til viðbótar þeim tekjum, sem hann áður hefur haft, — algerlega tryggð, undirstrikaði hv. þm. Barð. Ég vil nú aðeins leyfa mér að biðja þá hv. þm., sem hér eru inni og kunna að hafa fylgzt með fyrri umr. um þetta mál, að bera þessa fullyrðingu hv. þm. nú, um það, að þetta einnar millj. kr. framlag sé alveg tryggt fyrir sjóðinn, saman við fullyrðingar hans í fyrri ræðum undir umr. um þetta sama mál, um það, að þessi l., þó að samþ. væru, yrðu aðeins viljayfirlýsing, pappírsgagn o. s. frv. Ég vil aðeins leyfa mér að benda hv. d. á það misræmi, sem mér virðist hér koma fram í málflutningi þessa hv. þm.

Við höfum áður rætt nokkuð um heimildarleysi eða heimildir sjóðstjórnarinnar til þess að verja svona eða svona miklu af fé sjóðsins samkv. verkefnum 4. gr. l. og verkefnum 5. gr. l. hins vegar, og hirði ég ekki að fara út í það mál enn á ný. En afstaða mín til þessarar brtt., sem hér liggur fyrir, hún er í stuttu máli þetta, að ég legg til, að brtt. verði felld. Það er af tveim ástæðum. Fyrst og fremst því, að eins og sjóðstjórnin tekur fram, þá er mikið fé bundið, ef svo má segja, í loforðum, sem sjóðstjórnin hefur gefið um lán, sem og samþ. hafa verið af ráðh., að mér skilst. Og ég tel, eins og ég hef oft tekið fram, að eins og ástatt er þá sé mjög brýn þörf á, að hægt verði að uppfylla þessi loforð og veita þessi lán, og það heldur fyrr en síðar, — mjög brýn þörf. Í öðru lagi er svo það, að ég lít svo á, að þörfin fyrir fé á þessum sviðum geti verið svo breytileg frá ári til árs, að það sé ekki rétt að binda þetta ákvæði til langs tíma með lögum, og ég veit, að þar greinir okkur mjög á, mig og hv. þm. Barð. En ég fyrir mitt leyti tel þeirri skiptingu fjárins í næstu framtíð betur borgið í höndum sjóðstjórnarinnar og undir yfirumsjón sjútvmrh. — því að það skilst mér, að þessi mál hljóti að vera, — ég tel skiptingu fjárins betur borgið með því fyrirkomulagi en með því, að Alþ. nú ákveði takmörkin um þetta.